25.11.2008 | 09:58
"SJÓNARSPIL OG SÝNDARLEIKIR GLITNIS OG FL" - STÓRFRÓÐLEG FRÉTTASKÝRING OFURBLAÐAMANNSINS AGNESAR BRAGADÓTTUR Í MORGUNBLAÐINU Á SUNNUDAG SEM VAR
Predikarinn má eigi bindask að birta almenningi stórfróðlega fréttaskýringu ofurblaðamannsins Agnesar Bragadóttur um ævintýramennsku aldarinnar. Er þetta kannski stórkostlega siðblind og veruleikafirrt sjálftaka aldarinnar? Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Sunnudaginn 23. nóvember, 2008 - Innlendar fréttir
Sjónarspil og sýndarleikir Glitnis og FL
"*Baktjaldamakk, þar sem tugir milljarða voru lánaðir úr Glitni til FL, hluthafa og leynifélags, var með ólíkindum *Glitnir banki hf. var látinn taka skell upp á tugi milljarða króna í útlánasukki Glitnis til sérvalinna viðskiptavina"
Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is "Ljóst er að því hefur farið víðsfjarri að góðir og virtir viðskiptahættir hafi verið í hávegum hafðir innan Glitnis (Íslandsbanka áður), að minnsta kosti síðustu starfsár bankans, hvort sem var í forstjóratíð Bjarna Ármannssonar eða Lárusar Welding. Hér verður stiklað á stóru, hvernig Glitnir hagaði sér í lánveitingum til FL Group, langstærsta hluthafans í Glitni og tengdra aðila, eftir að ljóst var orðið að ekkert nema þrot blasti við FL Group fyrir tæpu ári. Blaðamaður hefur undir höndum gögn úr lánabókum Glitnis sem sýna fram á óeðlilegar lánafyrirgreiðslur frá bankanum til stærstu hluthafa FL Group upp á marga tugi milljarða, þegar ljóst mátti vera að ekki var króna í aukinni lánagreiðslu til hluthafanna á vetur setjandi. Annað sem gögnin sýna fram á með óyggjandi hætti er að Glitnir sjálfur var bullandi meðvirkur þátttakandi í laumuspili með helstu eigendum FL Group sem gekk út á viðskipti með bréf í FL Group þar sem Glitnir var seljandi og laumufélag, FS37 ehf. með leynieigendur á vegum stærstu hluthafanna var kaupandi. Fram til 15. nóvember í fyrra hafði Glitnir verið að kaupa öll bréf í FL Group sem voru á markaði til þess að reyna að halda uppi gengi bréfa í FL Group og þegar FS37 ehf. keypti 4,11% í FL Group var Glitnir banki kominn með 3,59% hlut í FL.Ótrúleg vinnubrögð
Allt var gert til þess að halda uppi hríðfallandi verði á bréfum í FL Group og viðskiptin áttu sér stað í vikunni 15. nóvember í fyrra til 22. nóvember í fyrra, nánar tiltekið hinn 16. nóvember 2007. Það er raunar svo yfirgengilegt hvernig menn í Glitni höguðu sér í viðskiptum með bréf í FL Group og lánveitingum þeim tengdum, að óhjákvæmilegt virðist að ný stjórn og skilanefnd Glitnis krefjist opinberrar rannsóknar á þessum viðskiptum. Til þess að skýra málið og setja í samhengi er rétt að rifja upp hvernig listinn yfir stærstu hluthafa í FL Group var samansettur hinn 15. nóvember fyrir ári og aftur hvernig hann var samansettur einni viku síðar, hinn 22. nóvember 2007. 15. nóvember 2007 voru 10 stærstu hluthafarnir í FL Group þessir: 1. Oddaflug B.V. (í eigu Hannesar Smárasonar) 20,52% 2. Gnúpur fjárfestingafélag (í eigu Kristins Björnssonar og fjölskyldu, Magnúsar Kristinssonar og Þórðar Más Jóhannessonar) 17,24% 3. BG Capital ehf. (í eigu Baugs Group hf.) 15,85% 4. Materia Invest ehf. (í eigu Magnúsar Ármann) 9,23% 5. GLB Hedge (í eigu Glitnis) 5,66% 6. Sund ehf. (í eigu Jóns Kristjánssonar o.fl.) 4,76% 7. Glitnir banki hf. (almenningshlutafélag í eigu rúmlega 11 þúsund hluthafa) 3,59% 8. Kristinn ehf. (félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu)) 2,05% 9. LI-Hedge (í eigu Landsbanka Íslands) 2,01% 10. Icebank hf. (í eigu sparisjóða og fleiri) 1,50% Og 10 stærstu hluthafarnir í FL Group hinn 22. nóvember 2007 voru þessir: 1. Oddaflug B.V. 20,52% 2. Gnúpur fjárfestingafélag hf. 17,27% 3. BG Capital ehf. 15,85% 4. Materia Invest ehf. 9,23% 5. GLB Hedge 4,76% (eignarhluturinn hefur minnkað um 0,9 prósentustig á einni viku) 6. Sund ehf. 4,76% 7. FS37 ehf (leynifélag þar sem einu upplýsingarnar um félagið hjá lánardrottninum Glitni eru þær að stjórnandi og prókúruhafi sé Jakob Valgeir Flosason, forstjóri Jakobs Valgeirs í Bolungarvík!) 4,11%. 8. Kristinn ehf. 2,05% 9. LI-Hedge 1,87% 10. Icebank hf. 1,57%Glitnir hrapar í 19. sæti
Glitnir sem viku áður var í 7. sæti á hluthafalista FL Group er nú kominn niður í 19. sæti hluthafalistans, með 0,67% hlut og hlutur bankans hefur því minnkað um 2,92 prósentustig. Þegar þeim hlut er bætt við þann sem GLB Hedge minnkaði á þessari sömu viku, 0,9 prósentustig þá er prósentan 3,82% og þau 0,29 prósentustig sem vantar upp á til þess að fylla í 4,11% hlut hins nýja leynifélags, FS37 ehf. virðast samkvæmt hluthafaskrá hafa komið frá Gnúpi, Icebank, LI Hedge og Gildi lífeyrissjóði. Hinn 31. janúar á þessu ári voru heildarskuldir innlendra fyrirtækja og félaga við Glitni samtals rúmir 686 milljarðar króna, samkvæmt yfirliti bankans um eftirstöðvar lána úr fyrirtækjahluta lánabókar þar sem Guðmundur Hjaltason var framkvæmdastjóri (EVP Corporate Bank var starfsheiti hans á ensku). Stærsti einstaki skuldarinn var FL Group með lán upp á samtals 26,6 milljarða króna. Þegar lánveitingar Glitnis til FL Group eru greindar kemur eftirfarandi í ljós: Glitnir lánaði félaginu hinn 15. nóvember í fyrra rúma 4,8 milljarða króna með liðlega 10% breytilegum vöxtum auk verðtryggingar; hinn 20. nóvember í fyrra lánaði Glitnir aftur til FL Group rétt tæpa 6 milljarða króna á nánast sömu vaxtakjörum og einnig með verðtryggingu og loks lánaði Glitnir félaginu tæpa 15,9 milljarða króna hinn 27. desember 2007, enn á mjög svipuðum kjörum, einnig verðtryggt. Álagið á lán til FL Group var 275 punktar, eða 2,75%, fjármagnskostnaður í nóvemberlánunum var 0,45% en 1% í stóra láninu í desember. Þetta vekur athygli, ekki síst vegna þess að Glitnir glímdi þá þegar við hækkandi fjármagnskostnað. Vitanlega lifir Glitnir, eins og aðrir bankar, á því að vera með hærra álag til viðskiptavinar en bankinn borgar sjálfur á sín lán. Þegar um er að ræða lán með breytilegum vöxtum þá eru bankinn og viðskiptavinir hans í raun ekki að semja um vextina sem slíka, heldur að semja um hvað álag ofan á þessa breytilegu vexti á að vera. Síðan ætti álagið að vera þeim mun hærra eftir því sem áhættan við útlánið vex og sömuleiðis ættu tryggingar vera auknar í samræmi við aukna áhættu. Þótt allar lánveitingarnar veki athygli í ljósi þess hver staða FL Group var þegar um miðjan nóvember í fyrra, hlýtur síðasta lánveitingin, hinn 27. desember, að vekja sýnu mesta athygli. Glitnir, sem var þá vitaskuld almenningshlutafélag, í eigu rúmlega 11 þúsund hluthafa, var að taka ákvörðun um að lána fyrirtæki, sem var svo gott sem komið í greiðsluþrot þar sem lausafé var uppurið og félagið hætt að greiða reikninga, stórkostlega fjármuni til viðbótar við þá tæpu 11 milljarða sem lánaðir voru um og upp úr miðjum nóvember, til síns stærsta eiganda. Hvað var þarna í gangi? Væntanlega geta viðskiptastjóri þessarar lánveitingar og lánastjóri veitt upplýsingar um það á hvaða faglegu forsendum ákvörðun um lánveitinguna var tekin! Nei, vitanlega geta þau það ekki, því lánveitingin var ákveðin á bak við tjöldin, án þess að þau kæmu þar að málum og þau sáu einungis um að framkvæma ákvörðun fulltrúa stærsta hluthafans í Glitni og bankaráðsformanns, forstjóra og framkvæmdastjóra Glitnis. Þar komu við sögu, samkvæmt heimildum, Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, Þorsteinn M. Jónsson, þá formaður bankaráðs Glitnis, Lárus Welding, forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri hjá Glitni yfir fyrirtækjasviði sem ávallt var nefnt í Glitni Corporate Banking. Ekki mikil áhersla lögð á íslenska tungu þar á bæ! Í Corporate Banking felst fyrirtækjaþjónusta bankans á alþjóðlegum mörkuðum, meðal annars til viðskiptavina af heimamarkaði, sem og skuldsett fjármögnun. Exista var 31. janúar sl. annar stærsti skuldari við Glitni, með skuld upp á tæpa 23 milljarða króna, en það fjárfestingarfélag kemur að öðru leyti ekki við sögu í þessari umfjöllun. Í þriðja sæti á lista yfir skuldara bankans hinn 31. janúar sl. situr svo leynifélagið sem upphaflega hét FS37 ehf. en þegar það dúkkar upp í lánabók Glitnis í janúar heitir það Stím ehf. Þetta leynifélag skuldaði Glitni 31. janúar sl. hvorki meira né minna en rúma 19,5 milljarða króna. Við þessa lánveitingu er hvorki skráður viðskiptastjóri né lánastjóri. Hvers vegna skyldi það nú vera?! Stím fékk lánaða hjá Glitni hinn 16.11. 2007, fyrir réttu ári, þessa 19,5 milljarða króna. Samtals var lánið, sem var kúlulán til eins árs, með rúmlega 21% vöxtum en þá eru lagðir saman vextirnir upp á 17,2%, vaxtaálagið upp á 2,95% og fjármagnskostnaður upp á 1%. Lánið var ekki verðtryggt, en kunnugir telja að vaxtaálagið, 2,5% hafi verið óeðlilega lágt, raunar allt of lágt miðað við áhættuna og að engar tryggingar voru lagðar fram á móti láninu. Lánsnúmerið á 19,5 milljarða króna láninu til FS37 (Stíms) er samkvæmt lánabók Glitnis 310989. Lánið var veitt í íslenskum krónum. Þetta er því sérkennilegra eftir því sem nánar er rýnt í lánayfirlitið úr Glitni. Ekkert áhættumat lá til grundvallar lánveitingunni, samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið og enginn er skráður ábyrgur fyrir lánveitingunni, hvorki viðskiptastjóri né lánastjóri.Engar tryggingar
Það var ekki fyrr en í janúarlok á þessu ári sem Stím var tekið fyrir á áhættumatsfundi í Glitni og var þá flokkað í áhættuflokkinn 8, rúmum tveimur mánuðum eftir að lánið var veitt. Áhættuflokkur 8 þýðir mjög mikil áhætta því ef lánað er samkvæmt áhættuflokki 10 er beinlínis verið að lána til gjaldþrota fyrirtækis. Gnúpur fjárfestingafélag var í fjórða sæti á lista yfir stærstu skuldara fyrirtækjasviðs Glitnis hinn 31. janúar sl. og skuldaði samtals 18,8 milljarða króna. Basel-nefndin innan Bank of International Settlements (BIS Alþjóðagreiðslubankinn) gefur út reglur um stjórnun og eftirlit með greiðsluhæfisáhættu (Principles for Sound Liquidity Risk Management and Supervision). Basel-reglurnar kveða m.a. á um það að lántakendur þurfa að fara í gegnum áhættumat. Samkvæmt þeim eru lántakendur flokkaðir niður í áhættuflokka, eftir því hversu mikil áhætta fylgir lánveitingunni og þarf sá sem flokkaður er í áhættuflokk 8 að binda mun meiri tryggingar á móti láninu en t.d. lántakandi sem flokkaður er í áhættuflokk 4 eða 5. Ekki lá fyrir í janúar, samkvæmt upplýsingum sem aflað hefur verið, að nokkrar tryggingar hafi verið settar fram af hálfu Stíms ehf. fyrir þessari tæplega 20 milljarða króna lántöku. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins ætti ákvörðun um lánveitingar eins og þær sem veittar voru til Stíms ehf. hinn 16. nóvember 2007 og FL Group í desemberlok í fyrra að fara bæði fyrir lánanefnd bankans og áhættuvarnanefnd en það gerðist ekki í ofangreindum tilfellum, samkvæmt upplýsingum sem aflað hefur verið. Í þessum efnum er einnig athyglivert að lánið til FL Group var í áhættuflokki 5, lánið til Stíms ehf. var í áhættuflokki 8, 15,3 milljarða lán til Fons eignarhaldsfélags í eigu þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar var í áhættuflokki 6. Athygli vekur að lánveitingin til Fons er veitt á sama hátt og lánveitingin til Stíms, og skráð í lánabók án þess að nöfn viðskiptastjóra og lánastjóra væru færð til bókar sem ábyrgðarmenn viðskiptanna. Lánin til Gnúps, samtals að upphæð 18,8 milljarðar króna, voru í áhættuflokki 5. Samtals eru því þessir fjórir viðskiptavinir Glitnis, FL Group, stærsti hluthafinn í Glitni, Gnúpur, Stím og Fons, þrír stórir hluthafar í FL, í rúmlega 80 milljarða króna skuld við Glitni í janúarlok á þessu ári. Þegar litið er til þess að Baugur Group hf. skuldaði á fyrirtækjasviði Glitnis hinn 31. janúar sl. 14,5 milljarða króna, Katla Seafood ehf. (í eigu Samherja, útgerðarfélags Þorsteins Más Baldvinssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Glitnis o.fl.) 12,8 milljarða króna og Landic Property hf. (í eigu FL Group, 40%, ISP ehf., eignarhaldsfélags í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar,16,38%, Glitnis banka 5% o.fl.) skuldaði 12,7 milljarða króna, bætast aðrir 40 milljarðar króna við skuldir þessa tengda viðskiptamannahóps í Glitni og skuld þeirra við bankann fyrir rúmum níu mánuðum stóð þannig í rúmum 120 milljörðum króna. Loks ber að geta skuldar Milton ehf. við Glitni, en það er eignarhaldsfélag í eigu Baugs. Félagið skuldaði Glitni hinn 31. janúar sl. 8,4 milljarða króna og enn kemur á daginn, þegar lánabókin góða er skoðuð, að hvorki viðskiptastjóri né lánastjóri er skráður sem ábyrgðarmaður viðskiptanna. Og þá eru skuldir tengdra aðila við fyrirtækjasvið Glitnis þar með farnar að nálgast 130 milljarða króna miðað við stöðuna í byrjun þessa árs. Á þessari stundu er útilokað að segja til um það hversu miklir fjármunir af þessum lánum eru bankanum tapaðir en þó óhætt að fullyrða að hér ræðir um marga tugi milljarða króna. Ef Stím hefði staðið í skilum og greitt lánið upp hinn 16. nóvember í ár, hefðu tekjur lánveitingarinnar fyrir Glitni verið um 4,15 milljarðar króna. Ekki liggur fyrir hversu miklu Glitnir hefur tapað á ofangreindri lánveitingu, en Stím mun hafa greitt inn á lánið, að minnsta kosti á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þegar reynt er að afla upplýsinga um FS37 ehf. og sömuleiðis Stím ehf. fyrir utan þær upplýsingar sem eru fyrir hendi í lánabók Glitnis kemur fátt á daginn. Að vísu virðist ekkert vera til í lánabókum Glitnis um FS37 enda er félagið ekki til á skrá fyrirtækjaskrár hjá Ríkisskattstjóra. En hjá fyrirtækjaskrá liggja fyrir örlitlar upplýsingar um Stím ehf. Þær eru þessar: Félagið var stofnað 26. október 2007. Lögheimili þess er í Hafnarstræti 53 á Akureyri. Stjórn félagsins skipar, samkvæmt fundi hinn 16. nóvember 2007 (sama dagsetning og er á tæplega 20 milljarða lánveitingu frá Glitni til félagsins í fyrra innskot blaðamanns) Jakob Valgeir Flosason til heimilis að Línakri 1 í Garðabæ. Hann er skráður stjórnarformaður. Enginn er skráður í framkvæmdastjórn, enginn er skráður með prókúruumboð en KPMG hf., Borgartúni 27 er skráð sem endurskoðandi. Firmað ritar stjórnarformaður og það eru hömlur á meðferð hlutabréfa en ekki lausnarskylda á hlutum. Tilgangur félagsins er eignarhald, umsýsla, kaup og sala verðbréfa ásamt lánastarfsemi og öðrum tengdum rekstri, segir orðrétt í vottorði fyrirtækjaskrár. Eins og áður segir var Gnúpur fjárfestingafélag í fjórða sæti á lista skuldara í Glitni hinn 31. janúar sl.. Glitnir tók Gnúp reyndar yfir vegna gjaldþrots félagsins hinn 8. janúar sl. Bankinn tók félagið yfir án þess að það væri gert upp og það var því áfram skráð á sömu eigendur og áður, en samkvæmt mínum upplýsingum gat Glitnir hvenær sem stjórnendur bankans kærðu sig um, tekið félagið formlega yfir fyrir EINA KRÓNU! Eftir að Glitnir hafði tekið Gnúp yfir og stjórn þess félags án þess að gera það nokkurn tíma opinbert, þá var gengið í það að hafa skipti á bréfum við Fons ehf. þannig að FL Group bréf Gnúps voru flutt til Fons og í staðinn fékk Gnúpur bréf Fons í Landic Property, félagi sem var einnig komið í bullandi vandræði í janúar. Út frá bankalegum forsendum eru þessar tilfærslur óskiljanlegar því sennilega hefði verið vitinu nær að selja bréf Gnúps í FL Group og fá þannig greiðslur, a.m.k. upp í 18,8 milljarða króna skuldir Gnúps við Glitni. Varla getur verið að forsvarsmenn Glitnis hafi gert sér í hugarlund, að bréfin í Landic Property væru svo arðsöm fjárfesting að arðurinn af þeim stæði undir afborgunum og vöxtum af hinum háu lánum Gnúps, sem voru á yfir 21% vöxtum. Nei, enn eina ferðina var verið að nota Glitni, almenningshlutafélag í eigu um 11 þúsund hluthafa til þess að taka þátt í hlutabréfaleik helstu eigenda FL Group og bankinn og eigendur hans tóku á sig kostnaðinn, sumir meðvitað, flestir án þess að hafa hugmynd þar um og stjórnendur Glitnis léku með.Í spilaborg FL Group
Þetta var hin raunverulega skýring á því að Fons varð skyndilega svo stór hluthafi í FL Group. Bent er á að í stað þess að ganga í það að selja bréf Gnúps í FL Group og fá þannig greiðslur upp í tæplega 19 milljarða króna skuldir Gnúps við Glitni hafi forráðamenn bankans einfaldlega haldið áfram að spila með í spilaborg FL Group og stærstu hluthafa félagsins án þess nokkurn tíma að setja hagsmuni bankans, viðskiptavina og annarra hluthafa í forgang. Í janúar sl. lækkaði Moody's lánshæfiseinkunn Glitnis vegna aukningar bankans á lánum til tengdra aðila. Augljóslega hafa þessar lánveitingar til FL Group, Gnúps, Fons, Stíms, Landic Property, Miltons og Baugs (allt tengdir aðilar) haft mestu áhrifin á þá niðurstöðu Moody´s og þannig skipt máli að Glitnir þurfti að sætta sig við verri lánskjör þegar í upphafi þessa árssem vitanlega bitnaði á öllum viðskiptavinum og hluthöfum Glitnis.FS37 Stím
Það voru nokkrir stórlaxar úr hópi stærstu hluthafa í FL Group, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson fyrir Baug, Hannes Smárason fyrir Oddaflug og einn eða tveir aðrir, sem ákváðu á leynifundi í október í fyrrahaust, að nú þyrftu þeir að taka höndum saman, stofna félag, kaupa upp þau fáu bréf í FL sem voru raunverulega á markaði og ná þannig að halda uppi gengi bréfa FL sem hafði ekki gert neitt annað en hríðfalla. Það voru ekki nema örfá prósent af bréfum í FL sem raunverulega voru á markaði þegar þetta var, en alltaf þegar viðskipti áttu sér stað, gerðist sami hluturinn. Gengi bréfanna féll frá síðustu viðskiptum og þetta var farið að pirra stórlaxana fyrrverandi allverulega. Þeir voru að vísu raunverulegir stórlaxar, þegar þeir lögðu á ráðin um slíkan björgunarleiðangur, að minnsta kosti að nafninu til, en ekki lengur. Það er önnur saga. FS 37 ehf var stofnað í samvinnu við Jakob Valgeir Flosason. Glitnir lánaði tæpa 20 milljarða til félagsins, sem notaði rúma 8 milljarða til þess að kaupa upp hið litla bréfamagn í FL sem var í umferð og um leið var keyptur hluti í Glitni, í sama tilgangi, þ.e. að halda uppi gengi á fallandi bréfum í Glitni. Við þessa afgreiðslu Glitnis á láni til leynifélagsins FS37 ehf., sem skömmu síðar var breytt í Stím ehf., fór allt á fleygiferð meðal starfsmanna Glitnis, sem höfðu einhverjar hugmyndir um lánveitinguna. Það átti jafnt við um yfirmenn sem almenna starfsmenn. Þeir telja alveg ljóst að aldrei hafi nokkrar ábyrgðir verið lagðar fram vegna þessarar lánveitingar, ekkert áhættumat hafi farið fram og í lánabókum bankans sé ekki að finna nokkurt nafn sem sé ábyrgt fyrir lánveitingunni. Einhverjir starfsmenn reyndu að kynna sér hvað þarna væri á ferðinni og komust að raun um að fyrir félaginu Stím ehf. var einn maður skráður, Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður í Bolungarvík. Engar frekari upplýsingar fengust. Hvað veldur því að ungur útgerðarmaður vestan af fjörðum tekur lán fyrir ári upp á tæpa 20 milljarða króna, til þess að kaupa hlutabréf í félagi sem er í frjálsu falli? Auðvitað olli því ekkert annað en það, að Jakob Valgeir lánaði nafn sitt eða leigði, á leynifélag þeirra FL-félaganna, sem stærstan áttu hlut í félaginu. Hvort hann fékk þóknun fyrir vikið og hver hún var fyrir nafnalánið eða leigu, skal hér látið liggja á milli hluta.Lánabók Glitnis opnuð
Jón Ásgeir Jóhannesson, Þorsteinn M. Jónsson, Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason ákváðu í desemberlok í fyrra að Glitnir lánaði FL Group 15,9 milljarða króna. FL Group var þegar þetta var komið í greiðsluþrot. Lánveitingar í bankanum til valinna viðskiptavina ollu miklum kurr meðal starfsmanna Glitnis, sem margir hverjir gerðu sér grein fyrir alvöru málsins.Stofnuðu leynifélag
Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason höfðu í fyrrahaust frumkvæði að því að leynifélagið FS37 væri stofnað, sem síðar var breytt í Stím ehf. með það fyrir augum að halda uppi hríðfallandi gengi á bréfum í FL Group. Þeir fengu Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmann frá Bolungarvík, til þess að ljá félaginu nafn sitt sem stjórnarformaður og eini stjórnandinn."
Svo mörg voru þau vísu orð !
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Hvers vegna er enginn kallaður til lögreglu og yfirheyrður?
Sigurjón Þórðarson, 25.11.2008 kl. 10:23
Allt annað efni, en mikilvægt: sjá þína eigin gestabók, félagi.
Jón Valur Jensson, 26.11.2008 kl. 03:00
Spurning mín er líka sú hvort spillingin nái uppí fjármálaeftirlitið. Þáðu starfsmenn fjármálaeftirlitsins "greiða" í stað þess að greiða mönnum leið án vandkvæða til settra takmarka.
Ég trúi því í hjarta mínu að fjármálaeftirlitið sé líka siðspillt og hafi hugsanlega þegið mútur fyrir að halda fyrir augun.......
Jón Ásgeir er viðskiptasiðblindur, hvað eru nokkrir embættisguttar fyrir honum nema bara nokkrir munnar til að metta og láta makka rétt.
Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 23:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.