SVA - VAR OG ER - SÁRAEINFALT - - - GREIN AGNESAR BRAGADÓTTUR Í MORGUNBLAÐINU - MESTMEGNIS UM SVAVAR GESTSSON

Hér freistast Predikarinn til að setja inn frábæra grein Agnesar Bragadóttur ofurblaðamanns,  úr Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 19. júlí.
Sunnudaginn 19. júlí, 2009 - Innlent - greinar
Agnes BragadóttirAgnes segir...

Sva-var og er – sáraeinfalt!


FÁIR eru sennilega betur að sér í fræðum austurþýsku leyniþjónustunnar STASI en Svavar Gestsson stúdent, fyrrum námsmaður í Austur-Þýskalandi. Síðan Svavar var stúdent í Þýskalandi kommúnismans hefur hann að vísu gegnt mörgum störfum, eins og því að vera ritstjóri Þjóðviljans, málgagns Alþýðubandalagsins sáluga, þingmaður Alþýðubandalagsins, formaður Alþýðubandalagsins, ráðherra Alþýðubandalagsins og sendiherra Íslands, fyrst í Svíþjóð, svo í Danmörku.Svavar Gestsson

Toppnum náði svo stúdentinn frá Austur-Þýskalandi, þegar eitt hans aðalegg gerði hann, hænuna, að formanni samninganefndar Íslands í því mikla hagsmunamáli Íslendinga, Icesave-deilunni. Vitanlega er eggið Steingrímur J. Sigfússon, arftaki Svavars í vinstri pólitík á Íslandi og hugmyndafræðilega af sama meiði og guðfaðir hans í pólitík, Svavar Gestsson.

Svavar óð fram í morgunfréttum RÚV síðasta þriðjudag, engu búinn að gleyma af STASI-fræðum sínum, og sakaði embættismenn Seðlabankans um að vera „komin í pólitískan málflutning.“

Lögfræðingarnir, þau Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands, og Sigurður Thoroddsen, höfðu gert utanríkismálanefnd munnlega grein fyrir mati lögfræðideildar Seðlabankans á Icesave-samningunum og afhent minnisblað í kjölfarið. Áréttað var í tölvupósti til formanns utanríkismálanefndar, að um minnisblað væri að ræða. Endanlegt álit yrði hluti af heildarskýrslu Seðlabankans sem kynnt yrði á miðvikudag.

Öygard & Árni ÞórAnnar „vel upp alinn“ arftaki á vinstri vængnum, Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, var ekki seinn á sér að fara í skítug skóför Svavars Gestssonar, því hálftíma eftir skítafýlubombu Svavars á embættismenn Seðlabankans var skósveinninn mættur á morgunvakt Rásar 2, þar sem hann sagði að álit lögfræðinganna hefði ekki verið formleg skoðun Seðlabankans og því marklaust.

„Það dregur verulega úr trúverðugleika álitsins, ef það er ekki unnið fyrir hönd stofnunar, heldur aðeins persónulegt álit viðkomandi starfsmanns,“ sagði Árni Þór orðrétt! Hélt svo áfram: „Það er einfaldlega verið að blekkja þingnefndirnar með þessum hætti. Ég velti fyrir mér hvort menn séu þarna á einhverju einkatrippi. Mér virðist sem viðkomandi starfsmaður sé enn að vinna fyrir Davíð Oddsson.“

Árni Þór var á þriðjudag krafinn þess á Alþingi að hann bæði lögfræðingana afsökunar á ummælum sínum, en hann var vitaskuld ekki maður til þess. Því var þess beðið með nokkurri eftirvæntingu á miðvikudag, að skýrsla Seðlabankans og þar með talið hinn lögfræðilegi hluti hennar yrði opinbert plagg. Svein Harald Øygard seðlabankastjóri og lögfræðingar bankans sem unnu minnisblað sem lagt var fram á fundi utanríkismálanefndar vísuðu á blaðamannafundi í hádeginu á miðvikudag ásökunum Árna Þórs Sigurðssonar um að lögfræðingarnir hafi villt á sér heimildir algjörlega á bug. Øygard sagði það einfaldlega tímasóun að ræða mál af þessu tagi.

Þar með voru formaður samninganefndar Íslands um Icesave og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, þeir Svavar Gestsson og Árni Þór Sigurðsson, ómerkir orða sinna. Árni Þór sagði að þessu tilefni í Morgunblaðinu á fimmtudag að teldu lögfræðingar Seðlabankans að hann hafi vegið að starfsheiðri þeirra, bæðist hann afsökunar. Hann teldi þó að hann hafi ekki vegið að honum! Gerist hún öllu aumari afsökunarbeiðnin?!

Það verður ekki annað séð en heimilisböl hins örþreytta Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns Vinstri grænna, vaxi frá degi til dags.

Hann er „bombarderaður“ af sínum flokksmönnum úr eigin heimabyggð, þar sem hollustan við hann hefur hingað til náð út fyrir gröf og dauða. Er það einhver furða að hann sé bæði þreyttur og niðurlútur? Hann hefur þetta allt saman einn í fanginu og nú er hann að reyna að reisa sér „pólitískan bautastein“ sem felst í því að sannfæra þjóðina um að hún verði að kokgleypa hinn hroðalega vonda Icesave-samning, sem pólitískur guðfaðir hans álpaðist, af stöku þekkingar- og reynsluleysi, til þess að samþykkja og telja fínan samning. Hann situr uppi með það að hafa gengið til kosninga með þá yfirlýstu stefnu VG að leiðarljósi að hafna inngöngu í ESB; hann situr uppi með það að hafa gengið til kosninga með þá yfirlýstu stefnu VG að hafna frekari virkjanaframkvæmdum og álverum; hann situr uppi með það að hafa sagt fyrir jól að við skyldum aldrei borga Icesave-skuldbindingar einkabankans, Landsbankans, og hann situr uppi með það að VG höfðu þá yfirlýstu stefnu að engar uppsagnir yrðu í ríkisgeiranum. Nema hvað? Formaður BSRB er enn bara í leyfi sem slíkur, en hann heitir Ögmundur Jónasson og er heilbrigðisráðherra.

Steingrímur „Júdas“ SigfúsonSteingrímur J. blessaður er því á útopnu frá því eldsnemma á morgnana þar til hann dettur út af seint, seint á kvöldin, að hrinda í framkvæmd öllum þeim málum sem VG ætluðu að berjast gegn, fyrir kosningar. Nú vantar bara að hann bíti höfuðið af skömminni og leggi til við utanríkisráðherra og fyrrum flokksbróður sinn og Svavars, að hann geri Svavar nokkurn Gestsson að formanni samninganefndar í aðildarviðræðum við ESB!

agnes@mbl.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Grýla! Grýla!

Rúnar Þór Þórarinsson, 9.9.2009 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband