DAVÍÐ ODDSSON Í VIÐTALI VIÐ AGNESI BRAGADÓTTUR : ÆTLA AÐ DÆMA ÞJÓÐINA TIL ÆVARANDI FÁTÆKTAR

Predikarinn birtir hér viðtal ofurblaðamannsins Agnesar Bragadóttur við skörunginn Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra og Seðlabankastjóra.
 
Agnes BragadóttirSunnudaginn 5. júlí, 2009 - Innlendar fréttir

Ætla að dæma þjóðina til ævarandi fátæktar

* Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri er ómyrkur í máli í garð íslenskra stjórnvalda vegna samninga um Icesave * Hann segir að Íslendingar séu að lögum ekki skuldbundnir til að greiða mörg hundruð milljarða vegna Icesave * Þetta sé lagalegt deilumál.

 
 

  

Eftir Agnesi Bragadóttur

agnes@mbl.is

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, telur að samningurinn sem samninganefnd ríkisins hefur gert við Breta og Hollendinga um skuldbindingar ríkissjóðs vegna Icesave séu hryllilegustu mistök sem gerð hafi verið allt frá árinu 1262. Hann segir að staðfesting Alþingis á ríkisábyrgðinni, sem ríkisstjórnin og fjármálaráðherra leita nú eftir myndi dæma þjóðina til ævarandi fátæktar. Davíð féllst á að veita Morgunblaðinu viðtal um Icesave-samningana, þátt Landsbankans, Seðlabankans og stjórnvalda. Blaðamaður hitti Davíð á heimili hans í fyrradag.

– Nú hafa stjórnvöld gert samning við Breta og Hollendinga um greiðslur ríkissjóðs vegna Icesave. Samningurinn og ríkisábyrgð vegna hans er nú til umfjöllunar á Alþingi. Hvernig horfir þetta við þér, Davíð? Á Alþingi að staðfesta þann samning sem gerður hefur verið? Davíð Oddsson seðlabankastjóri

„Mér finnst að menn séu komnir langt fram úr sér, þegar þeir eru að velta því fyrir sér hvort samningurinn um Icesave er slæmur eða góður.

Menn verða að hafa önnur atriði fyrst í huga, eins og það hvaða fyrirbæri þessi Icesave-samningur svonefndi er. Það byggist allt á því að einkalánastofnun, Landsbankinn, stofnaði til innlánsreikninga, fyrst í Bretlandi, svo í Hollandi, án þess að leita nokkurrar ábyrgðar frá ríkinu. Þeir byrjuðu smátt og í upphafi jukust innstæðurnar á þessum reikningum hægt, en síðar jókst vaxtarhraðinn mjög. Það er ákveðinn hópur manna sem stendur í þeirri trú, að þetta einkafyrirtæki, Landsbankinn, hafi getað safnað milljónum punda, hundruðum milljóna punda, eða hvaða upphæð sem menn kærðu sig um, þar sem ábyrgðin væri öll á íslenskum skattborgurum, án þess að þeir hefðu hugmynd um þann ofurþunga sem var að leggjast á þeirra herðar.

Þetta fær auðvitað ekki staðist og ég lét stjórnendur Landsbankans margoft vita af því sjónarmiði Seðlabankans að það væri engin ríkisábyrgð á þessum innlánum.“

Eiga ekki við um bankahrun

– En hvers vegna fær það ekki staðist, að um ríkisábyrgð sé að ræða?

„Framhjá því hefur með öllu verið horft, hvernig þessi innlánstryggingasjóður sem menn vilja nú láta íslenska ríkið bera ábyrgð á, er til kominn. Hann er þannig til kominn að samkvæmt Evrópureglum sem við erum bundin af, gegnum Evrópska efnahagssvæðið (EES) þá er ákveðið að í kringum bankakerfið skuli koma á tilteknum tryggingasjóði sem er tryggingasjóður viðkomandi bankakerfis, jafnvel þótt lagaramminn sé settur af viðkomandi ríki hverju sinni. Hvergi er það sagt að ríkið hafi neitt með þann sjóð að gera. Hugsunin er sú og er í sjálfu sér alls ekkert galin, að bankarnir í viðkomandi landi borgi tiltekna prósentu af innlánum inn í sjóð, sem eigi síðan að mæta því ef einhver bankinn lendir í vandræðum.

Augljóst er að svona kerfi er hugsað fyrir lönd þar sem bankar eru hundrað, tvöhundruð talsins, eða þaðan af fleiri, enda gengur hugsunin upp gagnvart slíkum löndum. Þegar slíkur fjöldi banka greiðir reglubundið af innstæðum sínum í tryggingasjóði, þá er staða sjóðsins slík, að hann getur hæglega mætt því þótt tveir til fimm, sex bankar fari á hausinn.

En þegar bara þrír bankar eru í landinu, fyrir utan örfáar smærri fjármálastofnanir, eins og háttar til hér á landi, þá sér hver maður í hendi sér að tryggingasjóður sem þeir eiga að byggja upp til þess að verjast á erfiðleikatímum, er mjög veikur og getur engan veginn staðið undir allsherjar bankahruni eins og hér varð.

Þegar svo kemur í ljós að þessar Evrópureglur eigi ekki við um Ísland í rauninni eða gangi að minnsta kosti alls ekki upp þar, þá koma menn með þá eftiráskýringu, að fyrst reglurnar af hálfu Evrópusambandsins hafi verið svona gallaðar, þá hljóti að vera ríkisábyrgð á öllu saman. Þetta er forsenda sem menn gefa sér og á hvergi stoð í lögum.

Enginn lögfræðingur, sem er ekki hagsmunagæslulögfræðingur í einhverjum skilningi, hefur komist að þeirri niðurstöðu að svona geti þetta verið.“

Ekki skuldbundin að lögum

– En er ekki sameiginlegur skilningur á því hjá Evrópuríkjunum og svo þeim sem samið hafa um Icesave fyrir okkar hönd, að ríkisábyrgð sé á Icesave eins og öðrum innlánum íslensku bankanna?

„Evrópuríkin hafa raunar hvergi sagt að við séum að lögum skuldbundin til þess að borga þetta. Evrópuríkin segja og það var það sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir keypti, eins sérkennilegt og það nú var: Ef það kemur í ljós að kerfið virkar ekki einhvers staðar, þá getur það haft gríðarleg áhrif okkur til vandræða annars staðar, því það dregur úr trúnaði á kerfið. Það sem þeir voru í raun að segja var að þeir vildu ekki horfa á lagalegar reglur og umhverfi, af því það hentaði þeim ekki.

Þennan málflutning keypti Ingibjörg Sólrún þegar hún var utanríkisráðherra og fundaði með einhverjum evrópusambandsmönnum

og hún sagði eftir þann fund að þetta væri ekki lagalegt spursmál, heldur pólitískt. Það taldi ég alltaf og tel furðulegt, því það var þeirra sjónarmið og hagur, ekki okkar sem réð þessari afstöðu þáverandi formanns Samfylkingarinnar.

Við hljótum alltaf að velta því fyrir okkur hvort við erum skuldbundin að lögum til að greiða annarra manna skuldir. Vitanlega eru það lögin sem eiga skera úr um það með hvaða hætti eigi að skera úr um ágreining á milli þjóða.“

Davíð finnst það sæta nokkurri furðu að sérstök skýrsla, sem íslensk stjórnvöld hafi undir höndum, um tryggingamál og innstæðutryggingasjóði, sem hafi verið unnin af evrópskri nefnd á vegum OECD undir stjórn núverandi seðlabankastjóra Seðlabanka Evrópu, hafi ekki verið gerð opinber.

„Þessi nefnd á vegum OECD, sem Jean-Claude Trichet, sem nú er orðinn seðlabankastjóri Seðlabanka Evrópu stýrði, segir í skýrslu sinni að innstæðutryggingakerfið gildi ekki ef um algjört bankahrun er að ræða í viðkomandi landi. Ég veit til þess að íslensk stjórnvöld hafa þessa skýrslu og mér finnst með ólíkindum að þetta skuli ekki hafa verið birt og þetta notað efnislega í þeim viðræðum sem átt hafa sér stað undanfarna mánuði. Vitanlega er þetta atriði sem skiptir mjög miklu máli.

Það sem er alvarlegast í þessu máli, af hálfu viðræðunefndarinnar íslensku og ríkisstjórnarinnar, er að Íslendingarnir skuli hafa byrjað á því að segja við hina erlendu viðsemjendur sína: Við ætlum að líta þannig á, að við séum skuldbundin til að borga. Skuldbundin þýðir það að við séum að fara að lögum. En um leið og menn segja þetta, þá er þeirra samningsstaða náttúrlega farin veg allrar veraldar.

Segjum nú svo að Íslendingar vildu vera góðir við Evrópusambandið, eins og Ingibjörg Sólrún og Jóhanna, þó það kosti þjóðina mikið, þá ættum við að nálgast viðfangsefnið með því að segja: Það er bersýnilega uppi lagalegur ágreiningur og allar líkur sem standa til þess að við séum ekki skuldbundin til þess að borga. En við viljum samt leggja okkar af mörkum til þess að stuðla að stöðugleika í bankaumhverfi evrópskra banka og þess vegna erum við reiðubúin að ganga til viðræðna við ykkur, þótt okkur beri engin skylda til þess.

En um leið og við segjum, eins og sagt hefur verið, að þetta séu skuldbindingar okkar, sem við ætlum að standa við, þá erum við búin að eyðileggja samningsstöðu okkar. Þetta er staðreynd, eins dapurlegt og það nú er.“

Þarf enga ríkisábyrgð

Davíð spyr hvort menn hafi ekki velt því fyrir sér hvaða ástæður eru fyrir því að ríkisstjórnin leggur nú ofurkapp á það að fá Alþingi til þess að samþykkja ríkisábyrgð á skuldbindingum vegna Icesave-samningsins.

„Ef ríkið er skuldbundið að lögum til þess að greiða þessar upphæðir, hverjar sem þær svo verða að lokum, til Breta og Hollendinga, þá þarf enga ríkisábyrgð, svo einfalt er það. Það að sækjast eftir ríkisábyrgð að kröfum Breta og Hollendinga, sannar svo ekki verður um villst að þessir aðilar trúa því ekki að nokkur hlutlaus dómstóll myndi dæma okkur í óhag.“

– Nú liggur ekkert fyrir um það enn hversu mikið af Icesave-skuldbindingunum kemur til með að falla á ríkissjóð. Það ræðst af því hversu mikið af útistandandi kröfum Landsbankans erlendis innheimtist, ekki satt?

„Allt er þetta mjög miklum vafa undirorpið, svo ekki sé meira sagt. Það er mjög breitt bil sem rætt er um, þegar talað er um hversu mikið af útistandandi kröfum Landsbankans erlendis muni innheimtast. Þar er rætt um allt frá 40% og upp í 95% sem muni innheimtast.

Spursmálið er þetta: Ef Bretar og Hollendingar tryðu því að 95% af útistandandi kröfum Landsbankans mundu innheimtast, hvernig stendur þá á því, að þeir heimta að það sé líka ríkisábyrgð á þeim útistandandi fjármunum sem eiga að skila sér? Sú krafa sýnir nú að þeir hafa ekki mikla trú á innheimtunni.

Það geta líka komið upp lagaflækjur, sem verður ekki svo auðvelt að greiða úr. Það er ekkert útilokað að kröfuhafar sem eiga aðrar kröfur en innstæðukröfur reyni að fá því hnekkt fyrir dómstólum að innstæðukröfur séu teknar fram fyrir aðrar kröfur.

Það er ekkert hægt að segja um það nú, hvort slíkt mál myndi tapast fyrir dómstólum. Þess vegna er það stórundarlegt og reyndar stórhættulegt að enginn fyrirvari sé í samningnum hvað þetta varðar. Það liggur í augum uppi, að fyrirvari ætti að vera í samningnum, í þá veru að ef slíkt dómsmál tapaðist af hálfu ríkisins, að þar með félli ríkisábyrgðin úr gildi.“

Varnarþing er hér á Íslandi

– Hvaða dómstóll gæti mögulega fjallað um ágreiningsefni okkar við Breta og Hollendinga, ef Alþingi hafnar Icesave-samningnum?

„Við þurfum ekkert að velta því fyrir okkur. Varnarþingið er hér á Íslandi. Þeir sem vilja rukka okkur, þeir leita til dómstóls hér á landi. Íslenskur dómstóll hefur ekki sýnt sig í því að vera einhver heimadómstóll. Hann bara dæmir að réttum lögum.“

Davíð segir að það hafi legið fyrir af hálfu breskra og bandarískra lögfræðiskrifstofa fyrir áramót, að sérfræðingar þeirra hafi talið að Íslendingum bæri engin skylda til þess að greiða Icesave-innstæðurnar.

„En íslenska samninganefndin og fjármálaráðuneytið töldu að það væri of dýrt að ráða slíka alþjóðlega sérfræðinga, breska og bandaríska, sér til fulltingis! Of dýrt! Þegar þessir sömu menn voru að skuldbinda Ísland til þess að greiða kannski á milli 500 og 1.000 milljarða króna, sem jafngildir því að dæma íslensku þjóðina til eilífrar fátæktar. Að fá slíka alþjóðlega lögfræðilega aðstoð, hefði kostað okkur smápeninga, miðað við það sem þessi skelfing getur kostað okkur.“

Það verður að birta skjöl

– En nú hefur því verið haldið fram að ríkisstjórnin komist hvorki lönd né strönd, ef ekki verður staðið við Icesave-skuldbindingarnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni hætta við fyrirgreiðslu við okkur og endurreisn efnahagslífsins geti ekki hafist, eins og fjármálaráðherra hefur orðað það. Hvað segir þú við slíkum röksemdum?

„Það er auðvitað með miklum ólíkindum að halda því fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni ekki veita okkur fyrirgreiðslu nema við klárum samninga við Breta og Hollendinga um Icesave.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á að sjá til þess, þegar hann veitir fyrirgreiðslu, að ríkið drekki sér ekki í skuldafeni. Það eru til skjöl sem sýna að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telja kröfur Breta, Hollendinga og Þjóðverja og misbeitingu þeirra innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að tengja saman aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Íslendinga og einkakröfur þessara aðila umfram lagaskyldur, einhverja mestu niðurlægingu, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur orðið fyrir. Þessi skjöl verður að birta.“

– Hefur þú séð þessi skjöl?

„Ég veit að þessi skjöl eru til. Þau eru til í íslenska stjórnkerfinu. Þau þarf að birta opinberlega, alveg eins og það þarf að birta skýrslu nefndarinnar sem Trichet var formaður fyrir. Henni var komið til skila í utanríkisráðuneytið fyrir mörgum mánuðum og hún er sennilega til víðar í stjórnkerfinu. Hún er meiriháttar gagn í þessu máli, sem styður málstað okkar tvímælalaust og ég botna ekkert í því að hún skuli ekki hafa verið gerð opinber fyrir löngu.

Það eru líka til gögn sem ég tel að ætti að birta, þar sem kemur fram að Englandsbanki (Bank of England) taldi ekki að Íslendingar ættu að greiða fyrir Icesave, vegna þess að í þeim viðskiptum hafi menn verið að taka eigin áhættu og Englandsbanki gerði sér grein fyrir því að engin ríkisábyrgð væri að baki þessum innstæðum.

Landsbankinn var búinn að fullyrða við okkur í Seðlabankanum í marsmánuði 2008 að hann væri að koma Icesave í Bretlandi í dótturfélag, en því miður, Landsbankinn dró svo bara lappirnar og Fjármálaeftirlitið fylgdi því alls ekki nægjanlega vel eftir, að þetta yrði gert. Fulltrúar breska fjármálaráðuneytisins sem hingað komu eftir þetta, gerðu sér fulla grein fyrir því að það væri ekki íslensk ríkisábyrgð á innstæðum Landsbankans í Bretlandi. Það má glöggt lesa út úr fundargerðum sem ætti að birta.“

– Davíð, þú ert í raun og veru að segja, að ríkisstjórnin sé að reyna að fá Alþingi til þess að skuldbinda þjóðina til að lofa jafnvel að greiða 500 til 1.000 milljarða króna vegna Icesave, án þess að okkur beri nokkur lagaleg skylda til þess. Er þetta ekki réttur skilningur?

„Það er verið að lýsa því yfir, án nokkurrar heimildar og Jóhanna Sigurðardóttir gerði það m.a. á Austurvelli í gær, eins sorglegt og það nú er, að við séum skuldbundin vegna Icesave-reikninganna. Ef eitthvað er til í því að við séum skuldbundin, þá er bara ein ástæða fyrir því, en það eru yfirlýsingar ráðherra eins og þeirra Jóhönnu og Steingríms í þá veru að við séum skuldbundin til að borga og þau eru búin að samþykkja að við leitum ekki með ágreiningsefnið til dómstóla. Það er grundvallarregla þegar um ágreiningsefni er að ræða, að geta leitað úrskurðar dómstóla, regla sem enginn maður ætti nokkurn tíma að semja frá sér.“

Óviðráðanlegar skuldir

– Ef samningum verður hafnað í atkvæðagreiðslu á Alþingi og þar af leiðandi ríkisábyrgð, hvað á þá að gera, að þínu mati?

„Nú er staðan þessi að það hefur ekki verið gefið upp hverjar heildarskuldir þjóðfélagsins eru, en þær eru nú orðnar það háar að meðtöldum Icesave-skuldbindingunum, að þær eru orðnar hærri heldur en ágiskanir voru um, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýsti yfir á sínum tíma að væru „unsustainable“ eða óviðráðanlegar fyrir Ísland.

Þegar því er haldið fram að það muni hafa neikvæð áhrif á okkar lánskjör, ef við hlöðum ekki á okkur Icesave-skuldum, þá er það heilaspuni. Þegar því er haldið fram að norrænu þjóðirnar muni ekki veita okkur lán nema við borgum Icesave-skuldbindingarnar þá er það ekki rétt, nema hvað varðar Svía.

Svíar hafa gengið fram í þessum málum með algjörlega forkastanlegum hætti. Þeir hafa algjörlega tekið afstöðu með Evrópusambandsþjóðunum, Bretum, Hollendingum og Þjóðverjum, gegn Íslendingum og hagsmunum þeirra. Norðmenn og Danir hafa óviljugir gengið með. Ef almenningur í Noregi og Danmörku vissi að það er verið að misnota svokallaða vináttu okkar með þeim hætti að skuldbinda okkur til þess að taka á okkur skuldabyrðar sem við getum alls ekki risið undir, gegn því að fá lán frá þessum löndum, þá yrði mjög mikil reiði almennings í þessum löndum í garð eigin stjórnvalda og að sama skapi samúð með okkur. Nú er reyndar komið fram í fréttum, að Norðmenn segja að þeir sem haldi því fram að lánveitingar Norðmanna til Íslendinga séu tengdar lausn á Icesave-deilunni, fari með ósannindi.

Svo eru einhverjir kjánar hér að segja að við eigum endilega að reyna að komast inn í Evrópusambandið á meðan Svíar eru þar í forsvari. Svíar hafa reynst okkur fjandsamlegastir af öllum í þessu Icesave-máli, þannig að með miklum ólíkindum er og ég held að við ættum að sækja sem minnst til þeirra.“

Afstaða til Icesave ljós

– En nú skrifaðir þú sem seðlabankastjóri undir samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ásamt Árna Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, þar sem Icesave var nefnt, ekki satt?

„Það er alveg rétt. Þegar samningur er gerður fyrir hönd ríkis við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá kemur það annars vegar í hlut fjármálaráðherrans og hins vegar í hlut seðlabankastjórans að undirrita slíkan samning. Hlutverk seðlabankastjórans með slíkri undirritun hefur bara með það að gera að staðfesta að Seðlabankinn muni sinna þeim skyldum sem að Seðlabankanum snúa í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn samkvæmt samningnum. Hlutverk Seðlabankans hefur ekkert með það að gera að skuldbinda ríkið til að greiða peninga. Sá þáttur er algjörlega í höndum ríkisins, og að lokum Alþingis.

Afstaða mín til Icesave-samningsins liggur fyrir og kemur fram í bréfi sem ég ritaði þáverandi forsætisráðherra, Geir. H. Haarde og hún er óbreytt frá því það bréf var ritað.

Menn hafa notað misfagrar lýsingar til þess að lýsa Icesave-samningnum. Landráð er eitt þeirra orða. Landráð er afar stórt orð og kannski óþarfi að menn séu að nota slíkt orð. En það er grafalvarlegt að menn séu að semja um það, vitandi vits, að þjóðin megi ekki bera ætlaðar ofurskuldir undir dómstóla. Sérstaklega ef hún trúir því að hún beri ekki þessar skuldbindingar. Þetta eru ekki skuldbindingar íslenska ríkisins, þetta eru ekki skuldbindingar íslenskra borgara, þetta eru skuldir Landsbankans.

Ég sagði á fundi sem við í Seðlabankanum áttum með Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjórum Landsbankans, snemma árs 2008, þar sem þeir reifuðu þau sjónarmið Landsbankans að ríkið bæri ábyrgð á Icesave-skuldbindingum bankans: Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og þið eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn.

Á þessum fundi í Seðlabankanum var ítrekuð sú afstaða Seðlabankans að Landsbankinn gæti ekki safnað peningum endalaust erlendis og við þá söfnun skapaðist sjálfkrafa ríkisábyrgð á Íslandi, ríkisábyrgð sem ekki einn einasti alþingismaður hefði hugmynd um að verið væri að búa til.“

Þurfa að fara dómstólaleiðina

– Hver er okkar samningsstaða að þínu mati, ef Icesave-samningurinn verður felldur á Alþingi?

„Vandamálið hlýtur að vera þeirra, sem vilja sækja fjármuni til okkar. Þeir þurfa að sanna að þeir eigi heimtingu á þeim fjármunum, þeir þurfa að sanna að við séum skuldbundin. Ef Bretar og Hollendingar geta sýnt fram á það fyrir dómstólum, að við séum þeim skuldbundin, þá gera þeir það og sækja þar með sinn rétt. Það þarf enga ríkisábyrgð.“

Yfirlýsingar ráðherra skaða

– Gefur þú þá ekkert fyrir staðhæfingar um það Davíð, að við verðum eins konar Kúba norðursins, ef samningurinn verður felldur, enginn vilji lána okkur, enginn vilji eiga í viðskiptum við okkur, og svo framvegis? Flækir það ekki málin umtalsvert að íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt að við séum skuldbundin Bretum og Hollendingum?

„Yfirlýsingar ákveðinna ráðherra um að við séum skuldbundin hafa vitanlega stórskaðað málstað okkar, en eigum við að trúa því að þjóðir Evrópu muni ekki vilja fara að lögum í þessum efnum? Við segjum: Við viljum borga allar okkar skuldbindingar, en við viljum bara vita að þær séu okkar skuldbindingar.

Ég get ekki hugsað mér að vera þekktur fyrir að borga ekki mínar skuldbindingar. En ef maðurinn hér í næsta húsi skuldar eitthvað og krefst þess að ég greiði hans skuldir, þá get ég alls ekki hugsað mér að verða við þeirri kröfu hans. Ég færi með slíkar kröfur fyrir dóm.

Þetta er ótrúlegt klúður sem stjórnvöld hafa komið landinu í og við gætum stefnt hér hraðbyri inn í einhverja eilífðar fátækt.“

Hryllilegustu mistök frá 1262

Davíð spyr hvernig stjórnvöld ætli að bregðast við að sjö árum liðnum. „Ef það er meiningin að gera okkur að eilífðar fátæklingum og stappa svo í okkur stálinu á sama tíma og reyna að telja kjark í fólk, með því að segja að við þurfum ekki að borga neitt af Icesave-skuldbindingum næstu sjö árin, þá er það auðvitað engin huggun harmi gegn.

Tökum dæmi: Strax um mánaðamótin janúar febrúar var tilkynnt um að hér yrði að skera niður ríkisútgjöld um 20 milljarða króna á þessu ári. Jóhanna og Steingrímur sátu svo í tæplega hálft ár og tilkynntu svo aftur að það þyrfti að skera niður um 20 milljarða króna. Vitanlega skáru þau lítið sem ekkert niður, heldur réðust í skattahækkanir, sem vitanlega hækkar skuldir allra, hækkar vísitöluna og er okkur mjög dýrt.

Þessir tuttugu milljarðar króna, sem hefur tekið allan þennan tíma að ákveða hvernig verður aflað, eru bara helmingurinn af vöxtunum sem hlaðast upp á einu ári vegna Icesave-skuldbindinganna.

Þetta eru einhver hryllilegustu mistök í samningsgerð sem hafa verið gerð frá því árið 1262. Ég ætla ekki að nota orðið landráð.“

Fengu aldrei grænan eyri

Davíð vitnaði í bókina Forsætisráðherrar Íslands, þar sem Sigurður Líndal prófessor ritar kaflann um Jón Magnússon, sem sumir sögðu að hefði ekki verið mikill skörungur:

„Sveinn Björnsson segir frá viðræðum Jóns Magnússonar í Kaupmannahöfn við sendiherra Svía um ullarmálið... Fóru þær vinsamlega fram. Allt í einu stendur Jón Magnússon upp, slær í borðið og segir: „Það þýðir ekki að halda þessum viðræðum áfram. Íslenzka stjórnin hefur ekki skyldur til að greiða ullareigendum neitt. Á meðan ég er í stjórninni skal ég sjá um að þeir fái aldrei grænan eyri.“

Þetta kom sýnilega flatt upp á sendiherrann og viðræðunum lauk rétt á eftir. Svíar fengu aldrei eyri samkvæmt úrskurði gerðardóms sem skipaður var til að leysa úr deilunni.“

Davíð segir: „Þarna héldu menn öðru vísi á málum, heldur en nú er gert í Icesave-málum. Það væri nú munur ef einhver töggur væri í íslenskum stjórnvöldum.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband