TÍUND OG FÓRNARGJAFIR ! ENN Í FULLU GILDI ??

Menn hafa spurt sig hvort þessi gjaldheimta sem tíundin er, hafi nú ekki aðeins átt við Ísraelsmenn til forna, og eigi ekki við nú á dögum. Þá finnst mönnum sem þetta sé  eins konar skattur, sem fólk hefur ekkert efni á að greiða eins og kröfur um lífsgæði nútímans eru orðnar. Menn vilja gjarnan fá upplýsingar um það hvað Guð vill að trúaðir geri í sambandi við tíundina. Síðan er hin spurningin hvað sé gert við tíundina, þegar henni hefur verið skilað til kirkjunnar.

Í rauninni eru þessar spurningar einn hornsteina trúarinnar. Að skila  til Guðs 10 % teknanna, er í raun mikilvægt atriði í trúariðkun. Vilji menn af einlægni vita hver vilji Guðs er í þessu efni, eru þeir þá líka fúsir til þess að taka Guð á orðinu og reyna Hann í trú? Ef sú er raunin, þá mun mönnum örugglega bíða dásamleg trúarreynsla, vel þess virði, að allir sem á annað borð gefast Guði ættu í rauninni alls ekki að láta sig fara á mis við. Reynsla þessi er fyllilega þess virði að menn láti reyna á loforð Guðs, eins og hann býður okkur að gera í Orði sínu. Hefjum skoðun okkar á 24 kafla og 1. versi Sálmanna :

 

“Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.”

 

Guð á allt, jörðina og allt sem á henni er. Sömuleiðis á hann okkur og það sem tilheyrir okkur. Þannig er það Guð í sjálfu sér sem gefur okkur möguleikann á að afla okkur tekna og eigna, eins og Hann gefur til kynna í 8. kafla, 18. versi í 5. Mósebók :



Minnstu heldur Drottins Guðs þíns, því að Hann er sá, sem veitir þér kraft til að afla auðæfanna, til þess að Hann fái haldið þann sáttmála, er Hann sór feðrum þínum, eins og líka fram hefir komið til þessa.”

Þá minnir Haggaí spámaður okkur á boðskap Drottins  í öðrum kafla og áttunda versi Haggaí :

Mitt er silfrið, mitt er gullið segir Drottinn allsherjar.”



Í þriðja kafla , versum 7-11 í Malakí tekur Guð folk sitt til bæna varðandi tíundina :


Allt í frá dögum feðra yðar hafið þér vikið frá setningum mínum og ekki gætt þeirra. Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar segir Drottinn allsherjar. En þér spyrjið: Að hverju leyti eigum vér að snúa oss?” 

 

Þarna er vísað til þess að Ísraelsmenn hafi verið að freistast til þess að skjóta undan þessum 10 % tekna sinna í trássi við leiðbeiningar Drottins. Menn voru orðnir vanir því þegar þarna var komið að skjóta undan tíundinni eða bróðurparti hennar. Þeir spurðu :

Að hverju leyti eigum vér að snúa oss?

 

 Drottinn svaraði þeim umbúðalaust í 8. versi:

Á maðurinn að pretta Guð, úr því að þér prettið mig? Þér spyrjið: Í hverju höfum vér prettað þig? Í tíund og fórnargjöfum. Mikil bölvun hvílir yfir yður, af því að þér prettið mig, öll þjóðin.  Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu,…”
 

Hvað táknar þetta ? Í hvað skal tíundin renna ? Hverjir eiga að fá þessar fórnir okkar ? 

Tvennt skal þetta notast í.

  1. Til að standa undir boðunarstarfinu, sem er aldeilis ekki ókeypis. Það kallar Guð fæðslu. Það ber að skiljast sem svo að gefa öðrum andlega næringu  þannig að menn fái tækifæri til að meðtaka náð Guðs og öðlast inngöngu í eilífðarríki Hans.
  2. Þeir sem vinna að sáluhjálp annarra, boða fögnuð Guðs og fræða menn í Orði Hans, eiga að geta lifað af þeim fjármunum sem söfnuðinum ber að færa í hús Guðs.
 

Þegar Hebrearnir komu til fyrirheitna landsins, sem heitir Ísrael á okkar dögum, þá skiptu hinar 12 ættkvíslir Ísraels landinu á milli sín. Þó fengu levítar ekkert land. Ástæða þess var að prestarnir og levítarnir sem þjónuðu í musterinu, máttu ekki vera landeigendur. Tími þeirra skyldi ekki fara í jarðyrkju og veraldleg störf og viðskipti. Starf þeirra skyldi algerlega helgað andlegum málefnum. Fólk af öllum öðrum ættkvíslum átti að gefa tíunda hluta tekna sinna til málefnis Guðs. Þannig tryggði Guð stétt þeirri sem þjónaði Honum, prestunum og levítunum, lífsviðurværi.

 

Þessu hlýddu ættkvíslirnar og allir undu glaðir við sitt. Guð blessaði líka ríkulega folk sitt fyrir trúfesti og fórnarlund. Á þennan hátt viðurkenndu menn í verki eignarhlut Guðs. Jafnframt almennri velmegun, þá höfðu starfsmenn Guðs nóg að bíta og brenna. Þessi ráðsályktun Hans varð til þess að efla málefni Guðs á meðal manna.

 

Í tíunda og ellefta versinu lesum við áskorun frá Guði :

 

“og reynið mig einu sinni á þennan hátt segir Drottinn allsherjar, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun. Og ég mun hasta á átvarginn fyrir yður, til þess að hann spilli ekki fyrir yður gróðri jarðarinnar og víntréð á akrinum verði yður ekki ávaxtarlaust segir Drottinn allsherjar.”



 

Lítum ennfremur á níunda kafla fyrra Korintubréfs Páls postula, nánar tiltekið vers 13 og 14 :

Vitið þér ekki, að þeir, sem vinna við helgidóminn, lifa af því, sem kemur úr helgidóminum, og þeir, sem starfa við altarið, taka hlut með altarinu?
Þannig hefur Drottinn einnig fyrirskipað að þeir, sem prédika fagnaðarerindið, skuli lifa af fagnaðarerindinu.”
 

 

og ennfremur í 5. kafla fyrra Tómoteusarbréfi í versi 18 :

Því að ritningin segir: Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir og verður er verkamaðurinn launa sinna.”



Hafa menn reynt Guð á þennan hátt ?

 

Í þriðja kafla Orðskviðanna  versum 9 og 10 segir :

 

Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar, þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.”


Þá segir í sjötta kafla Matteusarguðspjalls, versi 33 :

 

En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.”



Þá er vel þekkt dæmi þegar Guð Sonurinn Jesú Kristur ávítaði faríseana og  fræðimennina fyrir kulda þeirra og skort á kærleika við náungann, að þá lagði Hann einnig áherslu á nauðsyn þess að sýna trúmennsku í því að skila tíundinni til Guðs málefnis. Þetta lesum við í tuttugasta og þriðja kafla Matteusarguðspjalls í versi tuttugu og þrjú :

 

 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.” 

 

Gott og vel. Hver skyldu laun okkar og blessun vera ef við látum 10 prósentin eftir í ríki Guðs ? Lesum aðeins um það í 8. kafla  5. Mósebókar í versum 4-6 :

 

Klæði þín hafa ekki slitnað á þér og fætur þínir hafa ekki þrútnað í þessi fjörutíu ár. Ver því sannfærður um það, að eins og maður agar son sinn, svo agar Drottinn Guð þinn þig.  Varðveittu boðorð Drottins Guðs þíns, svo að þú gangir á hans vegum og óttist hann.”

Lesum sömuleiðis í síðara Kórintubréfi, níunda kafla og sjöunda versi :

 

“Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.”

Ég nefndi á síðunni hennar Lindu í gær dæmi eins og Rockefeller, Wrigley´s , Hershey´s og Kellog´s.  Þessi fyrirtæki og eigendur þeirra  skiluðu samviskusamlega 10 % af tekjum sínum og töldu sig kvorki geta né vilja svíkja málefni Guðs um tíundina, enda færu þessir þá á mis við ríkulegar blessanir Guðs. Alþekkt eru auðæfi þessara fyrirtækja og eigenda þeirra. Menn geta rétt ímyndað sér upphæðirnar sem þessir hafa látið af hendi rakna.

 

Við skulum líta sem snöggvast einnig á 11. kafla Orðskviðanna í vers 24 og 25 :

Sumir miðla öðrum mildilega, og eignast æ meira, aðrir halda í meira en rétt er, og verða þó fátækari. Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.”


Snúum okkur að spurningum eins og  Guðrún Sæmundardóttir spurði í gær í umræðunni á bloggsíðu Lindu : Það er útí hött að fólk sem er fátækt sé að tíunda.” Og ennfremur : Ég er líka alfarið á móti því að öryrkjar og aðrir bótaþegar séu að gefa peninga sem þeir eiga víst örugglega ekki mikið af.“

 

Við vorum að lesa að Guð ætlast til þess af öllum að skila tíund. Spurningin snýst ekki um hvort menn hafi efni á því, heldur trúmennsku öllu heldur. Erum við tilbúin til þess að gjalda Guði því sem Guðs er ? Eigum við einungis að gjalda Mathiesen það sem Mathiesens er (keisarinn) ? Höfum það hugfast að við eigum í raun ekki þessa fjármuni eins og fram hefur komið. Guð á þá en lofar okkur því ef við skilum Honum 10 % af þeim þá munum við ekki líða skort þrátt fyrir það. Ekki nóg með það, Hann lofar meira að segja enn betri afkomu þeim til handa sem af trúmennsku láta af hendi það sem Hann fer fram á.

 

Þetta er svo sem ekkert sérstaklega lógískt reikningsdæmi að segja að 90 % tekna okkar dugi betur fyrir nauðsynjum okkar en 100 % eiga að gera. Ótal dæmi eru til um fólk sem tekur Hann á orðinu og eignast hlutdeild í loforðum Guðs í 3. kafla Malakí sem við lásum hér að ofan. Menn hafa komist að raun um að Guð er trúr fólki sínu og því sem Hann lofar. Menn hafa komist mun betur af með 90 % en þeir komust áður af með 100 % . Eins og fyrr segir er engin lógík á bak við þessa stærðfræði, en Guð blessar trúfesti sinna manna.

 

Sjáið einnig í þessu efni hvað Guð Sonurinn Jesú Kristur sagði í sjötta kafla Lúkasarguðspjalls, versi 38 :

 

“Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.”

Er ekki kominn tími til þess að menn reyni á fyrirheit Guðs, eins og við höfum lesið ? Menn fái með trúmennsku sinni í tíund og fórnargjöfum sínum upplokið flóðgáttum himinsins, og fengið úthellt yfir sig yfirgnæfilegri blessun eins og Hann lofar hinum trúföstu ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Sæl Predikari. Þakka þér kærlega fyrir innlitið athugsemdirnar á bloggsíðu minni hér á mbl.  Einnig vildi ég þakka þér fyrir þessa samantekt.  Guð elskar glaðan gjafara eins og við vitum, sjá fátæku ekkjuna sem gaf allt sem hún átti, því lík fórn.  Í öllu eigum við að gefa með glöðu geði.  Fórnin verður að vera á mílli þín og Guðs. 

Linda, 10.10.2007 kl. 04:26

2 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Sæll predikari,
Tíundin er ekki skylda okkar sem teljumst "gentiles". Þessi regla kom reyndar langt á undan lögmálinu og varð fyrst til á tímum Abrahams og Melesídek. Samkvæmt hefðinni þá bættu gyðingar þessu ákvæði inní lagasafn sitt og hafa farið eftir því síðan. Jesús gagnrýndi einmitt prestanna fyrir græðgi og yfirgang vegna svona ákvæða. Eins eru dæmi víðs vegar um gamlatestamenntið sem Þetta ákvæði hefur verið misnotað. Það sem Jesús uppfyllti var að gera þetta að VALI og ekkert skydu.

Frumkirkjan var einnig með þessi ákvæði og misnýttu sumir söfnuðir sér þetta í eigin hag. Tíundin er rétt, góð og gild. En einungis ef rétt er farið að innheimtu hennar. Eða ætlar þú að skylda bláfátækt fólk til þess að borga tíund launa sinna sem ganga í þinn söfnuð? Nei, þess vegna á fólk að geta valið og metið sjáft hvað það ræður við að gefa. Það er að minnsta kosti mín skoðun.

Eða hvað? Er ég ennþá á villugötum samkvæmt þér?

Guðsteinn Haukur Barkarson, 15.10.2007 kl. 15:02

3 Smámynd: Eiríkur Ingvar Ingvarsson

Guðsteinn þú er á villigötum. Guð á allt en hann biður um aðeins 10% af því sem hann á. Þú heldur 90%. Þetta er Guð. Valið er ekki út frá tekjum eða öðru. Guð spyr, treystir þú mér að ég muni vel fyrir sjá ef þú ert trúfastur í gjöfum og tíund. Þetta er valið.

Síðan er þetta spurningin með boðorðið "Þú skalt ekki stela". Ef Guð á allt og biður samt um aðeins 10% og þú neitar....hvar stendur þú.

Gaf Jesús Tíund af sínu? Það kemur ekki fram sérstaklega... það er vegna þess að þetta er svo sjálfsagt að þetta þarf ekki að rökræða. Lögmálið var til, til blessunar fyrir lýðinn.

Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 15.10.2007 kl. 19:55

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Guðsteinn.  Að sjálfsögðu er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann fylgir Orði og boði Drottins Guðs okkar. Eins og sjá má í samantektinni hér að ofan þá er alveg klárt að Guð Sonurinn afnam ekkert af lögmálinu. Hann ítrekaði við men og fræðimenn að þeir skyldu gjalda tíund og að ekki væri Hann kominn til að afnema lögmálið heldur til þess að fullkomna fórnarþátt þess sem síðasta friðþægingarfórnin fyrir lýð sinn.

Eins og segir á bloggi Lindu þá er okkur nútímamönnunum tamt að bæta við "EN" inu sme hún greinir svo vel frá.  Við finnum út alls konar "EN" um að við séum undanskilin þessu eða hinu sem hentar okkur ekki af einhverjum ástæðum hverjum og eins. Það er alveg ljóst að orðum Drottins Guðs Sonarins sem eru fundin fram hér að ofan að hvergi hefur Hann ætlast til að veittur yrði nokkur afsláttur af tíund. En hitt er fullkomlega rétt að hver og einn á þeta við Guð sinn, ekki er það okkar að dæma. Hver og einn verður dæmdur af verðleikum sínum og framgöngu sem Guð þekkir.

Tek undir orð Eiríks Ingvars hér að ofan. Sá sem treystir að Guð standi við fyrirheit sín og gefur trúfastlega það sem honum ber, veit að Guð mun, eins og Hann segir :

"...og reynið mig einu sinni á þennan hátt segir Drottinn allsherjar, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun".

Sá sem þetta gerir reiðis sig á loforð Drottins og tekur á móti yfirgnæfanlegri blessun Hans.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 15.10.2007 kl. 23:35

5 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Þið eruð báðir á villigötum. Tíundin er ekki skylda, hví viljið þið leggja kvaðir á menn? Mér finnst þetta bara óþarfi og rangt farið með Guðs orð. En ef Guð leggur á manns hjarta að gefa tíund, þá á að fylgja því! En ekki fara eftir mannsetningum eins og þið eruð að boða. Og veldur það miklum vonbrigðum að lesa skrif ykkar beggja. Þið viljið greinilega leggja það á blásnautt fólk að það gefa tíundina, og finnst mér skömm af - þið eruð ekki betri en farisearnir.

Tíundin er góð og gild, en það er ekki sama hvernig framkvæmdin er. 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 17.10.2007 kl. 08:38

6 Smámynd: Eiríkur Ingvar Ingvarsson

Hvers vegna er ég að leggja kvaðir á menn....Það eru forréttindi að skila tíund. Það er ekki kvöð. Guð spyr treystur þú mér? Síðan er valið Já eða Nei.

Ef rangt er farið með Guðs orð hvers vegna vitnar þú þá ekki til þess með Guðs orði?

Guð leggur það að hjarta mannsins að greiða tíund. "Færið alla tíund í forðabúrið." Þetta er ekki manna setning.

Ég vill ekki "leggja það á" að blásnautt fólk að borga tíund. Réttar er að segja skila tíund, þú borgar ekki það sem þú átt ekki...þetta er Guðs, ekki rétt. Ég sé þetta þannig að ef fátækt fólk vill komast af þá skilar það tíund. Þannig hef ég haft það. En ef þetta er bara fyrir ríka hvar eru tekjumörkin Guðsteinn?

Ég ætlaði ekki að valda þér vonbrigðum en þú skrifar þetta með hjartanu það er annað líffæri sem hentar betur við orð Guðs.

Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 17.10.2007 kl. 21:15

7 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Það er gott að gefa tíund og ekki skylda en það ættu allir að gefa tíund. Í dag er það jesús sem tekur við tíundinni sem Melkísedek æðsti prestur. Tíund á að renna til prestsins(pastorsins-levítans). Við gefum tíund við borgum ekki tíund. Skoðið Galatabréfið 6. kafla vers 6-9. Ég trúi að þarna sé Páll að tala um tíund og fórn. Ég gef tíund af launum mínum fyrir skatt ekki eftir skatt ég trúi að það sé rétt og ég gef hana áður en ég nota peningana í eitthvað annað. Jesús sagði að sælla væri að gefa en að þiggja. Við erum að sá með tíundinni og við munum uppskera margfallt. Reynið Guð, hann segir að við megum freista hans í þessu efni. Þegar einhver hefur gefið í nokkurn tíma tíund þá reynist hinum sama auðvellt að gefa næstu tíu prósentin.

Aðalbjörn Leifsson, 19.10.2007 kl. 18:01

8 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Þið eruð að misskilja mig, ég er alls ekki á móti tíundinni. Það sem ég er að segja og hef margoft sagt, að það er ekki sama hvernig er að þessu farið. Haldið þið virkilega að ástæðulausu sem Jesús sagði:

Matteusarguðspjall 23:23

23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

Nei, hann vissi hvað klukkan sló. Það er svo auðvelt að misnota þetta ákvæði og breyta því í skyldu og mannasetningu, sem faríearnir gerðu á sínum tíma. Þessa gryfju má ekki falla í aftur, en því miður hafa dæmin sýnt að það er ekki málið. Of margir af trúbræðrum okkar predika að við förum til vítis ef við borgum ekki tíund, þess vegna kalla ég þetta mannasetningu. Ég vona að þessi rök mín nægi þér Eiki minn og var ég að hugsa með heilanum og ekki hjartanu, bæði hér ofar og nú.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 22.10.2007 kl. 12:43

9 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Þetta er rétt hjá þér Guðsteinn það er ekki skylda að gefa tíund, það er búið að afmá skuldabréfið sem þjakaði oss, sjá Kol. 2:14. Be blessed not stressed.

Aðalbjörn Leifsson, 22.10.2007 kl. 17:47

10 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Góður pistill prédikari. Það er þetta með tiundina. Í gegnum árin þá hef ég séð að það er oftast hinir efnaminni sem eru trúfastir í tíund og fórnargjöfum. Það sagði eitt sinn við mig maður að hann gæti ekki gefið tíund, af því að hann hefði svo miklar tekjur. Þetta væri auðveldara fyrir þá sem hefðu minna. Það var nú hans hugsun.

En þetta með að fátækir og þeir sem minna hafa geti ekki eða eigi ekki að gefa, ég er því ósammála.  Ef það eina sem fátækur maður á er kartöflugarður, hvað á hann að gera ? Éta alla uppskeruna og deyja síðan ? Eða nota svona tíu prósent af uppskerunni í útsæði og eiga fæðu áfram ?

Hvað með Elía og ekkjuna, sem átti bara mjöl í eina köku, var ekki Elía dóni að segja henni að baka fyrst handa sér köku ? Nei, Elía mælti ekki af sjálfum sér, það var Guð sem reyndi konuna og konan gaf í trú og hélt lífi. Ég þekki mann, sem hefur innan við 100 þús á mán í tekjur, allt sitt lífið hefur hann gefið og nú veit ég að hann gefur tíund, hann styrkir allt þetta kristilega á Íslandi, Lindina Omega ABC o.fl og síðan hefur hann stundum hjálpað fólki sem hefur meiri tekjur en hann.

En hann hefur alltaf meira en nóg , blessun Guðs hreinlega eltir hann. Þannig að þetta er spurning um trú.

Kristinn Ásgrímsson, 23.12.2007 kl. 08:23

11 Smámynd: Árni þór

Þetta með tíundina kemur inn á boðorðin tíu, sá maður sem færir tíund í forðabúrið yfir honum opnast flóðgátt blessana og hastað er á átvargin.
Blessunin er meira af Guði í formi opinberunar í orðinu og meira af flæði heilags anda og minna af því sem etur slíkt upp (átvargurinn)
Þetta kemur samt líka inn á veraldlega velgengni, þau ár sem ég hef borgað tíund hefur Guð alltaf séð mér fyrir vinnu og alltaf hefur verið matur á borðum og alltaf hefur verið húsaskjól ásamt blessun í heilögum anda, sumir telja það sjálfsagt en ég er þar á annarri skoðun

Það er jafn erfitt að borga tíund ef fjárhagurinn er í mínus og maður á ekki fyrir reikningunum og eða ef maður fær skyndilega háa upphæð sem þarf að greiða tíund af þar sem manni finnst það svo há upphæð.
Bæði er mjög erfitt að framkvæma sérstaklega í byrjun þegar maður hefur ekki enn fengið að reyna Guð á þennan hátt, en mun auðveldara þegar maður hefur tileinkað sér þetta sem lífstíl, jú Guð segir okkur að reyna sig á þennan hátt og þá skiptir ekki máli hvort maður hafi lítið eða mikið á milli handana.
Mín reynsla er að betra er að færa tíundina, ef maður vill meiri blessun.
Takið eftir ég sagði færa en ekki gefa því þar er mikill munur á.
Guð á alla tíundina, maður færir túind en gefur í fórn.

Árni þór, 23.12.2007 kl. 10:43

12 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þakka ykkur innlitið Kristinn Ásgreimsson og Árni Þór. ég tek umdir orð ykkar.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 23.12.2007 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband