ER HÉR UM AÐ RÆÐA TRÚVERÐUGA FRÁSÖGN ? ? ÖLLUM ÖÐRUM UM AÐ KENNA - MAN EINHVER EFTIR HAFSKIP ?? ÞAR VAR GJALDÞROTIÐ SAGT ÖLLUM ÖÐRUM UM AÐ KENNA ÞÓ SVO AÐ SKÝRSLA STJÓRNENDA FYRIR SKIPTARÉTTI REYKJAVÍKUR GEFI EKKI NEITT SLÍKT Í SKYN NEMA SÍÐUR SÉ !

Predikarinn birtir hér viðtal ofurblaðamannsins Agnesar Bragadóttur við Björgólf Guðmundsson úr sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.. Viðtalið er stórfróðlegt fyrir kannski margra hluta sakir, en þá helsta að ófarnaður Björgólfs um áratugina er öllum mögulegum öðrum að kenna heldur en honum sjálfum. Er hann lagður í einelti eða hvað ? ? ? Dæmi hver fyrir sig.

 

Mín erfiðasta reynsla 

Eftir Agnesi Bragadóttur

Agnes Bragadóttiragnes@mbl.is

"Björgólfur Guðmundsson hefur á undanförnum fimm til sex árum verið einn af forystumönnum þessa þjóðfélags, sannkallaður máttarstólpi, það fer ekkert á milli mála, þótt hann hafi ekki verið einn af stjórnmálaleiðtogum okkar. Hann hefur markað sér sinn sess sem leiðandi afl á sviði samfélagsmála, menningar og lista, auk þess sem hann hefur verið öflugur leiðtogi á sviði íþrótta, ekki síst knattspyrnu, bæði hér á landi og í Bretlandi. Allar götur frá því að Björgólfur keypti ráðandi hlut í Landsbankanum við einkavæðinguna, ásamt syni sínum Björgólfi Thor og Magnúsi Þorsteinssyni, hefur hann verið opinber persóna, sem gjörvöll þjóðin hefur fylgst með. Líkja má endurkomu Björgólfs í íslenskt athafnalíf við fuglinn Fönix, sem reis úr öskunni. Hann og þeir feðgar báðir hafa þessi ár verið umdeildir, en þó hafa þeir líklega verið fleiri, sem samglöddust þeim, á meðan allt lék í lyndi.

Björgólfur féllst á að ræða málefni Landsbankans, eignastöðu sína, hvað var gert rétt og hvað var gert rangt, ábyrgðina á því að svo fór sem fór og fleira, í samtali við Morgunblaðið.

– Björgólfur. Nú eru aðeins sex ár liðin frá því bankarnir voru einkavæddir. Varla gerðir þú þér í hugarlund að þú ættir eftir að standa í þessum sporum, svo fáum árum eftir einkavæðingu. Hvernig upplifir þú það hrun sem við erum nú að ganga í gegnum?

Björgólfur 1„Þetta er vitanlega erfitt fyrir alla og einnig fyrir mig. Þetta hefur verið það verkefni sem ég hef helgað tíma minn síðustu sex árin. Ég hef haft afskaplega gaman af þessari vinnu, sérstaklega með fólkinu, sem hefur byggt upp Landsbankann með okkur.

Þar er mikið af ungu, vel menntuðu og hæfileikaríku fólki sem hefur verið einstaklega skemmtilegt og gefandi að vinna með. Ég held að ekki nokkur lifandi maður hafi séð fyrir, að þær alþjóðlegu hamfarir sem hafa riðið yfir efnahags- og fjármálalíf heimsins, yrðu af þeirri stærðargráðu, sem nú er komið á daginn að er staðreynd. Þó svo að við teljum að við á Íslandi höfum lent illa í því, þá er þetta engu að síður afleiðing af hlutum sem hafa verið að gerast um heim allan.

Auðvitað er ég fyrst og fremst áhyggjufullur yfir því sem er að gerast hér heima. Mér persónulega líður illa yfir því sem hefur gerst og ég tek fulla ábyrgð á því sem ég hef gert. Það vil ég að liggi ljóst fyrir, í upphafi okkar samtals.

Samt sem áður vorum við fram á seinasta dag sannfærðir um að við værum að gera góða hluti. Ég ætla ekki að draga neina dul á að það voru viss hættumerki á lofti, sem við vorum í samstarfi við aðra að reyna að taka á. Ég fullyrði á hinn bóginn að við vorum hvorki óvarkárir né ábyrgðarlausir í störfum okkar og ákvarðanatöku og ég tek alls ekki undir staðhæfingar í þá veru að við höfum ekki sinnt okkar hlutverki sem skyldi.

Mér finnst líka rétt að árétta í upphafi að það eru engin fyrirtæki, hvorki hérlendis né erlendis sem eru undir jafnmiklu og ströngu eftirliti og fjármálastofnanir og þar með taldir bankar, að sjálfsögðu.“

 

Erfiðasta sem ég hef lent í

– Þú hefur áður séð hann svartan og lent í ómældum hremmingum. Er þetta með því svartara sem þú hefur séð, eða kemst eitthvað í líkingu við ástandið nú í minningunni hjá þér?

„Nei, það kemst ekkert í líkingu við þetta. Það er rétt hjá þér, að ég og fjölskylda mín höfum gengið í gegnum mikla erfiðleika, sem mér dettur ekki í hug eitt andartak að gera lítið úr, en þetta er það erfiðasta sem ég hef lent í vegna þess að það er öll þjóðin sem á í hlut og líður fyrir það hvernig málum er komið.

Björgólfur 4Þessar hamfarir virka eiginlega á þjóðina eins og eldgosið í Vestmannaeyjum virkaði á Vestmannaeyinga á sínum tíma. Það voru náttúruhamfarir á einni nóttu sem gerðu það að verkum að fólk á einni eyju flúði til lands, nánast án þess að vita hvað hafði dunið yfir það. Þetta eru alþjóðlegar efnahagslegar hamfarir af manna völdum.

Við skulum þó minnast þess að askan féll til jarðar í Vestmannaeyjum og Vestmannaeyingar sneru aftur heim og byggðu upp á nýjan leik. Og ég veit að sú verður einnig raunin hjá okkur Íslendingum, í kjölfar þessa áfalls.“

– Þú hefur verið formaður bankaráðs Landsbankans frá því að bankinn var einkavæddur. Þú hefur reynslu í viðskiptum af margvíslegum toga. Hvernig gat það gerst að ekki var farið varlegar í hlutina, en nú hefur komið á daginn að gert var?

Hvað olli því að þú stoppaðir ekki af eitthvað sem þú hugsanlega taldir vera tóma vitleysu? Hver er þín ábyrgð sem einn af aðaleigendum Landsbankans og stjórnarformaður bankans?

Björgólfur er þögull um stund, alvarlegur í bragði, lítur svo á mig yfir gleraugun, hummar og segir hvass: „Já, ég heyri að þú spyrð eins og vandinn sé bara Landsbankans! Þetta er alþjóðlegur vandi, en hann er vissulega meiri hér heima en víðast hvar annars staðar, af mörgum ólíkum ástæðum.

Starf bankaráðs og formanns bankaráðs er að fylgjast með starfi bankans. Það höfum við gert með því að fá skýrslur frá endurskoðendum, frá fjármálaeftirlitum, bæði hér heima og erlendis. Með okkur hefur verið fylgst af mjög mörgum greiningardeildum í erlendum bönkum, það eru alþjóðafyrirtæki sem meta og dæma banka, bæði Moody's og Fitch og við í bankaráði Landsbankans höfum starfað samkvæmt álitsgerðum, greiningum og mati þessara aðila.

Við höfum fengið einkunnir frá þessum fyrirtækjum sem bæði hafa verið í meðallagi og ágætar, allt eftir stöðunni hverju sinni, en það hefur aldrei neitt komið upp á yfirborðið, sem benti til þess að þetta gæti gerst.

Við höfum alltaf starfað samkvæmt öllum reglugerðum sem okkur bar að starfa eftir. Þann 30. september sl. lá fyrir í bankanum hjá okkur að við áttum eignir umfram skuldir. Við höfum alltaf átt meiri eignir en skuldir og þess vegna hef ég, sem bankaráðsformaður, fylgst með og gætt þess í hvívetna að við störfuðum samkvæmt þeim reglum sem okkur bar. Ég má ekki skipta mér af einstökum viðskiptavinum, allar viðskiptalegar ákvarðanir eru teknar af bankastjórum. Það er einfaldlega óheimilt að bankaráð og formaður þess séu með puttana í slíku, en við höfum þó alltaf séð samkvæmt yfirlitum, sem við höfum fengið í hendur með reglulegu millibili, hver þróunin var.

Auðvitað hef ég haft miklar áhyggjur af þróuninni og sérstaklega því hvernig allt þróaðist á versta veg síðasta mánuðinn sem bankaráðið starfaði.

En þú snýrð ekki við óheillavænlegri þróun heils banka á einum degi og ég bendi til dæmis á, að bankinn hefur minnkað í evrum talið á þessu ári frá fyrra ári. Það er því óréttmæt gagnrýni að halda því fram að við höfum ekki fylgst með því hvað var að gerast.“

 

Sáu vandann ekki fyrir

Björgólfur 5– En er þessi einkunnagjöf og mat frá matsfyrirtækjum og erlendum greiningardeildum ekki bara með þeim hætti, að það er ekkert á slíku byggjandi, þegar allt fer andskotans til?

„Ja, það má vera. Þetta eru sömu matsfyrirtækin sem dæma banka og lánastofnanir um allan heim og ef þú skoðar heiminn í dag þá er í hverju einasta landi sama vandamálið á ferð og hér.

Ríkisstjórnir allra landa hafa verið að bregðast við og hjálpa til. Þær hafa sett milljarða á milljarða ofan, hvort sem er í pundum, dollurum eða evrum inn í fjármálastofnanir síns heimalands, til þess að gera það sem þeim er fært, til þess að koma í veg fyrir hrun fjármálakerfisins, vegna þess að upp hafa komið stórfelld vandamál sem matsfyrirtækin sáu ekki fyrir og áttuðu sig ekki á í tíma. Þau sáu ekki fyrir þann gífurlega vanda sem beið handan við hornið.

Sérstaða okkar Íslendinga er sú og um leið okkar stærsta vandamál, að við getum ekki borgað útlendingum í íslenskum krónum. Við lifum á erlendum gjaldeyri. Við áttum hann ekki, fengum hann ekki og gátum ekki greitt með íslensku krónunni.“

– Ef það er rétt sem haldið hefur verið fram, m.a. af fyrrverandi bankastjórum viðskiptabankanna þriggja, að bakland íslensku bankanna hafi reynst ónýtt, var þá ekki enn ríkari ástæða til þess að fara sér hægar?

Í ljósi þess sem gerst hefur, liggur það ekki fyrir að íslensku bankarnir, þar á meðal Landsbankinn, fóru sér allt of geyst og uxu of hratt?

 

Krónan stærsta vandamálið

Aftur er Björgólfur hljóður um stund, segir í lágum hljóðum, eins og hann sé bara að tala við sjálfan sig: „Já, jahá“, en heldur svo ákveðinn áfram: „Ákvörðun okkar var sú að Landsbankinn yrði alþjóðlegur banki. Okkur gekk mjög vel, það voru góðir og hagfelldir tímar. Við höfðum á þessum tíma nægt eigið fé, við höfðum mikinn aðgang að erlendu lánsfé á góðum kjörum og við uxum því hratt.

En þó að við höfum vaxið hratt, þá átti sá öri vöxtur sér stað fyrir opnum tjöldum og það gerðist ekkert hjá okkur án þess að Seðlabankinn og eftirlitsaðilar fylgdust grannt með.

Við vorum í góðri trú að við værum að gera góða hluti. Það var engu leynt, það var farið að öllum lögum. Ég endurtek bara það sem ég sagði áðan. Stóra vandamálið var það, að Ísland átti engan gjaldeyri. Ísland hefur aldrei átt nægan gjaldeyri. Við höfum bara eytt um efni fram. Eytt meira en við höfum aflað.

Björgólfur 3Stjórnvöld í þessu landi hafa aldrei upplifað betri tíma en einmitt góðæri undanfarinna ára. Það á jafnt við um ríkið og sveitarfélögin á Íslandi. Ég held því, þegar grannt er skoðað, að við öll höfum gleymt okkur í góðærinu og ekki sést fyrir, ekki síður ráðamenn en menn í viðskiptum og einstaklingar.

Ég nefni bara eitt dæmi, sem mér finnst nú hafa farið heldur lítið fyrir í umræðunni undanfarnar vikur, en það eru hin svokölluðu jöklabréf. Hér eru búin að vera í umferð undanfarin misseri og ár innlán frá útlöndum í formi jöklabréfa upp á 600 til 700 milljarða króna.

Það hefur verið margbent á hversu hættuleg jöklabréfin eru. Við erum að greiða af jöklabréfunum hæstu mögulega vexti, þannig að Íslendingar hafa verið að greiða útlendingum meira en 10% vaxtamun, sem nemur 60 til 70 milljörðum króna á ári. Ef ég man rétt, þá fer sú upphæð langleiðina í að vera hin sama og þjóðarbúið fær fyrir útflutning sjávarafurða á ári.

Af hverju? kunna menn að spyrja. Jú, vegna þess að með útgáfu jöklabréfanna fékkst gjaldeyrir inn í þjóðarbúskapinn. Gjaldeyrir sem hélt gengi íslensku krónunnar allt of sterku og þar af leiðandi gengisvísitölunni niðri. Þess vegna erum við nú að mæta skyndilegu höggi, sem hefði, undir eðlilegum kringumstæðum, átt að dreifast á allt þjóðfélagið á mun lengri tíma.

Á mannamáli heitir þetta, að í umferð var svo mikið af peningum, til þess að við gætum haldið áfram frjálsum viðskiptum við útlönd, að við fluttum inn vöru á röngu virði. Krónan var rangt skráð og alltof sterk og þess vegna rann kaupæði á þjóðina.

Það sem er núna að gerast, eru m.a. timburmennirnir vegna þessa háttalags. Þetta vissu stjórnvöld og Seðlabankinn auðvitað allan tímann og því gengur það ekkert upp hjá þeim í dag, að halda því fram að allt sem úrskeiðis hefur farið sé bönkunum að kenna. Það er auðvitað spurning hvort það var ekki m.a. vegna jöklabréfanna sem við gátum ekki lækkað vaxtastigið hér á landi, sem hefur um langt skeið verið að drepa íslenskt atvinnulíf og einstaklinga.“

 

Hlutverk bankaráðs

– Var það virkilega svo, að bankaráð Landsbankans mótaði þá stefnu að lána til útrásarfyrirtækjanna íslensku bara eins og forsvarsmenn þeirra óskuðu?

Hafðir þú aldrei neinar efasemdir varðandi þessa miklu skuldsetningu íslenskra útrásarfyrirtækja í íslenskum bönkum, einkum Landsbanka og Kaupþingi? Hringdu aldrei neinar aðvörunarbjöllur í huga þér, þegar þú sást hversu mikil skuldsetningin var orðin?

„Eins og ég sagði áðan, þá tókum við í upphafi stefnuna á að gera Landsbankann að alþjóðlegum banka. Við höfum aldrei hvikað frá þeirri stefnu og ég tel enn í dag, að hún hafi verið rétt. Þess vegna vorum við bæði að sækjast eftir innlánum og útlánum erlendis.

Bankaráð má auðvitað ekki skipta sér af einstökum fyrirtækjum, einstaklingum eða viðskiptum innan bankans eða blanda sér með nokkrum hætti inn í daglegan rekstur bankans. Það er bankastjóranna.

Okkar hlutverk í bankaráðinu var að hafa eftirlit með því að menn væru innan þeirra marka, sem reglur sögðu til um. Það hlutverk ræktum við svikalaust.“

– Er ekki augljóst, svona eftir á að hyggja, að Landsbankinn var ansi sveigjanlegur gagnvart sumum skuldunautum, þegar tryggingar voru annars vegar?

„Ja, það má vera. Við töldum að svo væri ekki. Það var reglulega og margoft yfir þetta farið af utanaðkomandi aðilum. Á þriggja mánaða fresti var gerð yfirgripsmikil úttekt á öllum þessum málum og þess á milli voru minni úttektir stöðugt gerðar. Moody's og Fitch fóru yfir þetta reglulega og endurskoðendur og endurskoðunarnefnd Landsbankans voru sífellt að fylgja því eftir að reglum væri fylgt. Við trúðum því að það væri gert og það er eini mælikvarðinn sem við í bankaráðinu höfðum til þess að gæta þess að allt væri unnið samkvæmt gildandi lögum og reglum.“

 

Fáir og stórir viðskiptavinir

Framkvæmdastjórn Hafskipa,  Jón Hákon Magnússon, Björgólfur Guðmundsson, Ragnar Kjartansson og Páll Bragi Kristjónsson– Þú hefur engar efasemdir í þá veru, að bankastjórnin og bankastjórar hafi kannski verið full-eftirlátir og sveigjanlegir gagnvart einstökum viðskiptavinum?

„Ég hef ekki ástæðu til að ætla það, en ég vil kannski benda á, að eitt af þeim vandamálum, sem við áttum við að glíma, var það, hversu fáir en stórir íslenskir aðilar það voru í raun og veru, sem voru í fjárfestingum og með starfsemi erlendis. Auðvitað vorum við að lána erlendum aðilum líka, en sjónirnar beinast nú aðallega að íslenskum aðilum, sem voru að kaupa alþjóðleg fyrirtæki.

Yfirleitt var það svo, að við vorum ekki einir um slíka fjármögnun, því langoftast var um sambankalán að ræða þar sem við, í félagi við erlenda banka, stóðum að lánveitingum til Íslendinga sem voru að kaupa fyrirtæki og annað erlendis.“

– Er það ekki staðreynd að erlend útlán íslensku viðskiptabankanna voru að megninu til veitt til íslenskra útrásarfyrirtækja, sem voru í landvinningum erlendis?

„Ég hef ekki nákvæmar tölur yfir það, en vitanlega var stór hluti lánveitinga okkar til þeirra. Þetta eru viðskiptavinir okkar hér á landi, þannig að það segir sig sjálft, að þótt við höfum haft ákveðinn hóp alþjóðlegra viðskiptavina, þá eru þetta aðalviðskiptavinir okkar, rétt eins og dönsk fyrirtæki, hvar sem þau eru í heiminum, eru aðalviðskiptavinir danskra banka.“

– Hvað var svona mikilvægt, að þínu mati, fyrir íslensku þjóðina að Íslendingar eignuðust hundruð tískuverslana í London, fasteignafélög um allan heim, matvöru-, skartgripa-, heilsu- og leikfangakeðjur og stórmarkaði í útlöndum og guð má vita hvað, með gríðarlegri skuldsetningu í bönkunum hér á landi? Hverju var íslenskt þjóðfélag bættara með þessari svonefndu útrás?

„Vitanlega gerðum við ekki upp á milli viðskiptavina, eftir því í hvers konar fyrirtækjum eða rekstri þeir vildu fjárfesta. Skuldsetningin á bak við útrásina var bæði innlend og erlend. Menn voru að kaupa eignir með skuldum og eigið fé að auki.

Ég held að hvergi í heiminum byggist bankastarfsemi á slíkri mismunun. Ef viðskiptaáætlunin sem lögð var til grundvallar við lánsumsókn var metin af sérfróðum starfsmönnum Landsbankans á þann veg, að hún væri í lagi og stæðist þær kröfur, sem varð að gera til arðsemisútreikninga og þess háttar, þá nægði það að sjálfsögðu. Það var ekki og er ekki hlutverk bankans að gera upp á milli atvinnugreina. Auðvitað sáu menn fram á endurgreiðslu lána og að eftir sætu eignir í útlöndum og það hefði verið til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.“

– Björgólfur, hefur þessi lánastarfsemi íslenku bankanna einhverju máli skipt fyrir íslenskt þjóðfélag? Höfum við Íslendingar eitthvað hagnast á útrás víkinganna í útlöndum?

„Enn einu sinni, Agnes. Við litum á okkur sem alþjóðlegan banka og mér finnst þú hugsa þetta bæði smátt og þröngt. Auðvitað hefur þetta skilað okkur miklum tekjum inn í íslenskt þjóðfélag, bæði í formi skatta og launatekna, og mörg hundruð ungra manna hafa fengið alþjóðlega reynslu sem mun koma þjóðinni að gagni á komandi árum. Heimurinn er alþjóðlegur í dag, og við verðum að taka þátt í honum sem slíkum.

Það getur vel verið, þegar við horfum nú um öxl, að við getum spurt spurningarinnar með nokkrum rétti: Hvaða máli skipti þetta fyrir íslenskt þjóðfélag? Hvaða máli skiptir það fyrir íslenskt þjóðfélag að eiga fyrirtæki sem er í flutningastarfsemi, fyrirtæki sem er í verslanarekstri, fyrirtæki sem er þess vegna í tómstundaiðnaði eða skemmtanaiðnaðinum? Það eru kannski slík fyrirtæki sem ganga best í dag.

Ég fæ ekki séð að það eigi að vera í verkahring banka að velja til hvers konar fyrirtækja eigi að lána peninga og meta hvað sé þjóðfélagslega hagkvæmt að lána út á og hvað ekki. Ég veit ekkert hvers konar lánastarfsemi er þjóðfélagslega hagkvæmari en önnur. Samkvæmt mínum bókum er þjóðfélagslega hagkvæmt að lána til starfsemi sem gefur af sér tekjur og skilar til baka ávinningnum inn í þjóðfélagið.“

– Björgólfur, ég skil hvað þú ert að segja en engu að síður er ég að spyrja þig þessarar spurningar vegna þess að frá því að hin svokallaða útrás íslenskra fyrirtækja hófst, þá hefur alltaf verið látið að því liggja, sérstaklega á hátíðis- og tyllistundum, hversu gríðarlega miklu máli útrásin skipti fyrir íslenskt þjóðfélag og hver ávinningurinn af henni væri fyrir okkur, Jónana og Gunnurnar. Svo sit ég hér og ræði við þig í dag, og spyr aftur: Björgólfur, hver er ávinningurinn fyrir íslenskt þjóðfélag af útrásinni?

Ekki er laust við að það gæti talsverðrar óþolinmæði hjá Björgólfi, hann dæsir og segir svo: „Já, það komu tekjur, bæði beint og óbeint. Það er í dag talað í niðrandi tón um svonefnda útrásarvíkinga. Fyrst vil ég nefna allt þetta unga, vel menntaða og hæfileikaríka fólk, sem fékk vinnu í tengslum við útrásina, bæði í bönkunum og hjá útrásarfyrirtækjunum. Það er ómetanlegur auður fólginn í þessu fólki, auður sem á eftir að skila sér aftur margfalt til samfélagsins.“

Hafskip– Ertu ekki að tala um unga fólkið, sem þegar er orðið atvinnulaust eða um það bil að missa vinnuna?

„Aftur misskilur þú hlutina. Þetta unga framsækna fólk kann að missa atvinnuna nú um stundarsakir, en þetta sama fólk býr til nýja atvinnu, um það er ég sannfærður. Þú getur ekkert gengið út frá því sem gefnu, um leið og þú ert kominn á vinnumarkaðinn, að þú hafir örugga atvinnu allt þitt líf. Því miður er ekkert slíkt öryggi fyrir hendi, eða á ég kannski að segja sem betur fer?

Stundum verður þú að koma með eitthvað sjálfur. Það er einmitt eitt af því sem er svo heillandi við þetta flókna fyrirbæri, lífið sjálft, að þegar einn gluggi lokast þá opnast þrír nýir. Það er gæfan í þessu og þetta unga fólk mun opna nýja glugga, því lofa ég.

Hvað varðar beinar tekjur til þjóðfélagsins af útrásinni títtnefndu, sem þú ert að spyrja um, þá ætla ég að láta nægja að nefna eitt dæmi, sem er nærtækt fyrir mig að nefna, en það er Björgólfur Thor, sonur minn, sem er talinn í hópi útrásarvíkinganna. Hann hefur búið í 21 ár í útlöndum. Hann hefur komið hingað til lands með ákveðnar fjárfestingar og ég veit ekki betur en að þau fyrirtæki, sem íslensku bankarnir og hann fjárfestu saman í, hafi skilað hundruðum milljarða inn í þjóðarbúið, hvort sem það er Actavis, símafélög í Tékklandi og Búlgaríu eða önnur félög sem hann hefur verið í forsvari fyrir.

Svo verða aðrir að svara fyrir sig. Björgólfur Thor lítur auðvitað á sig sem erlendan fjárfesti, sem hefur með fjárfestingum sínum erlendis skilað miklum tekjum í íslenska þjóðarbúið.

Við í Landsbankanum sögðum strax í upphafi: Þjóðfélagið okkar er allt of einhæft og við þurfum að renna fleiri stoðum undir efnahags- og atvinnulíf Íslendinga. Bankarnir sáu tækifæri til þess að verða alþjóðlegir og verða þar með ein af mikilvægum stoðum nútíma íslensks samfélags.

Ekki gleyma því heldur, Agnes Bragadóttir, að til þessa var hvatt mjög eindregið af stjórnvöldum. Það voru stofnaðar sérstakar nefndir til þess að koma með tillögur um það hvernig við gætum vaxið og dafnað á alþjóðlegum markaði. Það þýðir ekkert að halda því fram í dag, að við höfum gert allt sem við höfum gert í einhverri allsherjar launung og einangrun.

Stuðning og hvatningu stjórnvalda fengum við auðvitað m.a. vegna þess að þær tekjur sem bankarnir sköpuðu skiptu gríðarlega miklu máli fyrir íslenskt þjóðfélag. Tekjur sem við greiddum til samfélagsins og enginn virðist muna eftir í dag.

Þessi erlenda starfsemi okkar þýddi líka, að við vorum að taka peningana heim til Íslands. Innlánin á Icesave-reikningunum hafa ekki bara verið notuð í útlán erlendis. Peningarnir frá Icesave eru hér um allt þjóðfélagið. Af hverju heldur þú að ríkið standi svona vel? Það er m.a. vegna þess, að tekjur af þessum lánum og skatttekjur frá bönkunum hafa gert ríkinu fært að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er meginástæðan fyrir því að ríkissjóður er skuldlaus. Hún er ekki sú, að það hafi verið svona óskaplega góð stjórn á ríkisfjármálum, því ár hvert eyddi hvert einasta ráðuneyti langt umfram heimilaðar fjárveitingar samkvæmt fjárlögum, en það var einfaldlega hægt vegna þess að það voru nógir peningar til.

Af hverju heldur þú að sveitarfélögunum gangi svona vel, þau standi svona vel og séu búin að framkvæma svo óhemju mikið á undanförnum árum? Það er ekki síst vegna þess, að við gátum útvegað þeim lánsfé á undanförnum árum í allar þær framkvæmdir sem þau vildu ráðast í, m.a. með fjármunum frá innlánunum í Icesave. Þess vegna gátu allir keypt það sem þeir vildu.

Actavis   2Hér voru nægir peningar, en svo vantaði gjaldeyri. Það sem ríkið átti að sjá um var að halda efnahagslífinu í lagi.“

 

Kaupæði rann á Íslendinga

„Það keyptu allir allt sem þeim datt í hug. Það var bara hugarfarið, hvort sem menn sætta sig við það nú eða ekki. Það þýðir ekkert að segja núna: Þið eruð bara vitleysingar. Þú veist ósköp vel, að kaupæðið sem rann á okkur Íslendinga var óskaplegt og ég hygg að þar séu fáir undanskildir. Jeppar voru keyptir í hundraða vís, sumarhús sömuleiðis og hjólhýsi, svo dæmi séu nefnd, að nú ekki sé talað um alla flatskjáina, raftækin og hvað eina. Íslenskt þjóðfélag gjörbreyttist ótrúlega hratt, ekki síst vegna þess að við gátum útvegað þessa peninga sem ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar nutu svo góðs af.“

– Icesave-reikningarnir eru það sem þið í Landsbankanum hafið verið hvað harðast gagnrýndir fyrir. Menn spyrja í dag hvers vegna í ósköpunum Landsbankinn hafi tekið þá ákvörðun að gefa út óútfylltan tékka sem á endanum gæti fallið á Íslendinga, sem nú virðist vera að verða raunin. Fjármálaeftirlit beggja landa, Íslands og Bretlands, voru fyrir margt löngu farin að atast í ykkur og gera athugasemdir. Hvers vegna hafðist Landsbankinn ekkert að, þrátt fyrir athugasemdir fjármálaeftirlitanna?

„Þetta er eins rangt og hugsast getur. Svo virðist sem öll vandamálin sem blasa við þjóðinni í dag eigi að eiga uppruna sinn í einu máli, stofnun Icesave-reikninganna, en ég held að þeir séu um 10% af erlendum lánum bankanna. Okkur var hælt óspart af öllum erlendum aðilum fyrir að vera svo forsjálir að dreifa áhættunni af lánsfé með þeim hætti sem við gerðum, með stofnun Icesave. Það var ekki þannig að það væru bara tveir til þrír stórir erlendir bankar sem lánuðu okkur, heldur bjuggum við okkur til stóran viðskiptamannahóp erlendis, sem var með minni inneignir. Þess vegna var lengi talað um að Landsbankinn stæði best hvað þetta varðaði.

Við höfum allan tímann verið undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins og annarra, í þessu sem öðru. Við erum búnir að vera að vinna með þeim að því hvernig við ættum að haga þessu. Vissulega má til sanns vegar færa, að við hefðum átt að stefna að því fyrr en við gerðum, að fara með starfsemina í Bretlandi í dótturfélag. Við vorum að vinna í því svo mánuðum skipti, í samstarfi við Fjármálaeftirlitið hér heima og við fjármálaeftirlit Bretlands. Fjármálaeftirlitið í Bretlandi gerði kröfu um það að við færðum mikið af eignum, sem við áttum, yfir til Bretlands, til þess að styðja við Icesave-reikningana.

Við vorum í samningum við þá og Fjármálaeftirlitið hér heima var að vinna með okkur í því hvernig við ættum að semja um slíkar eignafærslur, bæði við Bretland og Holland. Það að flytja mikið af eignum mjög hratt yfir til Bretlands gat verið hættuleg aðgerð fyrir okkur í Landsbankanum, því við það þurftum við meðal annars að semja um breytta skilmála gagnvart öðrum lánardrottnum okkar og við þurftum að fara mjög varlega í sakirnar svo við fengjum ekki verri kjör eða gjaldfellingu lána í kjölfar slíkra breytinga.

En við vorum mjög langt komnir með að semja við Bretana og hefðum ekki þurft nema svona viku í viðbót, þegar aðgerðir gegn íslenskum bönkum hófust.

ActavisÞað gerðist einfaldlega þannig að þegar Glitnir var tekinn, þá voru allar lánalínur og öll bankasambönd í einu vetfangi rifin af okkur Íslendingum. Þá gátum við ekki lifað lengur. Sú aðgerð, ein og sér, er sú hættulegasta og skaðlegasta sem framin hefur verið gagnvart íslensku þjóðfélagi. Ég held að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar slík aðgerð hefði á flókinn og viðkvæman rekstur banka, sem í eðli sínu er alþjóðlegur. Þetta var á sama tíma og allir seðlabankar heims kepptust við að hjálpa bankakerfum landa sinni.“

– Óttuðust þið aldrei að ef illa færi væruð þið að skuldsetja þjóðina upp á mörg hundruð milljarða marga áratugi fram í tímann, með því að ákveða að Íslendingar greiddu fyrir þessar bresku innistæður?

„Vitanlega hefur aldrei staðið til að skuldsetja íslensku þjóðina til framtíðar vegna Icesave-reikninganna og það verður ekki gert. Má ég benda á, að ríkið tók yfir allar eignir Landsbankans með lagasetningunni þann 6. október. Vissulega einnig skuldir hans, en ég er þess fullviss að ef rétt verður farið með þær eignir, þá duga þær fyrir Icesave-reikningunum og gott betur. Það má ekki heldur gleyma því að ríkið tók eignir allra bankanna yfir fyrir ekki neitt með lagasetningunni og þar eru mikil verðmæti. Ég tel það sjálfgefið að ríkið muni síðar selja þessar eignir aftur, að hluta eða öllu leyti, og þar með fær ríkið einnig tekjur. Það er því rangt að vera alltaf að klifa á því að þjóðin verði skuldsett til framtíðar vegna Icesave-reikninganna.

Má ekki alveg eins segja, að megnið af íslensku þjóðinni hafi verið að skuldsetja sig, þegar hún var að nota peningana, m.a. frá Icesave, á kolröngu gengi og eyða í allt sem við höfum eytt í á undanförnum árum?

Í hnotskurn er málið þetta, að því er varðar Icesave-reikningana. Það sérkennilega við þessa umræðu alla er að það er bara talað um skuldir. Það er aldrei talað um eignir. Ríkið tók með einu pennastriki allar eignir og skuldir af íslensku bönkunum. Um síðustu mánaðamót voru eignir í Landsbankanum vel umfram skuldir. Eignir bankanna verða verðminni með hverjum deginum sem líður, en það verkefni sem nú brennur á þeim sem um stjórnvölinn halda í nýju ríkisbönkunum er að tryggja að eignir dugi fyrir skuldum, þar með taldar skuldir vegna Icesave.

Þegar bankar loka, eins og ríkisstjórnir annarra þjóða sjá, þá eru afleiðingarnar slíkar að stórkostleg verðmæti tapast dag hvern. Ég fæ ekki séð að stjórnvöld hér á landi hafi gert sér nokkra grein fyrir því hvers konar hörmungum þau hrundu af stað, eða yfir höfuð rannsakað það á nokkurn hátt, hvaða afleiðingar það kæmi til með að hafa á fjárhag, efnahags- og atvinnulíf allra landsmanna, að taka Glitni með þeim hætti sem gert var. Því sú ákvörðun hratt af stað allri þeirri ömurlegu atburðarás sem síðan hefur verið í gangi dag hvern og sér ekki fyrir endann á.

Maður hefði nú gert sér í hugarlund að ríkisstjórnin væri með nákvæma áætlun um það hvernig hún hygðist láta vinna úr málum eftir að ríkið og Fjármálaeftirlitið höfðu yfirtekið bankana en því miður virðist svo alls ekki vera. Það finnst mér dapurlegt, að ekki sé meira sagt.

Ég fæ ekki heldur betur séð en fjölmiðlar þessa lands og ekki síst Morgunblaðið, séu bara í því að tala um allt hið neikvæða. Fjölmiðlarnir eru að tala um tapið, fyrirsjáanlegt atvinnuleysi og depurð. Þið eruð ekkert í því að tala um eignir bankanna, benda á að fara verði varlega með þær, passa upp á þær, svo að við eigum fyrir skuldum. Þarna finnst mér íslenskir fjölmiðlar hafa brugðist.“

– Er þetta nú alveg sanngjarnt? Síðasta sunnudag var fréttaskýring í Morgunblaðinu, þar sem það var m.a. tíundað að 30. júní sl. hefðu eignir íslensku viðskiptabankanna verið um 900 milljörðum króna meiri en skuldir þeirra.

„Ja, þetta er að vísu rétt hjá þér. En það er líka á eina staðnum sem ég hef séð slíkt og það hefur enginn, nákvæmlega enginn, notfært sér þær upplýsingar og öllum virðist standa á sama.

Ég fæ ekki betur séð, miðað við þá múgsefjun sem er verið að magna upp í þjóðfélaginu, að svona upplýsingar henti ekki öðrum fjölmiðlum. Fjölmiðlar, Morgunblaðið sem aðrir fjölmiðlar á Íslandi, eiga auðvitað að hafa það að keppikefli að koma réttum upplýsingum á framfæri, bæði jákvæðum og neikvæðum. Í þessu tilfelli upplýsingum um að það er algjört forgangsverkefni að verja eignir og greiða sem mest af skuldum Íslands erlendis.

Björgólfur 6Það þekkja það allir frá sínu eigin heimili, að það er ekki bara talað um skuldirnar, heldur er um það rætt hvað heimilið eigi mikið af eignum upp í skuldirnar eða hvort það eigi eignir umfram skuldir. Heimilið er ekkert annað en smækkuð mynd af samfélaginu í heild.“

 

Ég gæti grátið

– Fólkið á götunni spyr spurninga á borð við þessar: Við höfum tapað hlutafé okkar í Landsbankanum, við höfum tapað sparifé okkar í peningamarkaðssjóðum, við höfum tapað fjármunum í lífeyrissjóðum okkar og við höfum tapað peningum í séreignasparnaði og við og börnin okkar höfum verið skuldsett til framtíðar, bæði vegna Icesave-reikninganna og vegna þess að nú er verið að taka stórt alþjóðlegt gjaldeyrislán til þess að bjarga krónunni. Hverju hefur Björgólfur tapað? Hver er eignastaða hans?

„Það er rétt, að nú er verið að undirbúa að taka stórt alþjóðlegt lán til þess að bjarga krónunni. Krónunni sem hefur verið okkar helsta vandamál síðustu árin og er raunar aðalástæðan fyrir öllum okkar vandamálum, eða öllu heldur stjórn peningamála hér á Íslandi undanfarin ár, það er stóra málið.

Ég gæti grátið yfir því hvað margir eru að missa mikið á Íslandi í dag og segi það án þess að blygðast mín. En samt sem áður segi ég þetta, þegar þú talar um fjármuni sem eru að tapast í peningamarkaðssjóðunum, fé í lífeyrissjóðunum og séreignasparnaðinum: Eign lífeyrissjóðanna, séreignasjóðanna og hlutabréfaeignin hefur margfaldast í verði á síðustu árum. Fólk þarf einfaldlega að gera það upp, hversu mikla fjármuni það setti upphaflega í svona fjárfestingar og hversu mikið stendur eftir af upprunalegu fjárfestingunni. Eru ekki eftir meiri fjármunir, þrátt fyrir allt, en settir voru í slíka sjóði í upphafi?

Lífeyrissjóðir og allir þessir aðilar eru búnir að hagnast gífurlega á síðustu fimm til sex árum. Nú höfum við orðið fyrir höggi, en það þurrkar ekki allt út sem var lagt í sjóðina í upphafi. Það sem mér finnst grátlegast, er að fólk sem átti hlutafé í Landsbankanum og öðrum slíkum stofnunum hefur misst allt sitt vegna eins pennastriks. Eign þess var gerð að engu með setningu laganna þann 6. október sl.

Ég þekki það auðvitað sjálfur og hef tapað gríðarlegum verðmætum. Þetta er fólkið sem tapar og líka fólkið sem átti peninga í peningamarkaðssjóðunum, vegna þess að bankabréf í dag eru einskis virði.

Fram á seinasta dag í rekstri bankanna í einkaeign voru bréf í viðskiptabönkunum talin vera besta og öruggasta áhættufjárfesting sem nokkur maður gæti farið í. Það var í þeirri trú sem tugþúsundir Íslendinga fjárfestu í hlutabréfum í viðskiptabönkunum þremur.

Hvað mig persónulega varðar, þá var ég auðvitað talinn eiga mikið í mörgum fyrirtækjum og þar af leiðandi með miklar eignir. En ég skuldaði líka mikið. Sú skuld hefur auðvitað hækkað stórkostlega vegna gengisþróunar að undanförnu. Kannski má miða við að skuldir mínar hafi miðast við að evran kostaði 80 krónur, þegar til þeirra var stofnað og hún stendur núna í einum 150 krónum. Því er ljóst, að það er langt um liðið frá því að ég réð við að borga af skuldum mínum. Svo einfalt er það. Þetta þekkja og skilja allir sem eiga sitt eigið húsnæði og eru kannski með húsnæðislánið sitt í erlendri mynt. Svo bætist við að stýrivextir hafa verið yfir 15% og þá er vonlaust, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki, að borga vexti, hvað þá að greiða niður lánin.

Ekki er þetta bankanum að kenna. Þetta er ekkert annað en stjórn efnahagsmála, sem ég ætla bara að leyfa mér að kalla óstjórn. Það þýðir ekkert fyrir stjórnmálamenn, Seðlabanka eða Fjármálaeftirlit að hlaupa upp til handa og fóta og benda á okkur og hrópa „Icesave! Icesave!“ til þess að bjarga sjálfum sér. Þeirra er ábyrgðin og hefur alltaf verið.“

 

Er í persónulegum ábyrgðum

– Átt þú ennþá mikið af eignum? Hverjar eru þær? Eru þær einkum í útlöndum? Hvað hyggst þú gera við þær eignir? Muntu selja þær og koma heim með fjármagn til þess að taka þátt í því með okkur hinum að byggja upp efnahags- og atvinnulíf hér á landi á nýjan leik?

„Ég er auðvitað með mikið af lánum hér, bæði í Landsbankanum og víðar, en einnig erlendis. Nær allar mínar skuldir eru með mínu persónulega veði. Mér er ekki kunnugt um hvort aðrir hafi gengið í miklar persónulegar ábyrgðir vegna félaga þar sem þeir eiga hlut. Ég skrifa sjálfur upp á mínar lántökur, þannig að það eru ekki bara hlutirnir sem ég á í ólíkum félögum sem eru að veði, heldur ég sjálfur. Í dag veit ég ekki hvernig ég stend, ekki frekar en svo margur annar.

Ég og aðrir erum að vinna í því en ég segi það hreinskilnislega, að ég veit ekki hvernig ég kem út úr slíku uppgjöri. Ég á ekkert von á því að það fari vel og get sagt það fullum fetum að það er allt undir hjá mér.

Ég skal nefna þér eitt dæmi til útskýringar. Við feðgarnir áttum í Landsbankanum í fyrra, í gegnum eignarhaldsfélag okkar Samson, eitthvað á bilinu 130 til 140 milljarða króna. Sú eign okkar í dag er upp á núll krónur. Hvernig á að ráða við slíkt?“

– Hvað segir þú um þá kröfu Björgvins G. Sigurðssonar, bankaráðherra, sem greint var frá í fjölmiðlum í gær, fimmtudag, að þið feðgar og aðrir íslenskir auðmenn seljið allar eigur ykkar erlendis, komið heim með fjármagnið og ráðist í enduruppbyggingu þjóðfélagsins með öðrum landsmönnum?

„Það er mikilvægt fyrir mann í hans stöðu að gæta tungu sinnar og vera varfærinn og samkvæmur sjálfum sér í öllum sínum gjörðum. Bankamálaráðherra er auðvitað eftirlitsaðili með starfsemi fjármálafyrirtækja. Það er líka mikilvægt að menn notfæri sér ekki í fjölmiðlum svona grafalvarlegt mál í pólitískum tilgangi. Þetta mál þarf að leysa af festu og einurð og allir eiga að gera sér grein fyrir sinni ábyrgð.“

– Hver er staða einstakra fyrirtækja þar sem þú ert stór hluthafi? Hvernig stendur Eimskip og hvað verður um þá ábyrgð sem þið feðgarnir ætluðuð persónulega að taka ykkur á herðar? Hvað með Icelandic?

Björgólf setur hljóðan við þessa spurningu, hann er dapur á svip, segir svo: „Ég hef haft mestan áhuga á íslensku samfélagi og nánast allar eigur mínar eru í íslenskum félögum. Hér heima hef ég reynt eftir megni að vera þátttakandi í íslenskum félögum. Ég er stór hluthafi í Icelandic, eða SH, sem hefur verið að berjast við gjaldþrot í gegnum árin. Ég gekk í persónulega ábyrgð fyrir Icelandic fyrr á þessu ári, til þess að fyrirtækið gæti lifað og uppbyggingarstarfi félagsins í gegnum tíðina yrði bjargað. Það ræður yfir verksmiðjum og söluskrifstofum um allan heim. Mér vitanlega vildi enginn nema ég skrifa upp á slíka ábyrgð. Mér fannst einfaldlega að þetta væri fyrirtæki og þjóðarverðmæti, sem mætti ekki glatast.

Ég kom inn í Eimskip aftur, skömmu eftir að það fór aftur á hlutabréfamarkað. Því miður þekkti ég ekki innviði félagsins nógu vel og vildi nú að ég hefði þekkt þá betur. Þar er spurningin þessi: Er hægt að selja eignir frá fyrirtækinu, fyrir þann pening að það sé hægt að halda starfsemi þess áfram? Mér er engin launung á því, að þar eru miklir erfiðleikar, ekki rekstrarlega heldur vegna skulda sem hafa með gengisþróun og vöxtum hratt og örugglega orðið óbærilegir. Þarna er ég líka í persónulegum ábyrgðum. Nú veit ég ekkert hver staðan er hjá mér og því ekki hvort ég get skrifað upp á eitt eða neitt hvað varðar frekari ábyrgðir fyrir Eimskip.

Fjármálalegt umhverfi er þannig í dag að það veit enginn neitt, hvorki ég né aðrir, og því væri rangt af mér að fara að gefa yfirlýsingar um hvað ég hyggst gera. Ég veit ekkert hvað ég get gert.“

– Tónlistarhúsið hefur verið eitt af þínum hugðarefnum. Hvað verður um framtíð Tónlistarhússins? Munt þú með einhverjum hætti koma að því verkefni eða er hætta á því að öll áform um nýtt Tónlistarhús lognist út af í miðjum klíðum?

„Staðan er sú að það er Landsbankinn og ríkisvaldið sem eiga þetta verkefni, Tónlistarhúsið. Þeir verða að taka ákvarðanir um framhaldið. Fyrir mér var þetta brennandi áhugamál, sem þú bendir réttilega á og vitanlega kveð ég þetta stórkostlega verkefni með miklum söknuði. Þótt nú blási á móti trúi ég ekki öðru en núverandi eigendur Landsbankans, þ.e. ríkið ásamt Reykjavíkurborg, ljúki við gerð þessa glæsilega og merkilega húss. Þetta verkefni getur verið þáttur í uppbyggingu hér til framtíðar og skapað atvinnu, þegar við þurfum hvað mest á henni að halda. Fullgert Tónlistar- og ráðstefnuhús verður mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu Íslands í framtíðinni.“

 

Hornsteinar lýðræðisins

– Hvað með Árvakur, fyrirtækið sem ég starfa hjá og þú átt ráðandi hlut í? Muntu eiga áfram ráðandi hlut í Árvakri og hverja sérðu framtíð þess félags?

„Útgáfa frjálsra dagblaða er einn af hornsteinum lýðræðisins. Fyrir því geri ég mér fulla grein. Reksturinn hjá Árvakri og öðrum blöðum er þannig að pappír og allur aðflutningur hefur margfaldast í verði og skuldir á prentsmiðjunni hafa einnig margfaldast, þannig að reksturinn getur ekki staðið undir þessu. Við höfum því reynt að ráðast í allar þær aðgerðir, sem okkur voru færar, til þess að tryggja að þessi blöð komi áfram út.

Mín sýn var sú, og það vita þeir sem unnu með mér, að ég vildi koma málum í það horf að við gætum þegar við værum komnir fyrir vind, reksturinn farinn að standa undir sér og Árvakur kominn á réttan kjöl, komið Árvakri í dreifða eignaraðild.

Ég taldi að fyrst þyrftum við að ná tökum á rekstrinum, svo myndum við dreifa eignaraðildinni. Öll slík áform hafa farið úrskeiðis, eingöngu vegna utanaðkomandi aðstæðna, gengisþróunar, vaxtakostnaðar og gífurlega hækkandi verðs aðfanga á sama tíma og auglýsingatekjur hafa hrunið.

Ég veit ekkert um stöðu mína í dag, eins og ég sagði áðan, svo ég treysti mér ekki til þess að segja neitt á þessari stundu, annað en það að ég vona að Morgunblaðið standi allt af sér eins og það hefur gert hingað til.“

– Nú hefur verið ákveðið að bankahrunið á Íslandi verði kannað ofan í kjölinn. Forsætisráðherra sagði hér í Morgunblaðinu fyrir hálfum mánuði að hann væri hlynntur því að gerð yrði svonefnd hvítbók, þar sem allt væri til rannsóknar og reyndust menn hafa farið á svig við lögin, yrðu þeir látnir sæta ábyrgð. Hver er þín skoðun á rannsókn og hvítbók?

„Vegna okkar allra er algjörlega nauðsynlegt, að það fari fram nákvæm rannsókn á öllum þáttum þessa máls, sett í alþjóðlegt samhengi við mestu fjármálakreppu allra tíma. Ég fagna því orðum forsætisráðherra.

En í þessu sambandi vil ég leggja áherslu á að það er jafnmikilvægt að rannsökuð séu til hlítar samskipti, ákvarðanir og framkvæmd á öllu því sem kom frá ríkisstjórn og Seðlabanka og forsendur þeirra ákvarðana sem teknar voru, sem voru svo afdrifaríkar fyrir okkur öll.

Það þarf að komast til botns í því hvaða áætlanir lágu fyrir hjá þessum aðilum um það hvernig brugðist yrði við, ef svona alvarleg bankakrísa dyndi á okkur. Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa ítrekað haldið því fram undanfarnar vikur að miklar áhyggjur hafi verið af því, á þeirra vígstöðvum, að við gætum farið mjög illa út úr slíkri krísu, og því finnst mér það bara vera réttlát krafa að upplýst verði hvers konar aðgerðaáætlun þeir voru með undirbúna.

Í þessum efnum finnst mér það vera grundvallaratriði að það verði fengnir hæfustu sérfræðingar sem við getum fundið til þess að brjóta mál til mergjar, því hvorki einstaklingar né stjórnvöld geta verið dómarar í eigin sök og þetta mál er of stórt til að við tökum áhættuna af því að það verði ekki rannsakað til hlítar. Persónulega hef ég slæma reynslu af því þegar yfirvöld standa sjálf fyrir rannsókn og geta í raun stýrt því í hvaða farveg rannsókn er beint, án þess að sæta nokkru aðhaldi. En aðalatriðið er að þetta sé gert hlutlaust, faglega og uppbyggilega.

Það er ekkert einkennilegt að þetta sé mín skoðun á íslensku réttarfari. Það er nýútkomin bók þar sem hæstaréttardómari, sem jafnframt er formaður réttarfarsnefndar, er ásakaður um að hafa brotið mörg lög í opinberu starfi.“

 

Trú á íslensku þjóðinni

– Hvað hefur reynst þér persónulega erfiðast í þeim ósköpum sem dunið hafa yfir undanfarnar vikur? Hvernig líður þér? Hvað hefðir þú viljað gera öðru vísi? Þegar þeim látum linnir, sem nú ganga yfir, hvað mun þá taka við hjá Björgólfi Guðmundssyni? Hvar sérð þú þig að fimm árum liðnum?

„Auðvitað hefði ég viljað gera ýmislegt öðru vísi. Það get ég sagt núna. Ég tek fulla ábyrgð á því sem ég hef gert. Ég get ekki gert neitt annað en biðjast afsökunar á því, ef ég hef gætt hagsmuna hluthafa Landsbankans og annarra illa, en ég hef í alla staði reynt að gera mitt besta.

Mér líður auðvitað ekki vel. Það segir sig nú eiginlega sjálft, ekki satt? Ég finn það dag hvern að það er mikið sótt að mér úr mörgum og ólíkum og stundum óvæntum áttum. Það tek ég nærri mér. Ég tek það líka nærri mér að það virðist búið að taka um það eins konar þjóðarákvörðun að allt sem misfarist hefur sé Landsbankanum að kenna. Það er óréttmætt og hver og einn ætti að gæta að ábyrgð sinni.

Við berum auðvitað skyldur og öxlum þá ábyrgð sem okkur ber, en þetta mál er miklu stærra en svo að hægt sé að halda því fram að sökin sé bara okkar. Þar koma allir að. Það er alveg sama hvaða stöðu menn gegna í þjóðfélaginu. Það bera allir ábyrgð, að vísu mismikla, en engu að síður tel ég að fáir séu undanskildir.

Ég á góða fjölskyldu, sem stendur þétt og vel saman. Á meðan svo er og heilsan er þokkaleg, þá ætla ég ekki að kvarta.

Það sem ég sakna mest, svona dags daglega, eru samskiptin við starfsfólk Landsbankans. Þar hef ég eytt síðustu sex árum, ekki sem starfsmaður heldur sem hluthafi og stjórnarformaður og kynnst starfsfólki bankans og tekið þátt í daglegu lífi þess í bankanum. Það þótti mér vænst um, ásamt öllum þeim samfélagslegu verkefnum sem ég hef verið að sinna, nánast dag hvern. Ég sakna þess að geta ekki áfram tekið þátt í þeim.

Björgólfur 2Ég hef mikla trú á íslensku þjóðinni og fáar þjóðir eiga eins miklar náttúruauðlindir og við Íslendingar. Ég þekki yngra fólkið vel, hef unnið mikið með því og veit að í því býr ótrúleg uppspretta svo mikils góðs, að við verðum fljót að koma okkur á réttan kjöl aftur. Það munu fæðast margar nýjar og skapandi hugmyndir og kannski verður hér til ný hugsun í ótal málum. Það er gleðilegt, en við verðum að hætta að leita alltaf að sökudólg.

Við verðum að hugsa og haga okkur eins og fólk sem er að reyna að leysa vandamál. Það leysir vandamálin með því að skoða bæði það sem fór úrskeiðis og það sem vel var gert og hvernig við á þeim grunni leysum málin best og byggjum upp til framtíðar.“

Björgólfur brosir í fyrsta og eina skiptið í viðtalinu og segir að lokum: „Ég verð kannski að þjálfa fimmta flokk í KR eftir fimm ár! Minn áhugi hefur alltaf legið í samfélagslegum verkefnum og ef einhver hefur áhuga á því að nýta mína krafta með þeim hætti eða öðrum, þá er ég alltaf reiðubúinn að vinna. Ég hef unnið mikið alla mína ævi. Ég hef verið sjálfstæður alla mína ævi. Ég hef verið fátækur og ég hef verið ríkur, svo ekkert kemur mér á óvart. Ég mun bara halda áfram að lifa lífinu lifandi.“ "


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband