24.2.2015 | 07:47
Kaupþingslánið og ráðsmennska Seðlabankastjóra
Fyrirsögnin er úr frábærri blaðagrein Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns sem birtist í Morgunblaðinu í dag, 24. febrúar 2015.
Hér er grein Jóns í heild sinni :
Kaupþing fékk 500 milljóna evra neyðarlán frá Seðlabanka Íslands (SÍ) 6.10. 2008. Öllum sem sátu á Alþingi mátti vera ljóst að mjög var þrýst á það af ýmsum hagsmunaaðilum og ríkisstjórn að SÍ veitti Kaupþingi lánið. Öllum var einnig ljóst að miklu skipti að einn af stóru viðskiptabönkunum lifði af bankakreppu. Þess vegna var lánveitingin talin áhættunnar virði.
Seðlabankinn veitti lánið að fengnum upplýsingum frá stjórnendum Kaupþings, sem að hluta til voru rangar, og tók veð í nánast öllum hlutum í FIH bankanum í Danmörku til tryggingar endurgreiðslu lánsins. Þegar Bretar settu hryðjuverkalög á Ísland og bankann Singer og Friedlander í eigu Kaupþings varð ekki við neitt ráðið. Kaupþing fór í slitameðferð.
Stjórnarandstaðan og fréttamiðlar, m.a. fréttastofa RÚV, virðast haldin þeirri þráhyggju að símtal milli þáverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, og þáverandi seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar, skipti einhverjum sköpum varðandi lánveitinguna.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 22.2. sl. er fjallað um þá staðreynd að ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur var áfram um að lánið yrði veitt. Enfremur að þeir sem tóku við í Seðlabankanum beri ábyrgð á meðferð veðsins og endurheimtum lánsins.
Viðbrögð stjórnarandstöðu og fréttamiðla við þessum upplýsingum hafa verið með ólíkindum. Enn eru settar fram upphrópanir um símtal milli Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde og síðan gert mikið úr því að Seðlabankinn beri ábyrgð á lánveitingunni eins og það liggi ekki ljóst fyrir.
Hefði Davíð Oddsson og sambankastjórar hans í SÍ ekki haft víðtækt samráð við ráðandi aðila í þjóðfélaginu um veitingu lánsins þá hefði það verið óeðlilegt miðað við þær alvarlegu aðstæður sem blöstu við. Þá er spurningin hvort rangt hafi verið að veita lánið gegn því veði sem SÍ tók? Miðað við aðstæður á þeim tíma og þær upplýsingar sem fyrir lágu, þá var það ekki.
Það sem mestu máli skiptir er að SÍ gat fengið lánið endurgreitt að fullu í september 2010. Tjón skattgreiðenda vegna neyðarlánsins til Kaupþings hefði þá ekkert orðið. Þannig greinir viðskiptablað Berlingske Tidende og Morgunblaðið og raunar fleiri miðlar frá því þann 17.9. 2010 að tvö tilboð hafi verið gerð í hlutabréf í FIH-bankanum. Annað tilboðið hefði tryggt endurgreiðslu 500 milljóna evra neyðarlánsins að fullu. Ef Már Guðmundsson, bankastjóri SÍ, hefði fallist á það tilboð þá hefði tjón SÍ og skattgreiðenda ekkert orðið af veitingu neyðarlánsins. Samkvæmt fréttum fjölmiðla ákvað Már Guðmundsson að taka áhættu og fallast á annað tilboð þar sem hluti neyðarlánsins var endurgreiddur, en SÍ tók síðan áhættu af gengi danska skartgripafyrirtækisins Pandóru varðandi eftirstöðvarnar þannig að skilanefnd Kaupþings gæti þá hugsanlega fengið einhverja fjármuni í sinn hlut. SÍ undir stjórn Más ákvað því að taka áhættu án ávinnings nema þá fyrir þriðja aðila. Þetta virðist hafa verið gert án samhliða kröfu til þess, að slitabúið myndi ábyrgjast greiðslu þess sem ekki fengist greitt af láninu.
Með þessari ákvörðun setti Már Guðmundsson hagsmuni skattgreiðenda í hættu. SÍ gat aldrei fengið meira en sem nam andvirði neyðarlánsins og eini aðilinn sem gat hagnast á þessari ráðstöfun var skilanefnd Kaupþings.
Það þarf ekki að rannsaka neitt eða hlusta á símtöl. Málavextir liggja ljósir fyrir. Í fyrsta lagi þá var um eðlilega lánveitingu að ræða til Kaupþings með neyðarláninu upp á 500 milljónir evra miðað við aðstæður. Í öðru lagi gætti SÍ þess að taka fullnægjandi veð og í þriðja lagi þá virðist núverandi bankastjóri SÍ hafa teflt hagsmunum bankans í hættu með því að taka ekki tilboði um sölu veðsins í september árið 2010 sem tryggt hefði fulla endurgreiðslu neyðarlánsins. Niðurstaða þess ræðst ekki endanlega fyrr en í árslok 2015.
Mér er það ráðgáta að fjölmiðlar og stjórnmálamenn þessarar þjóðar skuli ekki gera sér grein fyrir jafn einföldum staðreyndum og greina aðalatriði frá aukaatriðum og átta sig á hver er Svarti Péturinn í spilinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.