ER HONUM SJÁLFRÁTT ? FRÁBÆR GREIN OFURBLAÐAMANNSINS AGNESAR BRAGADÓTTUR Í MORGUNBLAÐINU.

Predikarinn má eigi bindask.  Hér er birtur frábær pistill ofurblaðamannsins Agnesar Bragadóttur um Ólaf Ragnar Grímsson sem var birtur í Morgunblaðinu 25.10.2009 :

Agnes Bragadóttir    Agnes segir :

„Er Ólafi Ragnari Grímssyni sjálfrátt ?

Í hvert skipti sem ég hef vikið svo mikið sem einu orði að Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í pistlum mínum hefur slíkt kallað á mikil viðbrögð, bæði neikvæð og jákvæð – einkum þó jákvæð. Ég hef fundið að um land allt á ég skoðanasystkin, þegar ég held því fram að þjóðin sé fyrir margt löngu búin að fá sig fullsadda á lýðskrumi, yfirborðsmennsku og tvískinnungi forsetans, og það sé nánast óbærileg tilhugsun að forsetinn ætli sér að hengslast í embætti í næstum heil þrjú ár í viðbót. Skoðanasystkin mín eru há sem lág, sauðsvartur almenningur og þjóðþekktir einstaklingar, og sama máli gildir um hin, sem eru algjörlega á öndverðum meiði við mig, í mínu mjög svo takmarkaða áliti á forsetanum. Þessu finnst mér rétt að halda til haga strax í upphafi.

Vegna hinna sterku viðbragða sem gagnrýni á forsetann virðist vekja hef ég einatt eftir forsetaskrif, sem nota bene hófust af minni hálfu hér á síðum Morgunblaðsins sumarið 1996, þegar Ólafur Ragnar var kosinn forseti, hugleitt að nú væri nóg komið. En svo gerir forsetinn alltaf nýtt og nýtt axarskaft, aftur og aftur. Því sjáið þið enn eina kveðju mína til ábúandans á Bessastöðum, lesendur góðir, og ég lofa engu um að hún verði sú síðasta.

Það sem kveikti í pirringsstöðvum heilans að þessu sinni voru orð og æði forsetans, fyrst í Spegli Ríkisútvarpsins fyrir rúmri viku, hinn 16. október, og svo aftur í viðtali við Sölva Tryggvason á Skjá einum á miðvikudagskvöldið í þessari viku.

Í viðtali Kristins Hrafnssonar fréttamanns í Speglinum við forsetann tókst Kristni með herkjum að skáskjóta inn örfáum spurningum um þá hörðu gagnrýni sem forsetinn, helsta klappstýra útrásarvíkinganna undanfarin ár, hefur mátt sæta. Orðavaðall forsetans snerist einkum um þann samhug, velvilja, jákvæða áhuga, samveru, gleði og samhjálp, sem hann hefði orðið var við hjá fólkinu í landinu á undanförnum 12 mánuðum. Loksins þegar forsetinn vék svona í eins konar framhjáhlaupi að ítrekaðri spurningu Kristins um þá hörðu gagnrýni sem hefði beinst að honum sagði forsetinn orðrétt: „Ja, það hljómar kannski skrýtið að svara þessari spurningu neitandi, en ef ég á að svara henni sannleikanum samkvæmt, þá er bara svarið nei.“

Jahá! „Sannleikanum samkvæmt“ sagði forsetinn. Veit hann hvað er að svara sannleikanum samkvæmt? Er forsetinn algjörlega sambandslaus við fólkið í landinu, eða kann hann ekki að skammast sín?

Ég hallast að því að Ólafur Ragnar sé hvorki blindur né heyrnarlaus, þannig að svar mitt við eigin spurningu er: Ólafur Ragnar kann ekki að skammast sín.

Aðeins síðar í Spegilsviðtalinu sagði Ólafur Ragnar: „Ég vík mér ekkert undan gagnrýni hvort sem hún birtist í persónulegum samskiptum eða annars staðar. En það er eins satt og ég get best greint frá að þegar er farið eins og ég hef gert... þá verð ég ekki var við þessa gagnrýnisöldu eða þennan hamagang út í forsetaembættið eða mig.“ Hið sanna er, að Ólafur Ragnar víkur sér alltaf undan gagnrýni, drepur henni á dreif og talar um A þegar gagnrýnendur spyrja hann um B. Í viðtali Sölva við forsetann á Skjá einum kom þetta eiginlega enn betur í ljós en í Speglinum.

Ég hvet lesendur sem „misstu“ af Speglinum hinn 16. október sl. að hlusta á hann á fréttavef RÚV og sömuleiðis hvet ég þá til þess að horfa og hlusta á viðtal Sölva við forsetann miðvikudagskvöldið 21. október sl. á heimasíðu Skjás eins. Dæmi svo hver fyrir sig.

Ólafur Ragnar Grímsson, ein helsta klappstýra útrásarvíkinganna, sem hefur á kostnað banka og stórfyrirtækja ferðast í einkaþotum þeirra, þegið fríðindi og veislur af sömu mönnum, flutt makalausar þjóðremburæður út um allan heim um hina glæstu bankamenn sem allt kunnu öðrum betur, verið umfjöllunarefni í gríðarlegum lofgjörðardoðranti Guðjóns Friðrikssonar um forsetann – doðranti sem vitanlega var fjármagnaður af hinum föllnu einkabönkum, er enn við sama heygarðshornið. Hann var í góðri trú. Hvar værum við stödd hefði forsetinn verið í vondri trú?!

 

 

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mofi

Þetta er auðvitað allt hið dapurlegasta. Samt tel ég að forsetinn ætti að hjálpa íslendingum sem eru í viðskiptum erlendis en auðvitað fara mjög varlega í þannig ef ske kynni að viðkomandi myndi ekki standa sig vel. Í þessu tilfelli þá hélt öll þjóðin að þarna væru á ferðinni snillingar sem væru búnir að sýna að þeir gætu þetta.  Það er samt full ástæða að gagnrýna margt af því sem hann gerði, eins og að þyggja eitthvað frá einka aðilum tel ég ekki vera viðeigandi.

p.s. gat ekki svarað þér í gegnum bloggið; einhver tæknileg vandamál hjá þeim :/

Mofi, 22.12.2009 kl. 11:06

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Það er dapurlegt hvernig þessi maður er búinn að eyðileggja þetta embætti. Ég hef reyndar alla tíð verið mótfallinn þessu tildurrófuembætti. Þeir sem voru á undan honum héldu sig þó á mottunni sem honum hefur ekki tekist, sem vitað var svosem fyrirfram, og héldu í reglur og hefðir sem embættinu voru settar.

Við þurfum ekkert sérstakt forsetaembætti. Ráðherrar og forseti þings fara létt með að halda þær ræður og orðuveitingar sem embættið sinnir nú. Það gera þeir t.d. í Sviss sem þó mun fjölmennara ríki en við.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 28.12.2009 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband