GRUNNSKÓLAKENNSLA GUÐFRÆÐINGA

Ég leyfi mér að birta grein sr. Geirs Waage í Morgunblaðinu í dag um ásakanir Baldurs Þórhallssonar um trúboð og skólastarf.

 

"Sunnudaginn 16. desember, 2007 - Aðsent efni

Sitt sýnist hverjum

Geir Waage gerir athugasemd við grein Baldurs Þórhallssonar sem birtist í 24 stundum.Geir WaageGeir Waage

"Málflutningur prófessors Baldurs Þórhallssonar í grein sinni um trúboð og skólastarf er ósæmilegur þeirri akademiu, sem hann þjónar. Sjálfum er hann honum til minnkunar."

PRÓFESSOR Baldur Þórhallsson ritar ?Álit? í 24 stundir á Ambrosíusmessu síðastliðinni. Þar fjallar hann um trúboð og skólastarf og rekur áhrif upplýsingarstefnunnar í þessu sambandi til þeirrar niðurstöðu, að kirkjan hafi að mestu dregið sig út úr skólastarfi. Að áliti prófessorsins linnti þá ?bábiljum? kirkjulegrar innrætingar í skólum og ?áróðri gegn skapandi og gagnrýnni hugsun?. ?Farið var í vaxandi mæli að greina á milli veraldlegs og andlegs valds?, segir þar.

Prófessor í stjórnmálafræði hefði vel mátt geta þess í svona yfirliti, að aðskilnaður andlegs og veraldlegs valds, er ein helzta krafa og ávöxtur Lúthersku siðbótarinnar og að upplýsingarstefnan á þangað sjálf rætur að rekja. Hitt er þó alvarlegra, að hann getur þess alls ekki í greininni, að það voru einmitt prestar kirkjunnar, sem nær einir sinntu allri uppfræðslu hjerlendis um aldir. Þeir bjuggu pilta undir skóla og á 19. og um framanverða 20. öld sinntu þeir barna- og unglingafræðslunni um land allt. Þeir kenndu á heimilum sínum og stofnuðu sjálfir og ráku skóla. Helztu frumkvöðlar að allri alþýðumenntun og almenningsskólum voru einmitt þeir hinir sömu þjónar Þjóðkirkjunnar, sem í grein prófessorsins fá þá einkunn, að vera „engan veginn best til þess fallnir að kenna trúarbragðafræði og túlka þar með önnur trúarbrögð á sínum forsendum“.

Ætli prófessor Sigurbjörn Einarsson hafi ekki einna fyrstur kynnt Íslendingum önnur trúarbrögð, þegar hann tók saman rit sitt um helztu trúarbrögð heimsins. Engan hefi eg heyrt halda því fram, að þar hafi hann hallað á önnur trúarbrögð, þrátt fyrir það að vera vígður Þjóðkirkjunnar þjónn. Á sama hátt hygg eg það vera nýmæli, þegar því er nú haldið fram, að alþýðuuppfræðsla prestanna og forganga um alþýðumenntun hafi ekki verið annað en bábiljuinnræting og áróður gegn skapandi og gagnrýnni hugsun.

Prófessor Baldur fullyrðir að ekki sje langt síðan að „mikið þurfti til að yfirmenn kirkjunnar féllust á að konur stæðu körlum jafnfætis innan kirkjunnar og í samfélaginu“. Ekki kannast eg við nein veruleg átök um það, að konur tækju vígslu til prestsembættisins í Þjóðkirkjunni. Það gjörðist raunar áður en eg varð sjálfur kirkjunnar þjónn, held eg, en varla hefðu slík átök farið fram hjá mjer, hefðu þau orðið. Konur hafa mjög lengi setið í sóknarnefndum, oft sem oddvitar þeirra. Oft hafa þær líka verið þar í meirihluta. Aldrei hefi eg heyrt um átök í þessu sambandi. Aldrei hefi eg heyrt klerk tala gegn þátttöku kvenna á opinberum vettvangi. Öðru nær. Mjer er því öldungis hulið, hvað prófessorinn á við með tilvitnaðri fullyrðingu.

Loks ritar prófessor Baldur; „Einnig hafa nokkrir forvígismenn kirkjunnar, með biskupinn í broddi fylkingar, ráðist með skömmum og fyrirlitningu á samkynhneigða og fjölskyldur þeirra“. Alveg hefur þetta farið fram hjá mjer. Hefi eg þó reynt að fylgjast með þessari umræðu. Um hitt er mjer kunnugt, að Þjóðkirkjan var skömmuð fyrir það af hálfu ýmissa sjertrúarhópa að leggja þessa kynhneigð að jöfnu á við gagnkynhneigð, þegar Synodan samþykkti það í Borgarnesi á 9. áratug síðustu aldar, „að skora á alla menn jafnt samkynhneigða sem gagnkynhneigða að sýna ábyrgð í kynlífi“. Hvatinn að samþykktinni var eyðnin, sem þá var einkum talin ógna samkynhneigðum. Með samþykktinni var kirkjan talin veita „öðruvísi“ kynlífi viðurkenningu. Eg talaði fyrir þessari samþykkt á sínum tíma og man ekki til þess að hart væri talað gegn henni annars staðar en hjá sumum sjertrúarhópum, sem voru einir um framangreinda túlkun. Eg fagnaði líka þeirri rjettarbót, sem felst í lögunum um staðfesta samvist og var ekki einn presta um það. Engan man eg, er í móti mælti. Engan prest hefi eg heyrt veitast að heimilum og fjölskyldum samkynhneigðra, allra sízt biskupinn. Hitt kannast eg við , að vörn okkar fyrir sjerstakri stöðu hjúskapar karls og konu sje afflutt. Það virðist mjer prófessorinn gjöra hjer, hafi hann yfirhöfuð eitthvað fyrir sjer í ofangreindri fullyrðingu annað en andúðina gegn kirkjunni, sem hvarvetna lýsir af málflutningi hans. Hún kemur ljóst fram í því að kalla það trúboð í skólum, þegar kirkjan tók upp vinaleiðina, til að koma ungmennum til liðs í skólunum og vinna gegn einsemd, einelti, freistingum skaðnautna og öðru því, sem íþyngir og skaðar fólk á viðkvæmu þroskaskeiði.

Málflutningur prófessors Baldurs Þórhallssonar í grein sinni um trúboð og skólastarf er ósæmilegur þeirri akademiu, sem hann þjónar. Sjálfum er hann honum til minnkunar. Loks er hann allri alþýðu manna til áminningar um að bera ekki ljúgvitni gegn náunganum.

Reykholti á Maríumessu á Aðventu 2007.

Höfundur er sóknarprestur."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Gott hjá þér að birta þetta! Gleðilegt ár kæri Predikari ! Og takk fyrir stormasöm viðkynni á árinu!  ;) Sem voru afar skemmtileg!

Guðsteinn Haukur Barkarson, 31.12.2007 kl. 01:23

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þökk fyrir, sömuleiðis Guðsteinn Haukur. 

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 31.12.2007 kl. 04:27

3 Smámynd: Linda

Sæll vertu og blessaður, Guð gefi þér og þínu gæfuríkt og hamingjusamt nýtt ár. 

Knús og frábært af þér að birta þessa grein.

Linda, 6.1.2008 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband