JÓLALEIÐARI - ÞEIR GERAST EKKI BETRI - NEMA HELST FYRRI LEIÐARAR SAMA HÖFUNDAR Á LIÐNUM ÁRUM !

Ég má eigi bindask !  Birti hér hina góðu hugvekju úr leiðara Morgunblaðsins :

 

Aðventunni, tíma undirbúnings, vona og tilhlökkunar, er lokið. Jólin sjálf eru að ganga í garð. Það er enn rík sátt um þennan góða atburð hér á landi. Mikill meirihluti þjóðarinnar tekur á móti honum opnum örmum. Þeir sem eldri eru njóta þess að komast tilfinningalega á kunnuglegar slóðir og börnin eru, hvert og eitt, táknmynd atburðarins sem fagnað er. Ytri ramminn breytist og aðstæður eru ekki sömu og síðast en grunnurinn er það. Samferðamenn hafa kvatt, en eru samt svo nærri.

 

Kristnir menn á Íslandi berja ekki bumbur á fæðingardegi frelsarans en þeir finna að strengurinn hefur aldrei slitnað. Þeir sem trúin hefur látið ósnortna eða hafa fjarlægst hana og jafnvel kvatt njóta jólanna með sínum hætti og sýna langflestir þeim umburðarlyndi sem fagna komu Krists í sinn rann.

 

Kirkjunni og kristnum söfnuðum er umburðarlyndi eiginlegt enda hefur sá tónninn verið gefinn af þeim sem gat. En stundum er bent á atvik í liðinni sögu þegar höfðingjar kirkju og kristni og umburðarlyndi áttu enga samleið og þau höfð sem sannindamerki gegn kristnum sið og kenningum. Það er þó allslaus og ónýt sönnunarfærsla. Á ýmsum tímum villtust menn af leið, fóru illa og jafnvel hraksmánarlega með vald sitt og trúnað. En boðskapur Krists var hinn sami. Ekkert féll á hann.

 

Á síðustu árum hefur þröngur en hávær hópur trúleysingja gengið harkalega fram gegn kristnum gildum, sið og boðun hér á landi, og raunar víðar. Þetta virðist fámenn klíka sem sumir sem fest hafa sig í sessi á lykilstöðum reyna að ýta undir. Allt er það harla dapurlegt. En óþekkt er þetta ekki. Þess háttar virðist ganga í bylgjum. Sjálfsagt er að gefa þessu gaum.

 

Nýlega var í slíku samhengi minnt á orð Sigurbjörns Einarssonar biskups frá árinu 1957:

 

»Þetta er alvarleg aðvörun. Ofsókn steðjar að. Þá verður hver að gera upp við sig hvar hann er staddur. Eru menn í raun og veru við altarið og tilbiðja Guð í anda og sannleika? Eða eru þeir aðeins í forgarðinum? Þeim, sem alla tíð hafa verið hálfvolgir og hikandi, aðeins horft álengdar á tilbeiðsluna við altarið, mun verða hætt, þegar sigursæl heiðni fer að traðka á því, sem heilagt er.

 

Í þessari líkingu felast sannindi, sem eiga erindi til allra tíma, allra kristinna kynslóða. Þegar afneitun og andkristni flæðir yfir, verður »borgin helga« fótum troðin. Á nútímamáli: Öll þau helgu vé sem aldir og kynslóðir hafa byggt upp verða að velli lögð, allur sá kristni siður, öll sú lenska sem skýlir helgum háttum, hollum venjum og hugmyndum innan gróinna veggja, verður útlæg ger úr þjóðlífinu smátt og smátt. Kirkjan kann að missa alla opinbera vernd, prestar glata borgaralegri virðingu, kristin fræði verða með öllu ræk úr hverjum skóla, ekkert blað, ekkert útvarp getur né má flytja kristið efni. Það færi að þykja skömm að færa börn til skírnar, þiggja kristna blessun við stofnun hjúskapar eða greftra framliðna með kristnum yfirsöng. Allir þessir forgarðar venjuhelgaðra hátta, öll þessi helga borg, yrði fótum troðin af heiðingjum.

 

Hér er ekki verið að senda ímyndunaraflið út í bláinn, heldur miðað við nútíðarviðburði, samtímasögu. Hvað verður um nafnkristni í slíkum aðstæðum?

 

Og raunar þarf ekki að miða við tíma opinskárra ofsókna. Þessi orð eiga líka erindi við þær kynslóðir, sem í hugsunarlausri velsæld og veraldarhyggju láta helgidóminn veðrast og fylla alla forgarða heiðnum hugsmíðum

 

Þessi hálfrar aldar gamla hugleiðing Sigurbjörns hljómar eins og ný í okkar samtíð. Þó þarf ekki að æðrast. Kristur og kristsmenn hafa séð það svartara.

 

En fagnaðarhátíð, sem tileinkuð er fæðingu Krists, er góður tími til að heita því að gera sitt fyrir göfugan málstað.

 

Gleðileg jól.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband