23.5.2008 | 13:54
DOWNS BÖRNIN OG SAMVISKA LÆKNA
Predikarinn má eigi bindask, að birta frábæra grein sem birtist í Morgunblaðinu á síðasta miðvikudag eftir Guðmund Pálsson lækni. Þar fjallar hann um deydd börn í móðurkviði vegna Downs-heilkennis.
Downs-börnin og samviska lækna
Guðmundur Pálsson skrifar um fósturskimun og Downs-heilkenni
Guðmundur Pálsson skrifar um fósturskimun og Downs-heilkenni: "Læknarnir sjálfir eru í raun ekki vanmáttugir að verja þessi börn því þeir geta neitað að taka þátt í þessu."
Þeir taka til sín ásakanir sem birtust í leiðara Morgunblaðsins daginn áður þar sem fjallað er um þróun fóstureyðinga á Downs-börnum þar sem þeim er líkt við útrýmingu á tímum nasismans. Hún átti sér rætur í arfbótastefnum og skyldum hugmyndum um að sá veiki ætti að víkja fyrir þeim sterkari. Leiðarinn spyr þeirrar spurningar hvort hljómgrunnur sé fyrir slíkri útrýmingarstefnu á Íslandi. Ég hygg að flestir svari því neitandi. Við viljum ekki hafa þetta svona.
Málin hafa samt þróast þannig á umliðnum árum að næstum öllum þessum börnum er eytt í móðurkviði vegna skimunar sem framkvæmd er snemma í meðgöngu gagngert til að finna þessi börn og önnur alvarleg frávik. Undanfarið hefur verið rætt um þessa þróun og ég hygg að læknarnir sjálfir séu einnig uggandi. Menn hljóta að spyrja sig hvort æskilegt sé að hafa fósturskimun fyrir alla eða aðeins þær konur sem komnar eru yfir ákveðinn aldur.
En útrýming Downs-barna leiðir auðvitað af stefnu okkar í fóstureyðingamálum:
Eða hvernig á læknir sem framkvæmir fóstureyðingar að sannfæra sjálfan sig um að ekki skuli eyða Downs-börnum að ósk foreldra, úr því öðrum heilbrigðum börnum er einnig eytt með frjálsum hætti?
Það er uggvænlegt ef algjör sjálfvirkni ræður í raun ferlinu en það hefur óhjákvæmilega gerst á Íslandi.
Læknarnir sjálfir eru í raun ekki vanmáttugir að verja þessi börn því þeir geta neitað að taka þátt í þessu. Þeim ber raunverulega skylda til að skoða hug sinn í hverju læknisverki. En þeim hefur lærst að líta á sig sem þögult verkfæri löggjafans og hafa vanist því. Því miður.
Læknar hafa á ýmsum tímum fundið sig knúna til að hlýða yfirvaldi, t.d. á stríðstímum, og vera ella skotnir. Halda mætti að svo væri, eða eru menn hræddir um að missa starfið?
Víða erlendis, t.d. í Bretlandi, hafa sérstaklega ungir læknar í vaxandi mæli nýtt sér þennan rétt að andmæla. Þeir einfaldlega neita að taka þátt í siðferðilega hæpnum störfum sem niðurlægja þá sjálfa og læknisstarfið. Það er eðlilegt að yngri læknar forðist að taka þátt í þessum störfum. Menntun fæðingalækna hefur breyst og þeir velja sér í auknum mæli sérstök svið innan sinnar sérgreinar. Þeir velja því að skilja út undan fóstureyðingar. Vilja ekki taka þátt í þeim og telja sér það ekki skylt, enda er það talið skítverk innan stéttarinnar.
Þeir hafna fóstureyðingum; ekki endilega á trúarlegum forsendum heldur persónulegum, vegna mannhelgi: Menn eru hreinlega ekki viljugir til að eyða lífi samkvæmt skipunum annarra. Og seint verður lækni þökkuð fóstureyðing.
Starfið telst lágstatus starf sem grefur undan atvinnusiðferði persónunnar á meðan t.d. læknar sem sinna tæknifrjóvgun teljast hetjur og fyrirmyndir.
Ég vil auðvitað forðast að dæma kollega mína í þessu máli en almenningsálitið er að breytast og varnargrein eins og yfirlæknarnir skrifuðu hefði verið óhugsandi fyrir 510 árum.
Það þarf að taka á þessum málum af heiðarleika og þjóðin að spyrja sig hvort þetta eigi að halda áfram með þessum hætti. Og læknar og hjúkrunarfólk þurfa einnig að leggja mannhelginni lið.
Yfirlæknarnir sögðu í grein sinni að öll sjónarmið væru virt í þessu starfi. Þeim er ljós viðkvæmni málsins. Innan stofnunar er hægast að hafa samning milli deildar og hvers einstaks læknis, samning sem fjallar um vilja hans eða óvilja til að framkvæma fóstureyðingar. Slík ákvörðun myndi krefja menn til að skoða samvisku sína ofan í kjölinn.
Hér er vert að benda á aðalatriðið sem að okkur læknum snýr: Okkur ber ekki skylda til deyða fóstur því fóstureyðing er ekki læknisaðgerð í neinum venjulegum skilningi þess orðs og læknar sem stunda þær ættu að hugleiða alvarlega hvort þeir séu að brjóta læknaeiðinn. Neitun þarf að virða og taka vandræðalaust.
Höfundur er sérfræðingur í heimilislækningum."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll og blessaður Predikari.
Þetta er mögnuð grein eftir Guðmund Pálsson.
Hann skrifar: "Menntun fæðingalækna hefur breyst og þeir velja sér í auknum mæli sérstök svið innan sinnar sérgreinar. Þeir velja því að skilja út undan fóstureyðingar. Vilja ekki taka þátt í þeim og telja sér það ekki skylt, enda er það talið skítverk innan stéttarinnar."
Þetta er nefnilega skítverk. Þarna er verið að taka fram fyrir hendurnar á Guði almáttugum. Hann hafði ákvarðað að þetta barn skyldi fæðast í þennan heim. Svo erum við Íslendingar að skammast yfir að það sé verið að drepa út í himum stóra heimi en hér erum við að fórna 1000 einstaklingum á hverju ári á dauðadeild Landspítalans og kannski víðar.
"Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel. Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar. Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn." Sálm. 139. 13.-16.
Baráttukveðjur/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.5.2008 kl. 18:26
Innlitskvitt
Góða helgiLovísa , 24.5.2008 kl. 11:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.