SKYLDULESNING :
Guðni Elísson :
Í heimi getgátunnar
Kærur Vantrúar, glæra 33 og Egill Helgason
Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kennarinn hafi á neinn hátt gerst brotlegur
við siðareglur HÍ. Fyrir liggja yfirlýsingar frá sjö nemendum er sátu námskeið
Bjarna um nýtrúarhreyfingar og segja þau öll kennsluna hafa verið til fyrirmyndar,
hvergi hafi verið hallað á Vantrú eða aðrar trúleysishreyfingar. Þessar yfirlýsingar
eru studdar af greinargerðum tíu sérfræðinga í túlkunarvísindum sem allir lýsa því
yfir að ekkert sé út á kennsluglærur Bjarna Randvers að setja. [
] Síðast en ekki síst
fóru svo fjörutíu háskólakennarar yfir þau málsgögn sem lágu fyrir og komust að
þeirri niðurstöðu að Bjarni hefði ekki á neinn hátt gerst brotlegur við siðareglur og
að ekkert tilefni væri til að gagnrýna kennslugögn hans í námskeiðinu.
Úr yfirlýsingu sem 109 akademískir starfsmenn við íslenska háskóla
skrifuðu undir og birt var í íslenskum fjölmiðlum 13. desember 2011.1
Það virðast allir fallast á að glærurnar séu í hæsta máta vafasamar.
Egill Helgason, 27. desember 2011, kl. 10.33.2
Kæru félagar. Klukkan 15:00 í dag lýstum við yfir heilögu stríði á hendur
Bjarna Randveri og Guðfræði í Háskóla Íslands. Okkur ber skylda til að verja
heiður okkar þegar á hann er ráðist af svo voldugum andstæðingi að ósekju.
Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum
þar til fullur sigur er unninn. Á þennan veg hljómaði umtöluð yfirlýsing
Reynis Harðarsonar sálfræðings og formanns Vantrúar frá 12. febrúar
2010 á umræðuvef félagsmanna, en með henni blæs hann í lúðra fyrir þann
mikla greinaflokk sem félagið átti eftir að birta næstu daga og vikur gegn
stundakennaranum Bjarna Randveri Sigurvinssyni og Guðfræði- og trúarbragðafræðideild
Háskóla Íslands.3
Viku fyrr hafði félagið lagt fram þrjár kærur vegna kennslu Bjarna
Randvers í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem kennt var haustið 2009, en
Reynir Harðarson lýsir ferð sinni með kærurnar upp í Háskóla Íslands svo
í skeyti til félaga sinna: Þremur sprengjum varpað
ósprungnar.4 Ein
var afhent á skrifstofu Kristínar Ingólfsdóttur rektors HÍ, aðra fékk Pétur
Pétursson deildarforseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, en sú þriðja
fór inn á borð Amalíu Skúladóttur ritara Siðanefndar HÍ. Reynir upplýsti í
engu tilvikanna um tilvist hinna kæranna.
Deildarforseti afgreiddi kæruna 9. mars 2010 með traustsyfirlýsingu til
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 5
handa Bjarna Randveri og vantrúarfélagar drógu kæru sína til Siðanefndar
til baka rúmu ári síðar, 28. apríl 2011. Siðanefnd hafði þá sætt harðri gagnrýni
úr háskólasamfélaginu fyrir málsmeðferðina og þess var krafist að ný
yrði skipuð í staðinn en á það vildu vantrúarfélagar ekki fallast. Síðustu
kærunni var svarað með yfirlýsingu frá Kristínu Ingólfsdóttur rektor 15.
febrúar 2012, þegar hún sendi öllum starfsmönnum háskólans tilkynningu
um að ekkert hafi komið fram í meðferð málsins sem bendir til þess að
viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi.5 Fjórða kæran, sem
var lögreglukæra á hendur Bjarna Randveri, var send til lögreglustjórans á
höfuðborgarsvæðinu 27. maí 2011 og var Bjarni m.a. kallaður í yfirheyrslur
í tengslum við hana. Lögreglustjórinn felldi hana niður 26. júlí 2012, en
rúmum mánuði áður, 18. júní 2012,6 lögðu vantrúarfélagar fram fimmtu
kæruna, í þetta sinn aftur til Siðanefndar HÍ en þar var um sömu kæru að
ræða og dregin hafði verið til baka 28. apríl 2011. Þeirri kæru var vísað frá
4. október 2012 á þeim forsendum að hún væri tilefnislaus. Í úrskurðinum
segir: Þegar allt framangreint er virt er það mat Siðanefndar að umfjöllun
Bjarna Randvers Sigurvinssonar um trúlausa og félagið Vantrú í námskeiðinu
Nýtrúarhreyfingar hafi samrýmst viðurkenndum kennsluaðferðum,
verið innan ramma lýsingar á viðfangsefnum, efnistökum og markmiðum
námskeiðsins og hvorki falið í sér áróður né skrumskælingu.7 Tekið er fram
að í frávísunardómi Siðanefndar felist endanleg niðurstaða þótt vissulega
gæti félagið tekið upp á því að kæra Bjarna Randver í sjötta sinn, eða einhverja
tengda honum.8
Meðhöndlun kærunnar innan háskólans og áróðursspuni Vantrúar í fjölmiðlum
vormánuði 2010 voru alvarleg atlaga að sjálfstæði íslenskra háskóla,
þar sem akademískum vinnubrögðum var ýtt til hliðar í nafni blindrar
sannfæringar, í nafni fullyrðingagleði sem átti rætur í getgátum og vissu sem
varð ekki hrakin með rökum. Það vekur óneitanlega forvitni að forsvarsmönnum
Vantrúar hafi ekki einu sinni þótt ástæða til að endurskoða efni
nýju kærunnar í ljósi skýringa Bjarna Randvers og nemenda hans. Félagið
brást t.d. á engan hátt við 197 síðna skýrslu Bjarna, Svari við kæru Vantrúar,
sem lögð var fram í maí 2010, og tók ekkert mark á greinargerðum sjö
nemenda úr námskeiðinu, en sérhver þeirra lýsti því yfir að kennsluhættirnir
hefðu verið í alla staði eðlilegir.
Hvaða tilgangi þjónar þessi glæra?
Við fyrstu sýn gætu einhverjir lesendur hugsanlega ætlað að ýmislegt væri
til í kæru vantrúarfélaga til Siðanefndar HÍ. Kæran er alls 17 síður (tveggja
síðna kærubréf og fimmtán síðna viðauki) og henni fylgja 74 af 174 glærum
Bjarna Randvers úr glærusettinu Frjálslynda fjölskyldan. Í kærubréfinu
er því haldið fram að efnisval og efnistök Bjarna Randvers [séu] siðlaus.
Fullyrt er, án þess að færð séu fyrir því rök, að hann hafi slík tengsl við
Guðni E l í s son
6 TMM 2012 · 4
Þjóðkirkjuna að ætla [megi] að þau hafi litað málflutning hans í garð Vantrúar.
Vantrú frábiður sér afskræmingu á félagsskapnum og farið er fram
á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið í ljósi þeirra athugasemda sem
við komum hér á framfæri.9
Þó er kæran um margt hin undarlegasta þegar farið er að rýna í hana.
Bjarni Randver er t.a.m. kærður fyrir að birta uppi á tjaldi án athugasemda
þrjár síður úr frægu trúleysisriti prófessors Níelsar Dungals Blekkingu og
þekkingu (bls. 465, 500 og 501).10 Það stöðvar vantrúarfélaga þó ekki í því
að leggja fram kæru sem byggir á því sem Bjarni Randver kunni hugsanlega
að hafa sagt á meðan glærurnar þrjár birtust á tjaldinu: Þegar kemur að
prófessor Níels Dungal og bók hans Blekking og þekking þykir okkur sem
Bjarni Randver missi sjónar á aðalatriðum og umfjöllun hans og val á tilvísunum
einkennist frekar af andúð og áróðri en upplýsingu og fræðslu (3).
Þáttastjórnandinn Egill Helgason var einn þeirra sem tók undir sjónarmið
vantrúarfélaga og sagði að því yrði ekki neitað að glærur Bjarna væru ansi
hæpnar. Bjarni afgreiddi Níels Dungal með því að vísa í hrein aukaatriði
í bók hans [
] Helgi Hóseason [fái] sömu útreiðina, það er vísað í furðulegustu
kaflana í skrifum hans. Þetta virkar frekar lágkúrulegt bætir Egill
við, en færir ekki frekari rök fyrir skoðun sinni.11
Í huga vantrúarfélaga virðast nemendur Bjarna að sama skapi viljalausar
strengjabrúður sem beygja sig undir vilja læriföðurins er dælir eitri í allar
áttir. Ranghugmyndirnar rista æði djúpt og taka á sig sérkennilega mynd
þar sem mikið er gert úr valdi og ítökum Bjarna Randvers. Hann er voldugur
andstæðingur sem elur á misklíð og ýtir undir fordóma í garð trúleysis og
jafnvel í garð hinna ólíku nýtrúarhreyfinga sem hann tekur fyrir í námskeiðinu.
12 Síðastnefnda kenningin er ekki síst forvitnileg fyrir þær sakir
að þar er helsta hugmyndafræðingi og stefnumótanda Samráðsvettvangs
trúfélaga ætlað að eitra umræðuna um nýtrúarhreyfingar á bak við tjöldin.13
Um leið horfa kærendurnir framhjá jákvæðum vitnisburði nemenda úr
námskeiðinu sem sumir eru sjálfir trúleysingar. Þeir horfa framhjá greinargerðum
akademískra sérfræðinga sem lásu glærurnar vandlega, ekki síður
en svar Bjarna og kæruna sem það byggist á. Flestir þessara sérfræðinga
þekktu ekkert til Bjarna Randvers áður og líklega er rétt að taka fram í ljósi
ríkjandi tíðaranda að margir þeirra sem skrifuðu greinargerðirnar eru, rétt
eins og ég, yfirlýstir trúleysingjar. Vantrúarfélagar horfðu þó ekki aðeins
framhjá fræðilegum forsendum námskeiðsins. Síðast en ekki síst horfðu
þeir framhjá bréfi Bjarna til nemenda sinna um það hvernig á að nálgast
glærurnar og námsefnið allt, en bréfið var sent út tveimur mánuðum áður
en félagsskapurinn Vantrú leggur fram kæru sína.
Í bréfinu sem dagsett er 6. desember 2009 minnir Bjarni á ýmis grundvallar
atriði vegna prófundirbúnings og bendir á að alls ekki sé nóg að lesa
glærurnar; þær séu yfirborðskenndar í mörgum efnum og [nemendur fái]
verulega fyllri mynd af öllu með því að lesa þá bókakafla og þær greinar sem
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 7
eru [svo] að finna í fjölritaða lesheftinu.14 Bjarni leggur jafnframt áherslu á
mikilvægi þess að nálgast allt sem tengist fræðigreininni með bæði gagnrýnu
og hlutlægu hugarfari. Hann segir nemendur eiga að sýna sjálfstæði í
vinnubrögðum og láta hvorki kennarann né höfunda kennsluefnisins mata
sig og bætir við: Jafnvel þótt ég leitist við að vera hlutlægur í kennslunni eru
hvorki ég né höfundar lesefnisins hlutlausir því að félagslegur bakgrunnur
okkar, umhverfi og skoðanir setja óhjákvæmilega mark sitt á framsetningu
okkar og áherslur. Síðast en ekki síst leggur Bjarni áherslu á að nemendur
sýni viðfangsefninu virðingu:
Þó svo að nauðsynlegt sé að kunna skil á sögu viðkomandi trúarhreyfinga, starfsháttum
þeirra og trúfræði og þekkja þá gagnrýni sem þær hafa sætt þá getur það
allt saman virkað fáránlegt og óskiljanlegt fyrir þá sem ekki reyna að setja sig í spor
viðkomandi fólks og skoða heiminn út frá forsendum þess. Um er að ræða fólk af
holdi og blóði sem þarf í sínu félagslega samhengi að finna sér stað í tilverunni og
því sem því er dýrmætast. Þó svo að nauðsynlegt sé að kunna skil á gagnrýninni þarf
að gera sér grein fyrir því að það geta verið margar hliðar á hlutunum og áhersla á
gagnrýnina eina getur reynst villandi.
Þeir sem kjósa að byggja túlkanir sínar á höfundarætlan ættu að geta dregið
upp einfalda mynd af kennaranum Bjarna Randveri af þessu bréfi hans,
mynd sem byggð væri á raunverulegum gögnum. Bjarni hvetur nemendur
sína til þess að sýna sjálfstæði í hugsun og segir þá eiga að vera gagnrýna á
allt sem tengist fræðigreininni. Um leið minnir hann þá á mikilvægi þess að
þeir sýni viðfangsefni greiningarinnar skilning og virðingu, þótt það þýði að
sjálfsögðu ekki að varpa eigi fyrir róða gagnrýnum viðhorfum.
Annar og hættulegri Bjarni Randver birtist í umræðum vantrúarfélaga,
maður sem í mörg ár hefur markvisst eitrað umræðuna um Vantrú án
vitundar félagsmanna og byggir þekkingu sína á leynilegri gagnasöfnun
eins og núverandi formaður, Egill Óskarsson, lýsir því.15 Það er þessi
ímyndaði trúvarnarmaður sem stígur fram í kærunni, en hann er fyrst og
fremst settur saman af órökstuddum ályktunum. Í heimi getgátunnar er lítið
hægt að gera annað en að spyrja spurninga á meðan samhengi kennslunnar
vantar og ekki þarf að rýna lengi í sjálfa kæruna til þess að sjá að hún byggist
nær eingöngu á órökstuddum vangaveltum.
Hér eru nokkur dæmi um túlkunaróöryggið sem einkennir kæruna:
Innrammaður texti virðist fremur dreginn fram til að hæðast að höfundi en að
kynna málstað hans eða meginefni bókarinnar. [3] [
] Er þetta ekki háðugleg
útreið og skrumskæling frekar en einlæg viðleitni til að koma til skila meginboðskap
höfundar? [3] [
] Hvað ræður efnisvali Bjarna Randvers? Hvernig má útskýra
uppröðun glæranna? [4] [
] Hver er tilgangur svona uppsetningar? [4] [
] Er það
meginatriði, segir það eitthvað um málstað Dans eða má vera að þessu sé varpað
fram til þess eins að varpa rýrð á Dan Barker? [5] [
] Tilgangur Bjarna virðist
vera að sýna að vantrúarmenn sem lærisveina eða skósveina Richards Dawkins. [5]
[
] Er tilgangurinn að sýna fram á áhrif hugmyndafræðingsins á lærisveininn?
Guðni E l í s son
8 TMM 2012 · 4
[6] [
] Er hér ekki um vandlega valdar tilvitnanir að ræða oft af einkabloggum
manna og útúrsnúning fremur en sanngjarna umfjöllun um stefnu og aðferðafræði
Vantrúar? [9] [
] Hvað útskýrir útfellingar Bjarna Randvers? Eru þær líklegar til
að auka skilning eða andúð á manninum og málstað hans? Er þetta áróður eða
kennsla? [10] [
] Aftur hljótum við að spyrja hvort hér er um fræðslu að ræða eða
einstrengingslegan áróður. Hvaða tilgangi þjónar þessi glæra? Er hún málefnaleg eða
sanngjörn? Gefur hún rétta mynd af umfjöllunarefni guðfræðingsins? [11] [
] Það
sem strikað er undir með rauðu er þó greinilega aðalatriði í huga Bjarna. Eru þessar
yfir- og undirstrikanir til að merkja það mikilvægasta í textanum eða gefur það
fyrst og fremst til kynna hvað angrar guðfræðinginn? [13] [
] Er guðfræðingurinn
að koma þeirri hugmynd að nemendum sínum að vantrúarmenn haldi því fram að
trúarbrögð séu af hinu illa og að þeir einir hafi höndlað sannleikann? Ekki verður
annað séð. Er þetta fræðsla eða áróður? [13] [
] Við getum rétt gert okkur í hugarlund
hver svörin við þessum spurningum eru í huga Bjarna Randvers. [16] [
] Aftur
hryllir okkur við tilhugsuninni um hver svörin við þessum spurningum eru í huga
guðfræðingsins. [16]
Það kemur líklega almennum lesendum á óvart að niðurstaða Vantrúar um
kennsluhætti Bjarna Randvers skuli vera jafn ótvíræð og raun ber vitni.
Vafinn sem einkennir alla kæruliðina er með öllu horfinn undir lokin og
vissan ein ríkir:
Af þessum glærum að dæma er umfjöllun Bjarna um Vantrú því ekki einungis
ófagleg heldur er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að tilgangur hennar
sé beinlínis að rægja félagið og ala á fordómum í garð meðlima þess.
Við höfum oft furðað okkur á ranghugmyndum kirkjunnar manna um okkur í
Vantrú og málstað okkar (og eflaust er það gagnkvæmt) en lítil von er á nokkrum
breytingum í þeim efnum ef sú fræðsla sem upprennandi guðfræðingar / trúarbragðafræðingar
hljóta er í höndum Bjarna Randvers að óbreyttu. [16]
Ýmis önnur atriði kærunnar eru kostuleg eins og þegar kvartað er yfir því
að Bjarni Randver segi vantrúarfélaga sækja innblástur til þekktra hugmyndafræðinga
á sviði trúleysis, manna eins og Richards Dawkins, Daniels
C. Dennett, Christophers Hitchens, Sams Harris og Níelsar Dungals. Þessari
glæru er einfaldlega ætlað að bregða upp mynd af trúleysisorðræðu samtímans,
nefna einstaklinga sem vantrúarfélagar sæki innblástur og hugmyndir
til og eigi í óbeinni samræðu við. Félagsskapurinn virðist þó lítið
hrifinn af umræðu um áhrif og er Bjarni því kærður fyrir glæruna: Þessi
uppsetning dregur upp mynd af skósveinum eða lærisveinum einhverra
meistara, nokkuð sem fer oftar en ekki illa í sjálfstætt hugsandi menn (5).
Máli sínu til stuðnings um það hversu langt Bjarni Randver gangi í áhrifavillu
sinni vitna þeir í glæru þar sem Richard Dawkins og Óli Gneisti Sóleyjarson
lýsa því báðir yfir að þeir séu stoltir guðleysingjar. Að mati vantrúarfélaga
gefur Bjarni þar til kynna að Óli Gneisti hermi eftir Dawkins, en slíkt sé
rangt þar sem yfirlýsing Óla sé eldri en sú sem Dawkins sendi frá sér: Tilvitnunin
í Óla sett [svo] undir fyrirsögn sem gefur til kynna að hún sé undir
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 9
áhrifum frá Dawkins sem hún er ekki. Í ágúst 2006 var bókin God Delusion
ekki komin út. Er tilgangurinn að sýna fram á áhrif hugmyndafræðingsins
á lærisveininn? (6). Vantrúarfélagar minnast ekki á að Bjarni gefur upp
útgáfuár bókar Dawkins á glærunni (2007) og dagsetning fylgir tilvitnuninni
í Óla Gneista (2. ágúst 2006). Ályktun vantrúarfélaga um ætlan Bjarna er því
hreint út sagt fjarstæðukennd. Hið sama má reyndar segja um hugmyndir
félagsins um sjálfstætt hugsandi menn. Trúleysishugmyndir eru vitaskuld
rétt eins og aðrar skoðanir í samfélagsumræðunni mótaðar af sögulegum
kringumstæðum og ríkjandi orðræðu hvers tíma, eins og sést líklega best á
því að sjálft orðalagið hugsandi menn er sótt til Níelsar Dungals sem notar
það iðulega um trúleysingja í verki sínu Blekkingu og þekkingu.16
Með þessu móti mætti rekja sig í gegnum kæruliðina og hrekja þá hvern af
öðrum eða útskýra hvers vegna ályktanirnar eru rangar eða byggðar á misskilningi.
Í seinni hluta þessarar greinar verður sjónum þó fyrst og fremst
beint að þeirri glæru sem alvarlegust þykir. Sá vantrúarfélaga sem líklega
hefur beitt sér af mestri hörku í málinu, Matthías Ásgeirsson, segir að glæran
snúist um kjarna málsins17 og sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason tekur
undir þau sjónarmið, en dómur hans er þungur: Mér sýnist þó að steininn
taki úr í glærunni þar sem er fjallað um Richard Dawkins og fylgismenn
hans það má reyndar spyrja hverjir séu fylgismenn Dawkins, hann á milljónir
lesenda út um allan heim en hefur ekki stofnað neina hreyfingu eða
söfnuð um hugmyndir sínar svo ég viti.18
Glæra 33
Glæra 33 í 4. hluta Frjálslyndu fjölskyldunnar fær langmesta rýmið í
kæru Vantrúar en um hana er fjallað á síðum 13 til 16 af þeim 15 síðum
þar sem kæruatriðin eru rakin (317), en alls leggja vantrúarfélagar fram
74 glærur sem þeir gera athugasemdir við. Þar hverfa líka spurningarnar
og vangavelturnar. Sök Bjarna liggur skýr fyrir. Sá varnagli er einn sleginn
í upphafi að glæran eigi líklega að fjalla um Vantrú (13) í ljósi þess að
helmingur hennar er helgaður teikningum í blogggrein eftir framhaldsskólakennara
í Reykjavík, en [m]yndirnar eru líklega viðbrögð við heilagri
reiði múslima vegna skopmyndamálsins í Jyllandsposten og settar fram
til að styðja við tjáningarfrelsið (1314). Teikningarnar eru af Múhameð
spámanni (líklega). Á þeirri fyrstu er hann að kasta af sér vatni, á annarri
er hann teiknaður sem bleyjubarn og á þeirri þriðju liggur hann undir Jesú
í samfarastellingu (andlit þeirra sett inn á indverska teikningu) (13). Vantrúarfélagar
gera engar athugasemdir við myndbirtinguna, aðra en þá að
Bjarni gerist sekur um að notast við áróðursbragðið guilt by association
(14), myndirnar séu teknar sem dæmi um málflutning Vantrúar þótt maðurinn
tengist Vantrú ekki á nokkurn hátt.19
Í huga þeirra eru myndirnar líka aukaatriði, meginþungi gagnrýninnar
Guðni E l í s son
10 TMM 2012 · 4
beinist að niðurstöðu[m] og samantekt Bjarna á þessari glæru en hún segi
í raun allt sem segja þarf um afstöðu kennarans og guðfræðingsins til Vantrúar
(14). Hvernig hljóma svo þær fullyrðingar sem Bjarni Randver setur
fram á glærunni alræmdu og Egill Helgason birti og gagnrýndi svo harðlega
á síðu sinni?20
Megin vandinn við herskáan málflutning Dawkins og fylgismanna hans gegn þeim
trúarbrögðum sem þeir fyrirlíta er að hann er vatn á myllu haturshreyfinga sem
grafa undan allsherjarreglu samfélagsins og almennu siðferði með því að
smána hvaðeina sem er öðrum heilagt.
umbera ekki trúartjáningu á opinberum vettvangi.
skerða málfrelsi trúaðra.
andmæla almennum mannréttindum á borð við að foreldrar veiti börnum
sínum trúarlegt uppeldi og börn fái að tjá sig um trúarefni í skólum.
leggja í einelti m.a. með uppnefnum þá sem hafa önnur viðhorf.
fordæma minnihlutahópa á borð við gyðinga.
ástunda guðleysistrúboð í neikvæðri merkingu þess orðs.
Ekki aðeins vantrúarfélagar á borð við Valgarð Guðjónsson lýstu því yfir að
Bjarni Randver sakaði trúleysingja ítrekað um gyðingahatur í kennslu.21
Fjöldinn allur af einstaklingum, sem höfðu engar forsendur til að meta
fræðilegt samhengi glærunnar, tók undir áfellisdóminn með Agli, þótt
vissulega reyndu líka ýmsir að andmæla óábyrgum ummælum netverja,
m.a. nemendur Bjarna Randvers úr námskeiðinu. Erling Ingvason hélt því
fram að glæran jaðr[aði] við hatursáróður,22 og Sif Traustadóttir spurði
hvort þetta væri boðlegt sem kennsluefni í Háskóla Íslands? Arnþór Jón
Þorvarðsson sagði glæruna náttúrlega út í hött. Ekki einn punktur á henni
[standist] skoðun. Og Kjartan Valgarðsson sagði að það sem hér sé sýnt uppfylli
einfaldlega ekki akademískar kröfur.
Jafnvel akademískir starfsmenn við íslenskar háskólastofnanir hikuðu
ekki við að senda frá sér opinberar yfirlýsingar án þess að hafa kynnt sér
málið. Þuríður Jóhannsdóttir, lektor á menntunarvísindasviði við HÍ, segir
að ef maður hafi lært textarýni og [skilji] læsi í víðu samhengi eins og sagt
er í nýjum námskrám þá [sé] erfitt að verja svona lagað sem kennsluefni á
neinu skólastigi. Þuríður færir ekki frekari rök fyrir þessari skoðun sinni,
en yfirlýsing hennar er ekki síst alvarleg vegna þess að hún mælir í krafti
sérfræðiþekkingar, en án þess að hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni í
málinu og hafa orð hennar verið tekin upp af vantrúarfélögum og stuðningsmönnum
þeirra t.d. segir ummælandi sem kallar sig aðeins Ásgeir: Og
svo ég bæti einu við: Hvaða dylgjur eru þetta um menntun Vantrúarfólks og
að umfjöllun um glærurnar sýni að það hafi ekkert vit á háskólanámi? Vita
þau ekki að dósent (eða var það lektor?) við menntavísindasvið hefur sagt að
glærurnar séu drasl? Vita þau kannski betur en hún um eðli háskólanáms?23
Þessu er auðsvarað. Ólíkt þeim 109 akademísku starfsmönnum sem skrifuðu
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 11
undir stuðningsyfirlýsingu Bjarna Randvers hafði Þuríður engin gögn undir
höndum og því takmarkaðar forsendur til þess að tjá sig um málið.
Fæstum þeim sem veittust opinberlega að Bjarna Randveri virtist koma
til hugar að glærur námskeiðsins snúist ekki aðeins um að rekja staðreyndir,
heldur fjalli þær einnig um átakaþætti, hugmyndir og sjónarmið þeirra ýmsu
aðila sem viðfangsefnið varða. Glæra 33 er einfaldlega samantekt á algengum
skoðunum um harðlínutrúleysi sem eðlilegt er að ræða í námskeiði sem
snýst um nýtrúarhreyfingar.24
Námskeið í trúarlífsfélagsfræði eru eðli málsins samkvæmt átakamiðuð og
glærunum er ætlað að draga fram atriði sem tengjast þeim skilgreiningum
og flokkunarkerfum sem liggja til grundvallar í kennslunni. Í hæfniviðmiðum
námskeiðsins kemur fram að nemendur eigi að sýna ólíkum trúarskoðunum
umburðarlyndi og skilning, en þó ekki á kostnað gagnrýni, og
að nemendur eigi að þekkja og skilja helstu ágreiningsefni í tengslum við
nýtrúarhreyfingar jafnt erlendis sem á Íslandi, einkum á opinberum vettvangi
í gegnum fjölmiðla.25 Í slíku námskeiði hlýtur þekkingin öðrum
þræði að liggja í því að geta rætt sannleiksgildi ákveðinna ágreiningsefna
eins og þau birtast í fjölmiðlum, og ekki síður að geta vegið og metið hvort
það geti stafað hætta af einstökum umdeildum nýtrúarhreyfingum eins og
það er orðað í hæfniviðmiðunum.
Allar þær fullyrðingar sem Bjarni birtir á glærunni alræmdu eru vel
þekktar í trúarumræðunni og margar umdeildar. Stundum er reynt að færa
fyrir þeim málefnaleg rök, stundum eru á ferðinni órökstuddar ásakanir
sem einungis er ætlað að særa og þagga niður í andstæðingnum. Nemendur
áttu að taka fullyrðingarnar til greiningar, en Bjarni Randver lýsir
sjálfur fræðilegu samhengi glærunnar sem svo á spjallþræðinum aftan við
athugasemd Egils Helgasonar að þar séu:
dregin fram meginatriði í gagnrýni hörðustu andstæðinga svonefnds herskás guðleysis,
gagnrýni þeirra á þær vantrúarhreyfingar sem vilja sníða trú, trúarstofnunum
og trúarbrögðum sem þrengstan stakk á opinberum vettvangi og jafnvel ganga milli
bols og höfuðs á öllu slíku. Hörðustu gagnrýnendur róttækra guðleysishreyfinga
koma úr ýmsum áttum. [
] Þeir geta verið fundamentalistar úr hvaða trúarbrögðum
sem er eða frjálslyndir einstaklingar sem óháð trúarafstöðu vilja stuðla
að samræðu milli ólíkra trúarbragða og lífsviðhorfa. Þau sögulegu dæmi úr ýmsum
áttum, sem tilgreind eru með punktunum, eru sett fram til að vekja nemendur til
umhugsunar og fá þá til að bregðast við með gagnrýnum hætti. Af orðum þínum,
Egill, og ýmissa annarra má ætla að ég megi ekki í kennslu minni draga fram gagnrýni
einstaklinga og hópa á róttækar guðleysishreyfingar í háskólakennslu og að
sama skapi virðist þið ætla að gagnrýnin birti persónulega afstöðu mína til guðleysis
sem ég haldi fram í kennslustund. Hvergi hefur komið fram að nemendur mínir hafi
skilið umrædda glæru sem einhverja boðun af minni hálfu þegar ég tók þetta fyrir
heldur þvert á móti. Þeir áttu að gagnrýna þessi atriði. Þess má auk þess geta að þetta
var ekki eina dæmið um umfjöllun um ákveðna hreyfingu þar sem ég dró saman
helstu sjónarmið gagnrýnenda.26
Guðni E l í s son
12 TMM 2012 · 4
Erfitt reyndist að fá gagnrýnendur Bjarna Randvers til þess að skilja að slík
glæra í hug- eða félagsvísindum eigi fullan rétt á sér, jafnvel þótt hún birti
umdeild sjónarmið sem nemendur áttu að bregðast við og greina. Glæru
getur t.d. verið ætlað að draga upp á skýran hátt hugmyndir tiltekins hóps
um andstæðinginn, hún er þá lykill að ágreiningsforsendum, sem dregur
ekki síður upp mynd af þeim sem fellir dóminn en viðfangsefni ummælanna.
Yfirlýsingar þær sem Bjarni Randver birti á glæru 33 geta undir ákveðnum
sögulegum kringumstæðum verið réttmæt lýsing á félagslegum afleiðingum
harðlínutrúleysis. En þær geta einnig, undir annars konar sögulegum
kringumstæðum, t.d. í samfélögum þar sem bókstafstrú er fyrirferðarmikil,
verið mælskufræðileg aðferð valdastéttar til þess að þagga niður í lýðræðislegum
tilburðum trúleysingja. Þetta þarf að sjálfsögðu allt að ræða í námskeiði
um nýtrúarhreyfingar og samhengið kallar ávallt á ótal varnagla sem
lúta bæði að greiningu á harðlínutrúleysi og gagnrýnni umræðu um það.
Yfirlýsingarnar sem birtast á glærunni eru einfeldningslegar sé þeim ætlað
að standa sem sjálfstæð ,fræðileg úttekt á afleiðingum harðlínutrúleysis. Þá
mætti skilgreina þær sem boðun eða trúvörn í anda þess sem andstæðingar
Bjarna Randvers ætla honum. En sem útgangspunktum að umræðu sem er
mörkuð ýmiss konar sögulegum og hugmyndafræðilegum skilyrðum gegna
liðirnir allt öðru hlutverki. Þeir verða að leið inn í flókið fræðilegt samhengi,
trúarbragðafræðigreiningu af þeim toga sem Bjarni Randver stundar.
Hver sá sem hefur fylgst með vörn Bjarna í þessu máli ætti að geta
tekið undir þá fullyrðingu að hann sé fremur fulltrúi varnaglans en yfirlýsingarinnar,
málsvari málalengingarinnar fremur en hnitmiðaðs skotgrafastíls.
Svar hans til Siðanefndar HÍ við kæru Vantrúar var 197 blaðsíður
og í þau örfáu skipti sem hann hefur tjáð sig opinberlega um kærumálið á
hendur sér rúmast svörin ekki í athugasemdadálkum fréttamiðlanna, svo að
hann neyðist til að birta þau í mörgum bútum, enda eru þar á ferðinni stuttar
ritgerðir, stundum í kringum 2000 orð. Þetta veit meira að segja Matthías
Ásgeirsson sem skrifaði eitt sinn eftir að Bjarni hafði sent frá sér risavaxna
greinargerð sem svar við ágreiningsatriði á vefsvæði DV: Ef Bjarni Randver
hefði góðan málstað að verja hefði hann svarað í stuttu og kjarnyrtu máli þar
sem auðvelt væri að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Það gerir hann ekki
vegna þess að hann er að reyna að villa um fyrir fólki.27 En sannleikurinn
getur verið flókinn og frekur til rúmsins, sérstaklega ef mælandinn gengur
ekki að honum sem sjálfgefnum og vísum.
Það er í þessu flókna samhengi aðalatriða og aukaatriða sem Bjarni
Randver miðlar þekkingu sinni, jafnvel þegar í henni felst gagnrýnin
greining á mögulegum afleiðingum harðlínutrúleysis.28 Slíka gagnrýni
ætti þá að sjálfsögðu ekki einskorða við trúleysishreyfingar heldur ætti
að vara við hvers kyns niðurrífandi samskiptamynstri á vettvangi trúarlífsumræðunnar.
Rökkvi Vésteinsson hefur skrifað margar opinberar færslur gegn kennslu
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 13
Bjarna Randvers á Fésbók og annars staðar. Í einni af fjölmörgum kappræðum
á netinu sendi hann frá sér eftirfarandi yfirlýsingu (í tveimur
færslum):
Um leið og Bjarni Randver getur bent á rannsóknirnar sem sýna fram á að málflutningur
Dawkins og hans líkra ýti undir hópa sem stuðla að niðurrifi samfélagsins og
Gyðingahatri (eins og stóð í glærunum hans), þá skal ég gúddera Bjarna karlinn sem
akademískt faglegan. [
] Og svo má hann gjarnan sýna fram á hvernig það sama
eigi EKKI við um málflutning kristinna manna, til dæmis Þjóðkirkjunnar.29
Misskilningur Rökkva mótar aðkomu margra að málinu. Gagnrýnendur
Bjarna Randvers virðast ætla að hann þurfi að leggja fram rannsóknir
sem sýni fram á sannleiksgildi þeirra fullyrðinga sem settar eru fram til
greiningar á glærum námskeiðsins. Það gefur auga leið að námskeiðsglærum
væru settar þröngur skorður ef allar fullyrðingarnar yrðu að vera ,sannar
í þeim skilningi að þær væru byggðar á empírískum rannsóknum. Í námskeiði
sem er öðrum þræði helgað djúpstæðum og hugmyndafræðilegum
átökum er nóg að ágreiningurinn sé til staðar til þess að það þurfi að lýsa
honum. Tilgangurinn er vitaskuld öðrum þræði að grafast fyrir um eðli
ágreiningsins sem getur verið af ýmsum toga, allt eftir sögulegu og félagslegu
samhengi hreyfingarinnar sem fjallað er um.
Önnur fullyrðing Rökkva snýr að þeirri óbeinu ásökun að Bjarni Randver
dragi aðeins fram aðra hlið málsins, að á glærum hans bregði ekki fyrir
gagnrýni á málflutning kristinna manna, til dæmis Þjóðkirkjunnar. Þetta
er algeng skoðun meðal forkólfa Vantrúar, t.d. setur Matthías Ásgeirsson
hana fram á vef félagsins haustið 2012, stuttu eftir frávísun Siðanefndar HÍ:
[
] heldur þú að Bjarni Randver hafi fjallað með sama hætti um Þjóðkirkjuna sem
hann tilheyrir og hefur starfað fyrir? Það er varla langsótt að segja að málflutningur
hennar og Lúthers geti (og hafi) verið vatn á myllu haturshreyfinga sem ofsækja
minnihlutahópa eins og gyðinga er það nokkuð? Hefur hann fjallað um einhvern
annan hóp með sama hætti? Ekki er að sjá af [svo] svo sé af glærum hans.30
Matthías segir að öllum líkindum ósatt um þekkingu sína á glærum Bjarna
Randvers en hvergi er að finna nokkra vísbendingu um að hann hafi séð
meira en 10% glæranna í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar og hann hefur án
efa ekkert séð af glærunum í námskeiðinu Kirkjudeildarfræði sem einnig
var haldið 2009.31 Hann hefur því engar ,jákvæðar og ,hlutlausar glærur
að bera saman við ,vondu glærurnar um Vantrú (sem eru líklega þær einu
sem hann hefur undir höndum). Að sama skapi minnist Matthías ekki einu
orði á yfirlýsingar nemenda Bjarna um námskeiðið, en þau gögn er hann þó
með. Davíð Þór Jónsson sagði t.a.m. í greinargerð sinni að Bjarni hefði gætt
algers hlutleysis gagnvart boðskap og kenningum þeirra hreyfinga sem
hann ræddi og að gagnrýnastur hafi hann verið á þjóðkirkjuna en að hans
mati hafði hún í gegn um [svo] tíðina verið iðnari við að vara við ýmsum
Guðni E l í s son
14 TMM 2012 · 4
þessara hópa en nokkur ástæða var til. Fyrir þessu færði hann rök.32 Annar
nemandi Bjarna, trúleysinginn Jakob Ævarsson, lýsir uppbyggingu námskeiðsins
svo:
Mín reynsla af þessum áfanga (eins og mörgum öðrum sem ég hef tekið hjá Bjarna
Randveri) er sú að hvað sem hann er að kenna þá dregur hann fram mestu ádeiluatriði
efnisins samhliða almennri fræðslu. Sbr. ef við lærum um Votta Jehóva, þá er
ýtarleg almenn fræðsla um samtökin fyrst og svo eru mestu ádeiluefnin, eins og
þekkt gagnrýni eða umdeildar kenningar settar fram og kynntar eins og heimsendaspá
þeirra fyrir árið 1975.33
Glærur Bjarna gefa sterklega til kynna að lýsingar Jakobs og Davíðs Þórs séu
réttar.
Ef Matthías hefði t.d. undir höndum glærur Bjarna Randvers úr námskeiðinu
Kirkjudeildarfræði sæi hann að í glærupakkanum Lútherskir
(sem lagður var fram í námskeiðinu) snúast glærur 14 til 21 um tengsl
lúthersku kirkjunnar við Þýskaland nasismans og ábyrgð hennar á vexti og
uppgangi hans, þótt vissulega bendi Bjarni einnig á fulltrúa innan kirkjunnar
sem tóku virkan þátt í andstöðunni gegn þessari öfgahreyfingu (glærur 19
og 20). Önnur glæra úr glærusettinu Rómversk-kaþólska kirkjan gengur
jafnvel lengra í ,andúð sinni á kristnum kirkjudeildum sé tekið mið af leshætti
vantrúarfélaga en þar birtir Bjarni Randver frétt úr Morgunblaðinu
þar sem ræða Benedikts XVI. páfa við Regensburg-háskóla í Þýskalandi í
september 2006 er gerð að umfjöllunarefni. Páfi tengdi saman íslamstrú og
ofbeldi, en ræða hans var fordæmd af ýmsum talsmönnum múslima og haft
eftir Magnúsi Þorkeli Bernharðssyni, sérfræðingi í málefnum Mið-Austurlanda,
að hún: Gæti orðið vatn á myllu öfgamanna (glæra 81).34
Þótt kenning Matthíasar um ,jákvæðar og ,neikvæðar glærur sé sett fram
sem staðreynd mætti færa fyrir því rök að nærtækara væri að skilgreina
hugmyndir hans um Bjarna Randver á forsendum trúvarnar og vegna þess
að hugmyndir hans eru nánast af trúarlegum toga er útilokað að fá hann
og aðra sem hafa sig í frammi í þessu máli til að breyta afstöðu sinni í ljósi
fyrirliggjandi gagna.
Gagnrýni Bjarna Randvers er því á engan hátt bundin við trúleysishreyfingar.
Hann leggur mikið upp úr umburðarlyndi og skilningi,35 en þó
ekki á kostnað þess að draga fram ýmislegt ámælisvert og annað sem kallar
á skýringar og frekari greiningu. Nemendur verða samkvæmt hæfnismatinu
að geta lagt gagnrýnið fræðilegt mat á félagslega og menningarlega stöðu
nýtrúarhreyfinga á Íslandi og geta vegið og metið hvort hætta stafi af
einstökum umdeildum nýtrúarhreyfingum. Sú gagnrýna nálgun sem vantrúarfélagar
kvarta mest undan er þannig liður í fræðilegum forsendum
námskeiðsins og almennum viðmiðum fræðigreinarinnar.
Að sama skapi skiptir umburðarlyndi og skilningur máli í allri greiningu.
Glæra 22 í 4. hluta Frjálslyndu fjölskyldunnar snýr einmitt að særandi
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 15
ummælum Karls Sigurbjörnssonar biskups sem talaði á niðrandi hátt um
trúleysi. Óbilgjörn afstaða valdhafa getur að mati Bjarna Randvers varpað
ljósi á málflutning þeirra vantrúarfélaga sem þykir að sér vegið og bregðast
því við á sama hátt. Til þess að draga þetta fram birti Bjarni glæru með
grein eftir Véstein Valgarðsson þar sem hann segir biskup hafa sent okkur
trúleysingjum ófáar sneiðarnar á undanförnum árum. Til dæmis hefur
hann líkt okkur við siðleysingja og sagt lífsviðhorf okkar mannskemmandi
og sálardeyðandi og að þau ógni mannlegu samfélagi. [
] Það er holur
hljómur í tali um virðingu og umburðarlyndi, þegar biskup lætur svona
dembur ganga yfir þá sem aðhyllast önnur lífsviðhorf.36 Við erum minnt
á hversu öflugt þöggunartæki ásakanirnar á glæru 33 geta verið og hér er
að finna enn eina vísbendinguna um hvers vegna ekki er hægt að lesa hana
án þess að taka tillit til annarra glæra og hins fræðilega samhengis námskeiðsins.
Viðhorfin sem birtast á glæru 33 má víða finna í trúarbragðaumræðunni,
jafnt hér á landi sem erlendis. Egill Helgason gagnrýndi Bjarna Randver
harðlega fyrir að gera þeim skil í kennslustund, en í umræðunni um
Dawkins og fylgismenn hans sýndist honum steininn tak[a] úr. Það kemur
því líklega lesendum nokkuð á óvart að Egill skuli sjálfur vera fulltrúi
margra þeirra sjónarmiða sem hann deilir ranglega á Bjarna Randver fyrir að
boða í kennslustund með glærunni umtöluðu. Aðkoma Egils Helgasonar að
þessu máli er sorglegur vitnisburður um þá tækifærismennsku sem stundum
einkennir þjóðmálaumræðuna á Íslandi.
Egill Helgason og vantrúartalibanarnir
Á árunum 2006 til 2007 skrifaði Egill Helgason röð pistla þar sem hann
gagnrýndi félagasamtökin Vantrú fyrir herskátt trúleysi en vantrúarfélagar
höfðu þá um nokkurt skeið verið umsvifamiklir í allri trúmálaumræðu í fjölmiðlum
og á netinu og beint spjótum sínum mjög að þjóðkirkjunni og m.a.
vinaleið hennar innan grunnskóla. Vantrúarfélagar svara Agli í hvert sinn
fullum hálsi, bæði í umsagnarkerfinu undir pistlum hans og á vefjum sem
tengjast þeim með einum eða öðrum hætti.37 Tónninn breytist fyrst eftir að
Egill býður Matthíasi Ásgeirssyni virkasta félaga í samtökunum í Silfur
Egils í desember 2007, en líta má á þann fund sem eins konar sáttargjörð
milli Egils og vantrúarfélaga vegna þess að tóninn í samskiptunum breytist
verulega eftir þetta og vantrúarfélagar hætta að láta skammirnar dynja á
Agli. Egill, sem varið hafði þjóðkirkjuna fram að því, birtir nokkrum dögum
síðar grein sem hugnast vantrúarfélögum mjög en hún nefnist Þjóðkirkjan
er búin að vera.38
Átökin við helstu liðsmenn Vantrúar má líklega rekja til pistils sem Egill
skrifaði 19. janúar 2006 þar sem hann fjallaði á gagnrýninn hátt um herskátt
trúleysi. Egill kvartar yfir því að umræðan um trúarbrögð stýrist af pólitískri
Guðni E l í s son
16 TMM 2012 · 4
rétthugsun, t.d. sé þrýstingurinn á kristna söfnuði um að leyfa kirkjuvígslur
samkynhneigðra ósanngjarn. Rangt sé að ásaka trúað fólk um fáfræði og
fordóma, það vilji fara hægt í sakirnar og álíti einfaldlega samtímann vera
óþarflega ágengan og frekan. Kirkjunni verði að sýna umburðarlyndi þótt
hún sé treg í taumi og forðast beri að feta þá slóð sem farin hafi verið í
Bretlandi þar sem fólk sé handtekið og sæti lögreglurannsóknum ef það sé
grunað um hómófóbíu. Pistlinum lýkur svo:
Talandi um herskátt trúleysi. Það þykir allt í lagi að lemja kröftuglega á trúuðu
fólki. Í Bretlandi er nýbúið að sýna sjónvarpsþætti eftir Richard Dawkins, eitt helsta
átrúnaðargoð trúleysingja, þar sem hann líkir trúnni við veirusýkingu og flokkar
barnatrú með misnotkun á börnum. Þættirnir heita Rót alls ills hvorki meira né
minna. Sjálfur boðar Dawkins hugmyndir sem byggja á eigingjarna erfðaefninu
það er í sjálfu sér áhugaverð kenning en heldur nöturleg. Menn eins og hann
verið [svo] að boða endalok trúarbragðanna í mörg hundruð ár við minnumst
til dæmis Voltaires og frægra orða hans: Écrasez linfâme! en ekki enn orðið að
ósk sinni. Meira um það síðar, en nefna má að bæði kommúnismi og nasismi eru
afsprengi skynsemishyggju, gerðu meira að segja tilkall til að vera einhvers konar
vísindi.39
Óli Gneisti Sóleyjarson svarar Agli í athugasemdakerfi pistilsins og segir það
ómerkilegt og ósmekklegt bragð að líkja andstæðingum sínum við nasista
og kommúnista, þótt tilgangur Egils sé líklega að minna á að skynsemishyggja
sé langt í frá trygging fyrir réttum eða gáfulegum skoðunum. Óli
Gneisti tekur gagnrýnina svo upp í tveimur stuttum pistlum um efnið á
heimasíðu sinni sama dag og tveimur dögum síðar. Þar ítrekar hann að Egill
líki vantrúarfélögum við kommúnista og nasista og segir þetta svo sem vera
eins og flest sem kemur frá Agli, einfeldningslegt hjal.40 Vantrúarfélagar
létu ekki þar við sitja. Vésteinn Valgarðsson skrifaði langa grein á vef félagsins
um efnið þar sem hann rekur hinar ýmsu rökvillur sem finna megi í pistli
Egils41 og í athugasemdakerfinu segir Birgir Baldursson hann augljóslega
fordómafullan í garð trúlausra, sér í lagi þeirra sem láta í sér heyra. Jón
Magnús [Guðjónsson] segir Egil vera með skítinn langt upp á bak í þessari
grein sinni og Óli Gneisti segir að álit sitt á Agli hafi ekki lækkað við að
lesa þessa grein hans, botninum var þegar náð.
Í marsmánuði 2007 birtir Egill síðan röð greina gegn herskáu guðleysi.42
Hann segir það orðið erfitt að sjá hverjir séu verri eða ofstækisfyllri
ofstækisfullir trúmenn eða ofstækisfullir trúleysingjar.43 Hann kennir andstöðuna
við menningarleysi og segir engan verða verri af því að læra smá
kristindóm án þess skiljum við ekki vestræna menningu, hálfvolg kristni
þjóðkirkjunnar heilaþvoi engan. Af því sögðu heldur Egill uppteknum hætti
og dregur fram líkindi með borgaralegri fermingu Siðmenntar og efnishyggjunni
sem tíðkaðist austan járntjaldsins. Hann segir: Sum fermast
reyndar borgaralega hjá félagsskap sem heitir Siðmennt. Raunar hef ég
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 17
aldrei skilið af hverju þeir sem eru ekki trúaðir vilja hafa fermingar. Þetta
mun líka hafa tíðkast í kommúnistaríkjum. Í gamla Austur-Þýskalandi voru
haldnar fermingar í anda díalektískrar efnishyggju Jugendweihe.44
Rúmri viku síðar áréttar Egill skoðun sína um hófsöm sjónarmið í pistli
sem fjallar um fordóma og lífið á miðjunni. Honum leiðist ekki síst ofstæki
ýmissa íslenskra trúleysingja og hann líkir gagnrýni þeirra við ofsóknir á
hendur trúarhreyfingum í Sovétríkjunum sálugu. Það er sérstaklega forvitnilegt
að þessar hugleiðingar um ofbeldisfullt guðleysi er ekki lengur að
finna í pistli Egils, þeim hefur verið eytt:
Síðustu dagana hef ég til dæmis fengið yfir mig gusur frá hópi mannna [svo] sem mér
liggur við að kalla vantrúartalibana. Ég er sammála Mikael Torfasyni sem skrifar og
segist hafa haldið að trúleysi fæli í sér umburðarlyndi en svo hafi hann komist að
öðru. En þá má ekki gleyma því að í rússnesku byltingunni leiddi trúleysið til þess
að guðshús voru jöfnuð við jörðu og prestar voru fangelsaðir og drepnir.
Illt er að æra óstöðugan. Það vitum við sem erum á miðjunni og viljum helst að öll
dýrin í skóginum séu vinir. Maður er ekki fyrr búinn að setja fram hugsun sem er andstæð
hinu ofsafengna trúleysi en trúleysingjarnir hópast á vefinn. Athugasemdakerfið
fyllist á örfáum mínútum. Get a life hugsar maður. Hafið þið ekkert betra að gera?
Sum kommentin eru svo dónaleg að maður neyðist til að fjarlægja þau.45
Ofstækisfullt trúleysi getur leitt til ofsókna og morða segir Egill, dregur fram
talibanastimpilinn og vekur upp spurningar um hvort einhver skyldleiki sé
með félagslegri hreyfingu á borð við Vantrú og herskáum bókstafstrúarhreyfingum.
Egill var gagnrýndur fyrir pistla sína í athugasemdadálkinum sem fylgir
þeim en fátt eitt hefur varðveist af þeim harðskeyttustu þar sem Egill eyddi
öllum sem honum voru á móti skapi.46 Þó tóku ýmsir vantrúarfélagar til
máls á eigin síðum. Óli Gneisti Sóleyjarson lét t.a.m. þau orð falla að honum
þætti það óskiljanlegt hvernig Egill Helgason náði að teljast merkilegur
þáttastjórnandi. Hann hafi vissulega náð að fylla upp í ákveðið tómarúm
með þætti sínum en merkilegri [sé] hann ekki. Ég man reyndar ekki eftir
að hafa horft á einn einasta þátt af Silfri Egils í heild sinni og ég hef aldrei
saknað þess.47 Auk þessa voru skrif Egils gerð að umræðuefni á vef Vantrúar.
Í greininni Ofstækisfullur kverúlant? frá 6. mars 2007 ræðir Hjalti
Rúnar Ómarsson sérstaklega nýleg greinaskrif hans og gagnrýnir Egil fyrir
að tjá sig um mál sem hann hafi lítið vit á.48
Líklega náðu átökin milli Egils Helgasonar og vantrúarfélaga fyrstu
vikuna í mars táknrænu hámarki þegar Egill hringdi heim til Óla Gneista og
bannaði honum að senda inn athugasemdir við skrif sín. Á þennan hátt lýsir
Óli Gneisti samskiptum sínum við þáttastjórnandann:
Egill Helgason er ekki hrifinn af því að fólk leiðrétti rangfærslur hans. Í dag er hann
búinn að eyða bæði svari frá mér og Matta við nýjasta pistill sinn. Ég ákvað að prufa
Guðni E l í s son
18 TMM 2012 · 4
að senda athugasemdina aftur en aftur var henni eytt. Í þriðja skiptið var ekki nóg að
athugasemdinni væri eytt heldur fékk ég símtal frá Agli Helgasyni. Egill var frekar
æstur en ég skal reyna að koma með nokkra punkta úr samtalinu.
Ef ég kommenta aftur þá lætur hann loka fyrir IP-töluna mína. Enginn frá Vantrú
má kommenta á greinar hjá honum. Jón Torfason er gáfaðri/merkilegri en ég af því að
hann er úr sveit, er gamall og heitir ekki asnalegu nafni! Egill játaði að vera alveg sama
Vinaleið [svo] en er bara að tala um hana til þess að æsa andstæðinga hennar upp. Við
á Vantrú erum vitlausir að láta hann æsa okkur upp.
Hann skellti á um það bil þegar ég fékk hláturskast úr [svo] af sveitamanna komment
inu. Kannski að ég sendi Eygló að tala við hann næst. Hún er úr sveit og þess vegna
er hún ákaflega gáfuð. Þar að auki heitir hún svona klassísku nafni. Það er ekki alveg
jafn flott og Jón en það ætti að duga.49
Þótt vissulega sé minnst á Egil Helgason á vefsvæðum vantrúarfélaga vorið
og sumarið 2007 fjara deilurnar hratt út en blossa svo aftur upp um haustið
þegar Egill skrifar enn einn pistilinn til höfuðs ,ofstækisfullu trúleysi og
ræðir nú andstæður skynsemishyggju og trúarþarfar. Egill segir vandann
við Richard Dawkins [vera] að hann er síst minni ofstækismaður en margt
af því fólki sem hann er að fjalla um á meðan nýaldarkúltúrinn er frekar
vinalegur. Egill segir fólk geta fundið sér ótalmargt verra [
] til að gera og
minnir á að ekki geti allir verið skynsamir:
Í þessu felst líka ákveðin þversögn. Dawkins og hans fólk (sem mér liggur við að
kalla sértrúarsöfnuð) er mjög uppsigað við það sem má kalla trúarþörf. En sóknin
í nýaldargutlið ber vott um mikla þörf fyrir að trúa við getum jafnvel kallað það
trúgirni.50
Vísað var til pistils Egils í sérstakri athugasemd á vef Vantrúar og spunnust
um hann nokkrar umræður.51 Matthías Ásgeirsson andmælir t.a.m. þeirri
hugmynd að Vantrú [sé] fólkið hans Dawkins. Þetta er kjánaleg mýta sem
Egill og [svo] endurtekur hér. Dawkins er ekki leiðtogi trúleysingja frekar en
Randi, Shermer, Sagan, Dennet [svo] eða Bertrand Russel [svo].52 Vantrúarfélaginn
Svanur Sigurbjörnsson læknir gagnrýndi Egil í athugasemdakerfinu
með orðunum: Pistill Egils er ótrúlega slappur. Hann sakar Dawkins
ofstæki [svo] og líkir Vantrú við sértrúarsöfnuð án rökstuðnings. Þetta er
ótrúlega ábyrgðarlaust og grunnhyggið. Hann skrifaði svo sérstakan pistil á
vefsvæði sínu þar sem hann gagnrýndi skrifin frekar.53 Teitur Atlason, sem
gekk undir nafninu Khomeni í Vantrú, telur skrif Egils vera viðbrögð við
málefnalegri gagnrýni, en Prímadonnan Egill trompaðist náttúruleg [svo]
og fór meir að segja hamförum í SÍMTÖLUM við vantrúarmeðlimi! Teitur
segir Egil enn og aftur hafa undirstrkað [svo] sjálfan sig sem mesta vindbelg
íslenkskra [svo] bloggara. í [svo] honum hvín af meiri þrótt [svo] en víðast
hvar í netheimum.54
Barátta vantrúarfélaga við Krulla kverúlant, en það var uppnefni sem
Matthías Ásgeirsson notaði um Egil,55 fólst ekki aðeins í því að andmæla
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 19
hugmyndum sjónvarpsmannsins um róttækt guðleysi og mannréttindabrot,
heldur einnig að herma verstu öfgahugmyndirnar upp á Egil sjálfan. Á þann
hátt varpar Matthías fram þeirri spurningu í einni færslu hvort Krulli
kverúlant sé nasisti, sú yrði a.m.k. niðurstaðan ef hann beindi greiningarforsendum
sínum að sjálfum sér.56
Það eru einmitt sjónarmið eins og þau sem Egill er fulltrúi fyrir í dæmunum
hér að ofan og deilt er um af fullri hörku sem Bjarni Randver
vildi draga fram í umræðu nemenda um glæruna alræmdu. Er hægt að
ræða um Dawkins og hans fólk og segja þetta vera sértrúarsöfnuð? Hvers
konar trúarlífsfélagsfræðiskilgreiningar myndu sjálfkrafa útiloka allan
slíkan samanburð og hvers konar skilgreiningar halda honum opnum?
Grefur ofstækisfullt trúleysi undan allsherjarreglu samfélagsins, eða eru
dæmin sem Egill tekur frá austantjaldsríkjunum aðeins vitnisburður um
að í alræðisríkjum sem leggja áherslu á díalektíska efnishyggju þrífast hvers
konar öfgamyndir trúleysishugmyndafræðinnar? Að sama skapi gefa pistlar
Egils tækifæri til þess að varpa fram þeim spurningum hvort ofstækisfullt
trúleysi geti undir ákveðnum sögulegum kringumstæðum leitt til ofbeldis?
Hverjir sæju sér jafnframt hag í að halda slíku fram og hefur ásökunin um
öfgamyndir trúleysis verið notuð til þess að þagga niður í hófsamari kröfum
trúleysingja, t.d. í íslenskri umræðu?
Overton-glugginn og sannleikurinn um alheiminn
Fjórum árum eftir átökin við Vantrú virðist Egill búinn að gleyma
,greiningu sinni á vantrúartalibönum og fólkinu umhverfis Dawkins sem
honum lá áður við að kalla sértrúarsöfnuð. Sinnaskipti Egils má líklega
rekja til þess að hann vilji láta af skærum sínum við félagsmenn og sé nú til í
að fallast á ýmis þau sjónarmið Vantrúar sem honum hefðu áður þótt óhugsandi.
Harkan í samskiptum vantrúarfélaga við þáttastjórnandann hefur
náð tilætluðum árangri, gert afstöðu sem hann hefði skilgreint sem hreinar
öfgar fimm árum fyrr að ásættanlegu sjónarmiði sem vel megi taka undir
og verja. Aðferðafræði Vantrúar má rekja til þrýstihópa sem fá oft þau verkefni
að sveigja almenningsálitið að sjónarmiðum viðskiptavina sinna, eða
frá óheppilegum eða kostnaðarsömum stjórnvaldsaðgerðum. Aðferðin, sem
nú er gjarnan kennd við bandaríska frjálshyggjumanninn Joseph P. Overton
og kölluð Overton-glugginn, snýr að því að færa viðmiðunarrammana (eða
gluggana) í samfélagsumræðunni, gera öfgahugmyndir úr samtímanum
ásættanlegar og ásættanleg sjónarmið smám saman óhugsandi, allt eftir
markmiðum félagsins. Þetta er m.a. gert með því hafna samræðunni sem
miðlunartæki, með því að gera málamiðlunina brottræka. Eina ásættanlega
sjónarmiðið er það sem viðkomandi félag eða þrýstihópur heldur fram. En
aðferðin virkar aðeins sé henni haldið undir yfirborðinu. Þegar Matthías
Ásgeirsson veltir því fyrir sér á umræðuþræðinum sem helgaður er Bjarna
Guðni E l í s son
20 TMM 2012 · 4
hvort spyrja eigi hvernig standi á því að fræðimaðurinn Bjarni Randver
nefni hugtakið Overton glugginn hvergi á nafn þegar það sé (augljóslega)
lykilhugtak í starfssemi félagsins varar Óli Gneisti Sóleyjarson við öllum
slíkum tilburðum og segist alltaf vera á móti því að þeir tali of mikið
um Overton gluggann því sú taktík virkar betur þegar fólk veit ekki af
henni.57
Það má til sanns vegar færa. Egill Helgason deilir nú skyndilega sýn vantrúarfélaga
og er nú fullur undrunar og vanþóknunar yfir kennsluháttunum
í Háskóla Íslands. Hann segir á umræðuþræði á fésbókarsíðu Stefáns Einars
Stefánssonar að Bjarni reyni að stimpla Vantrú sem sértrúarhóp sem er
auðvitað rangt.58 Egill heldur því jafnframt fram að glærurnar hafi verið
sérlega ómálefnalegar, það var mjög langt til seilst til að sverta þennan
félagsskap. Og að ætla að fara að skilgreina samtök trúleysingja sem sértrúarhóp,
ja, af hverju þá ekki femínistafélagið eða Sjálfstæðisflokkinn eða
hvað sem er. En eins og ég segi, mér finnst þetta fyrst og fremst vera kjánalegt
hjá manninum og allt þetta upphlaup er kjánalegt (kl. 10:05). Þegar Egill
var áður spurður að því hvort hann sé nokkuð með þessu að vega að heiðri
sérfræðinganna í túlkunarvísindum sem skrifuðu greinargerðir til varnar
glærum Bjarna svaraði hann: Jú, ætli það ekki. Ég dreg ekki í efa rétt hans til
að setja þetta fram, en ég hefði ekki viljað sitja þetta námskeið (kl. 10:01).
Davíð Þór Jónsson, sem var eins og áður sagði einn af nemendum
Bjarna í umræddu námskeiði, svarar Agli á umræðuþræðinum og reynir
að útskýra fyrir honum fræðilegar forsendur námskeiðsins þótt fésbók
sé vissulega ekki hentugasti miðill til slíks. Davíð Þór segir: Akademísk
trúarlífsfélagsfræði fjallar um hópa sem skipuleggja sig utan um afstöðu
til eilífðarmálanna. Það að trú er viðfangsefni hópsins gerir hann að viðfengsefni
[svo] fræðanna, ekki það hver afstaðan er. Hitt er annað mál hvort
nýtrúarhreyfing sé nógu gott orð. Enda fjallaði fyrsti fyrirlesturinn aðeins
um þessar skilgreiningar og hve vandasöm öll termínólógía væri. Ég sat þetta
námskeið og það var gott. Glærurnar gefa ekki tæmandi mynd af því sem þar
fór fram (kl. 10:07).
Stefán Einar Stefánsson svarar yfirlýsingum Egils um kjánalegt upphlaup
og segir: ég treysti nú sannast sagna helsta sérfræðingi okkar í sértrúarhópum
og öfgahópum eins og Vantrú, til að leggja mat á það hvernig eigi að
skilgreina starfsemi þeirra. Þá eru þetta afar gildishlaðin orð, þ.e. að tala um
framsetningu hans sem fáránlega og kjánalega án þess að færa fyrir því
gild rök (kl. 10:08). Egill, sem fjórum árum áður hafði eytt athugasemdum
vantrúarfélaga af spjallþráðum sínum og gert þá að fulltrúum ofsafengins
trúleysis, spyr núna: Er Vantrú öfgahópur hvað þá með félagsskap sem
trúir því að mannkynið bjargist vegna þess að maður dó á krossi í Palestínu
fyrir tvö þúsund arum [svo] :) ? (kl. 10:16). Hann bætir við í tveimur
færslum nokkrum mínútum síðar:
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 21
mér finnst þetta reyndar afar leiðinlegur og frekur félagsskapur, meðal annars vegna
þess að það er ekki nokkurt vit í að hamast þetta í kirkjunni, hún er bara eins og það
er, en mér finnst samt út í hött að bera þeim á brýn að þeir séu öfgahópur skoðanir
þeirra fara nokkurn veginn saman við það sem vísindin segja að sé satt og rétt
um alheiminn [
] Og allt þetta sem var á glærunum miðaði við að sýna Vantrú í
sem verstu ljósi. Það er klént og heimskulegt, en ég ætla ekki að bera brigður á rétt
mannsins til að fjalla svona um hlutina en svo má auðvitað velta fyrir sér hvort
guðfræði eigi yfirleitt að kenna í háskóla. (kl. 10:22 og 10:24)
Síðasta athugasemdin sýnir glögglega vanþekkingu Egils á viðfangsefninu.
Námskeið Bjarna Randvers var kennt á forsendum trúarlífsfélagsfræði, ekki
guðfræði. Hér ber einnig að hafa í huga að þeir einu sem skilgreint hafa
Vantrú sem öfgahóp í umræðunni sem vitnað er til hérna eru þeir Stefán
Einar Stefánsson og Egill Helgason. Þó að Stefán Einar vísi til Vantrúar sem
öfgahóps og ræði Bjarna Randver í leiðinni, er ekki hægt að gera Bjarna
ábyrgan fyrir þeim orðum frekar en Bjarni ber ábyrgð á hugmyndum Egils
Helgasonar frá 2006 og 2007. Hugmyndir Bjarna Randvers um Vantrú eru
líka miklu flóknari en svo að þær megi skilgreina með stikkorðahugsun af
því tagi sem Egill og Stefán beita hérna.59
Það sem er reyndar fréttnæmast við þessi skoðanaskipti Stefáns Einars og
Egils er að á aðeins fjórum árum hafa þessi félagasamtök umbreyst frá því
að vera svæsinn sértrúarsöfnuður sem ítrekað vekur upp hugrenningatengsl
hjá Agli við kommúnisma og nasisma, yfir í að birta skoðanir sem fara
nokkurn veginn saman við það sem vísindin segja að sé satt og rétt um
alheiminn. Þetta verður að teljast nokkur árangur hjá aðgerðasinnunum
innan Vantrúar. Egill hefur hér gengist inn á umræðuforsendur hópsins og
tekið sér stöðu með sínum gömlu andstæðingum í máli þar sem kennari
við Háskóla Íslands er kærður fyrir glæru sem gerir gamla afstöðu Egils að
umfjöllunarefni. Grétar Halldór Gunnarsson áttar sig á mikilvægi þessa því
á sama spjallþræði segir hann réttilega: Nógu mikið hefur Egill samt snúist
á sveif með þeim. Þannig að skærur þeirra gegn honum hafa greinilega ekki
verið til einskis hjá þeim, sbr. Overton-gluggann sem þeir hafa að leiðarljósi
(kl. 10:31).
Hlutskipti Bjarna Randvers er á engan hátt frábrugðið vanda þeirra vísindamanna
sem á undanförnum áratugum hafa legið undir opinberu ámæli
fyrir rannsóknir sem ógna ríkum hagsmunum, eða ganga í berhögg við hugmyndafræði
þrýstihópsins. Slíkir rannsakendur eru oft úthrópaðir, krafist
er afsagnar þeirra og almenningur er æstur upp í ofsafengna andúð, gjarnan
með hjálp misviturra fjölmiðlamanna. Hið sanna í málinu skilar sér seint og
jafnvel aldrei út í samfélagið, því að sannleikurinn er of frekur til rúmsins
og krefst of mikils tíma af önnum köfnum lesendum sem axla ekki ábyrgð á
skoðunum sínum með því að grafast fyrir um réttmæti þeirra.
Flestir þeirra einstaklinga sem tóku eindregna afstöðu gegn Bjarna
Guðni E l í s son
22 TMM 2012 · 4
Randveri Sigurvinssyni í kærumáli félagsins á hendur honum töldu sig vera
málsvara skynseminnar sem vissulega má sjá sem ljós í trúarþoku liðinna
alda. Þeir standa kjaftæðisvaktina með Vantrú60 gegn kukli, trú og gervivísindum
og hljóta því sjálfkrafa að vera vitsmunamegin í umræðu þar
sem deilt er á kennara í guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Svo er þó ekki.
Þessir einstaklingar brugðust sannleikanum vegna þess að þeir mynduðu
sér skoðun án þess að skoða öll fyrirliggjandi gögn. Hugmyndir þeirra um
Bjarna Randver og kennsluhætti hans voru mótaðar af trúarsannfæringu
fremur en efnislegu mati, því að kennarinn fékk ekki að njóta vafans þar til
hið sanna í málinu yrði leitt í ljós.
Vissulega getur verið erfitt að greina á milli efahyggju leitandi huga
vísindalegs efa er sprettur af striti og efa letingjans sem nennir ekki að
komast að niðurstöðu um eitt né neitt. En það er aðeins með því að feta
einstigið milli trúarvissunnar og innantómrar efahyggju, milli Karybdísar
fordómanna og Skyllu fáfræðinnar, sem við þokum okkur áleiðis í skilningi
á samfélaginu og efnisheiminum.
Enginn getur búist við því að standa vísindanna megin í öllum álitamálum.
En ef við horfum á umhverfi okkar af jákvæðri gagnrýni á sama
tíma og við erum full undrunar yfir margbreytileika veraldarinnar verður
okkur fyrirgefið þótt við hlaupum stundum á okkur.
Tilvísanir
1 Yfirlýsing vegna kæru á hendur stundakennara HÍ, Fréttablaðið 13. desember 2011, bls. 18;
og Yfirlýsing vegna kæru á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara sem send
var Siðanefnd HÍ, Morgunblaðið, 13. desember 2011, bls. 20. Undirskriftirnar voru birtar á
vefsíðum miðlanna.
2 Egill Helgason: Athugasemd við fésbókarfærslu Árna Svans Daníelssonar um mál Bjarna
Randvers frá 27. desember 2011: http://www.facebook.com/arni.svanur.danielsson/
posts/197833200310415 [sótt 18. janúar 2011].
3 Um yfirlýsingu Reynis hefur víða verið fjallað, m.a. í grein Barkar Gunnarssonar: Heilagt
stríð Vantrúar, Morgunblaðið 4. desember 2011, bls. 1821. Einnig má nefna ítarlega samantekt
Hörpu Hreinsdóttur sem skrifuð var á tímabilinu 8. janúar til 22. febrúar 2012, en henni hefur
verið safnað saman í eitt skjal, Vantrú gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni: http://harpahreins.
com/vantru_gegn_bjarna_randveri.pdf [sótt 4. september 2012]. Í greinargerð sinni
Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir
Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010) rekur Bjarni Randver í ítarlegu máli hvernig vantrúarfélagar undirbjuggu
kærumálið og styðst þar við fjöldamörg gögn. Mikilvægasta varnarskjalið sem vísað
er til í tímatöflunni er líklega Söguskoðun Bjarna Randvers [framvegis SBR], en þetta er
umræðuvefur félagsmanna Vantrúar sem lekið var til Bjarna Randvers. Sjá Reynir Harðarson:
SBR, 12/2/2010, kl. 15:22.
4 Reynir Harðarson: SBR, 5/2/2010, kl. 11:46.
5 Sjá t.d. frétt Egils Ólafssonar á vefsvæði Morgunblaðsins: Var ekki brotlegur í starfi, 16.
febrúar 2012: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/02/16/var_ekki_brotlegur_i_starfi/ [sótt
15. október 2012].
6 Vantrúarfélagar neituðu því að Bjarni Randver hefði verið kærður til lögreglu en urðu að draga
þær yfirlýsingar til baka þegar Bjarni lagði fram gögn frá lögreglustjóra máli sínu til stuðnings.
Sjá til dæmis athugasemdir núverandi formanns, Egils Óskarssonar, við ritstjórnargreinina
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 23
Bjarni vann, Háskóli Íslands tapaði, 6. október 2012 (07/10/12, kl. 14:26 og 22:05): http://
www.vantru.is/2012/10/06/16.30/ [sótt 9. október 2012].
7 Ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands samkvæmt 4. gr. starfsreglna nefndarinnar í máli nr.
3/2012, bls. 11. Formaður Siðanefndar HÍ í fimmta kærumáli Vantrúar er Björg Thorarensen
prófessor við Lagadeild á Félagsvísindasviði en aðrir nefndarmenn eru Hafliði Pétur Gíslason
prófessor í Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og Sveinbjörn Björnsson
eðlisfræðingur.
8 Ritstjórn Vantrúar heitir því að bregðast við úrskurði Siðanefndar með einhverjum hætti í ritstjórnargreininni
Bjarni vann, Háskóli Íslands tapaði, 6. október 2012: http://www.vantru.
is/2012/10/06/16.30/ [sótt 6. október 2012].
9 Kæra Vantrúar til Siðanefndar Háskóla Íslands, bls. 4. Hér eftir verður blaðsíðutal kærunnar
tilgreint í sviga aftan við tilvitnun.
10 Níels Dungal: Blekking og þekking. Reykjavík: Helgafell 1948.
11 Egill Helgason: Furðuleg framsetning á kennsluefni, 26. desember 2011: http://silfuregils.
eyjan.is/2011/12/26/furduleg-framsetning-a-kennsluefni/ [sótt 10. febrúar 2011].
12 Hér má nefna kenningar um ímynduð ítök Bjarna Randvers í íslenskri samfélagsumræðu
sem finna má á umræðuþræðinum SBR: Frelsarinn, 2/10/2009, kl. 8:53; Reynir Harðarson:
12/2/2010, kl. 15:22; Matthías Ásgeirsson, 11/3/2010, kl. 2:47; Frelsarinn, 11/3/2010, kl. 3:31; Óli
Gneisti Sóleyjarson, 7/4/2010, kl. 5:52; og Sindri Guðjónsson, 25/4/2010, kl. 6:40.
13 Bjarni Randver Sigurvinsson: Samráðsvettvangur trúfélaga á Íslandi og samskipti Þjóðkirkjunnar
við önnur trúarbrögð, Bjarmi 2. tbl. 2. árg., júlí 2008, bls. 2731.
14 Bjarni Randver Sigurvinsson: Kveðja og velfarnaðarósk. Bréf sent inn á kennsluvef HÍ til allra
nemenda námskeiðsins Nýtrúarhreyfinga, 6. desember 2009.
15 Sjá athugasemd Egils Óskarssonar við ritstjórnargreinina Bjarni vann, Háskóli Íslands tapaði
(10/10/2012, kl. 19:40).
16 Sjá t.d. Níels Dungal: Blekking og þekking, bls. 9, 25, 114, 148, 185, 212, 355, 469, 478, 480 og 493.
Gott dæmi er setningin: Það er ávallt hægara að reka og teyma skynlausar skepnur heldur en
hugsandi menn, bls. 469. Í innganginum segir Níels bókina skrifaða frá sjónarmiði mannsins
sem hugsar meira en hann trúir (bls. xv).
17 Athugasemd Matthíasar Ásgeirssonar um bloggfærslu sína Punktar um umfjöllun (af http://
www.orvitinn.com), 24. janúar 2012 (31/01/2012, kl. 10:36).
18 Egill Helgason: Furðuleg framsetning á kennsluefni, 26. desember 2011.
19 Bjarni segir orðrétt á glærunni: Myndin hér til hliðar er af bloggsíðu framhaldsskólakennara
í Reykjavík. Lengst af var síðan öllum aðgengileg en er nú aðeins fyrir innskráða. Múslimar á
Íslandi mótmæltu síðunni hjá Morgunblaðinu og viðkomandi framhaldsskóla. Höfundur tekur
þátt í umræðum hjá Vantrú en óvíst er hvort hann telst félagi.
20 Egill Helgason: Furðuleg framsetning á kennsluefni, 26. desember 2011.
21 Valgarður Guðjónsson: Er svona í lagi í HÍ? 27. apríl 2010: http://blog.eyjan.is/ valgardur/
2010/04/27/er-svona-i-lagi-i-hi/.; Valgarður Guðjónsson: XIII Guðfræði í HÍ: Þögnin rofin.
Viðbrögð: Valgarður Guðjónsson,Vantrú, 11/03/2010, kl. 11:04: http://www.vantru.is/
2010/03/10/13.00/.
22 Yfirlýsingarnar er allar að finna í athugasemdadálkinum undir færslu Egils Helgasonar
Furðuleg framsetning á kennsluefni frá 26. desember 2011.
23 Ásgeir: Athugasemd við bloggfærslu Matthíasar Ásgeirssonar Punktar um umfjöllun, 24.
janúar 2012 (28/01/2012, kl. 13:21).
24 Hér skiptir litlu máli þó að stuðningsmenn Vantrúar kjósi allir að líta framhjá þeirri staðreynd
að á glærunni er greint á milli herskás málflutnings Dawkins og fylgismanna hans og svo haturshreyfinga.
Hugmyndin er sem sagt sú að ýmsar haturshreyfingar geti nýtt sér rök róttækra
guðleysingja málstað sínum til framdráttar. Þótt hér sé greint á milli róttækrar trúleysishugmyndafræði
og haturshreyfinga hefði Bjarni auðveldlega getað gengið enn lengra í glærunni en
hann gerði því að fjölmargir andstæðingar trúleysis hafa að engu þennan greinarmun.
25 Bjarni Randver Sigurvinsson: Nýtrúarhreyfingar: https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.
php?tab=nam&chapter=namskeid&id=01751420096 [sótt 20. janúar 2011].
26 Athugasemd Bjarna Randvers Sigurvinssonar við færslu Egils Helgasonar Furðuleg framsetning
á kennsluefni (26/12/11, kl. 23:05).
Guðni E l í s son
24 TMM 2012 · 4
27 Reynir Traustason: Yfirklór rektors, leiðari frá 17. ágúst 2012. Athugasemd Matthíasar
Ásgeirssonar má finna 20/8/2012, kl. 17:29: http://www.dv.is/leidari/2012/8/17/yfirklor-rektors/
[sótt 1. október 2012].
28 Bjarni Randver Sigurvinsson: Svar við kæru Vantrúar, bls. 134136.
29 Rökkvi Vésteinsson af fésbókarsíðu Péturs Björgvins Þorsteinssonar frá 15. janúar 2012
(16/1/2012, kl. 14:32 og 14:35): http://www.facebook.com/petur/posts/10150489462234514 [sótt
14. október 2012].
30 Athugasemd Matthíasar Ásgeirssonar við ritstjórnarpistilinn Vantrú: Bjarni vann, Háskóli
Íslands tapaði (10/10/12, kl. 15:22).
31 Lýsingu á námskeiðinu Kirkjudeildarfræði (GFR206M vor 2009) við Háskóla Íslands má finna
í kennsluskrá ársins 20082009: https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=
namskeid&id=01540020090 [sótt 12. október 2012].
32 Davíð Þór Jónsson: Greinargerð um námskeiðið Nýtrúarhreyfingar, 10. maí 2011.
33 Jakob Ævarsson: Greinargerð um námskeiðið Nýtrúarhreyfingar, 9. maí 2011.
34 Sjá Baldur Arnarson: Fordæma ræðu páfa, Morgunblaðið, 16. september 2006, bls. 1.
35 Bjarni Randver Sigurvinsson: Nýtrúarhreyfingar: https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.
php?tab=nam&chapter=namskeid&id=01751420096 [sótt 20. janúar 2011].
36 Vésteinn Valgarðsson: Trúleysingjar eru líka fólk, Fréttablaðið, 14. desember 2007, bls. 40.
Bjarni fjallar ítarlega um fræðilegu forsendurnar að baki glærunni á bls. 90 í Svari við kæru
Vantrúar. Vantrúarfélagar misskildu tilgang glærunnar og kærðu Bjarna fyrir hana. Þeir segja
í kæru sinni: Þegar þessi glæra er birt eftir heila glæru af uppnefnum og svo aðra sem segir að
slíkt sé ofbeldi er rökrétt að álykta að þessi glæra eigi að sýna að svo vogi þessir ógurlegu menn
sér að kvarta undan ónotum í sinn garð (bls. 12).
37 Af greinum sem birtust á vef Vantrúar eða eru eftir virka vantrúarfélaga og fjalla um eða vísa
til Egils Helgasonar í meginmáli og athugasemdakerfi má nefna (listinn er ekki tæmandi):
Matthías Ásgeirsson: Greindarskertir eða siðlausir, Örvitinn, 27. febrúar 2005; Biskupinn er
ennþá fífl!, Örvitinn, 7. mars 2005; Egill Helgason eyðir athugasemdum, Örvitinn, 3. mars
2007; Hið daglega þvaður, Örvitinn, 3. mars 2007; Þórir Guðmundsson er ekki trúverðugur,
Örvitinn, 5. mars 2007; Æi Egill, Örvitinn, 10. mars 2007; Egill Helgason og 365, Örvitinn,
7. júní 2007; Egill Helgason moggabloggari, Örvitinn, 7. júní 2007; Ayaan Hirsi Ali og Egill
Helgason, Örvitinn, 10. september 2007; Trúarbrögð eru tabú, Örvitinn, 7. ágúst 2008 (sjá allt
á http://www.orvitinn.com); Óli Gneisti Sóleyjarson: Egill Helgason og Vantrú, Gneistinn,
19. janúar 2006; Hjalið hans Egils, Gneistinn, 21. janúar 2006; Egill jarðaður, Gneistinn, 23.
janúar 2006; Hvað er málið? Gneistinn, 2. mars 2007; Egill Helgason eyðir eigin kommenti
(og svari mínu), Gneistinn, 3. mars 2007; Egill Helgason hringdi í mig, Gneistinn, 6. mars
2007; Egill Helgason og ofstækið, Gneistinn, 4. september 2007 (sjá allt á http://truflun.net/
oligneisti/). Á vef Vantrúar birtist síðan röð greina um Egil: Birgir Baldursson: Egill Helgason
sér ekki muninn, Vantrú, 21. febrúar 2005; Vésteinn Valgarðsson: Athyglisverð köpuryrði frá
Agli Helgasyni, Vantrú, 23. janúar 2006; Hjalti Rúnar Ómarsson: Ofstækisfullur kverúlant?
Vantrú, 6. mars 2007; Ritstjórnargrein: Egill Helgason og Vantrú, Vantrú, 4. september 2007;
Óli Gneisti Sóleyjarson: Fylgismenn Dawkins, Vantrú, 10. september 2007 og Um hús guðs
og krónur og aura, Vantrú, 8. október 2007 (sjá allt á http://www.vantru.is/).
38 Sjá t.d. hér: Matthías Ásgeirsson: Herðubreið að svindla á gáttinni? Örvitinn, 6. apríl 2009;
Silfrið, hlutleysi og hægrimenn, Örvitinn, 21. október 2009; Atvinnubloggarar á Íslandi,
Örvitinn, 14. mars 2010; Styrkir, prófkjör og frægð, Örvitinn, 30. apríl 2010; Mogginn lokar
á Loft, Örvitinn, 26. ágúst 2010; Jihad stríðsmenn Vantrúar og ferðafélagsins, Örvitinn, 25.
febrúar 2011 (sjá allt á http://www.orvitinn.com). Egill Helgason: Þjóðkirkjan er búin að vera,
Silfur Egils, 13. desember 2007. Vantrú fagnar strax yfirlýsingu Egils: Þjóðkirkjan er búin að
vera, Vantrú, 13. desember 2007.
39 Egill Helgason: Um fordóma og fáfræði, Vísir, 19. janúar 2006: http://eyjan.pressan.is/
silfuregils/2006/01/19/um-fordoma-og-fafræði/ [sótt 7. september 2012].
40 Óli Gneisti Sóleyjarson: Egill Helgason og Vantrú, Gneistinn, 19. janúar 2006; Hjalið hans
Egils, Gneistinn, 21. janúar 2006.
41 Vésteinn Valgarðsson: Athyglisverð köpuryrði frá Agli Helgasyni, 23. janúar 2006: http:/
www.vantru.is/2006/01/23/07.30/ [sótt 7. september 2012].
Í heimi getgátunnar
TMM 2012 · 4 25
42 Greinarnar eftir Egil Helgason gegn trúleysi í marsmánuði 2007 eru: Wagner í dragi, ofstækisfullt
trúleysi, kosningaauglýsingar, Vísir, 2. mars 2007; VG, anarkisminn, Hjálpræðisherinn
og íslenska krónan, Vísir, 6. mars 2007; og Fordómar, lífið á miðjunni, friðlýsing Skerjafjarðar,
Vísir, 10. mars 2007. Í greininni frá 6. mars lýsir Egill m.a. skoðun félaga síns á íslenskum
trúleysingjum og leggur út af henni: Þetta sýnir hvað það getur farið illa með menn að alast
upp í einangruðu lútersku samfélagi við heimskautsbaug, sagði vinur minn einn eftir að hann
hafði lesið athugasemdir eftir herskáa trúleysingja hér á vefnum. Þessi flokkur manna kemur
víða við heldur meðal annars úti vef sem heitir Vantrú og fólk með þessar skoðanir reynir
líka að hasla sér völl innan stjórnmálaflokka, nú síðast í Vinstri grænum.
43 Egill Helgason: Wagner í dragi, ofstækisfullt trúleysi, kosningaauglýsingar.
44 Sama.
45 Egill Helgason: Fordómar, lífið á miðjunni, friðlýsing Skerjafjarðar. Stytta útgáfu greinarinnar
má finna hér: http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2007/03/10/fordomar-lifið-a-miðjunnifriðlysing-
skerjafjarðar/. Óstytta og upprunalega útgáfu greinarinnar og þá sem vitnað er
til hér má finna á vefsafni.is (þar varðveittust athugasemdirnar): http://wayback.vefsafn.is/
wayback/20070328000000/http://visir.is/article/20070310/SKODANIR02/70310072/1078 [sótt
7. september 2012].
46 Egill viðurkennir sjálfur að hafa eytt athugasemdum við skrif sín og það er staðfest af Matthíasi
Ásgeirssyni og Óla Gneista Sóleyjarsyni. Sjá Matthías Ásgeirsson: Egill Helgason eyðir
athugasemdum, Örvitinn, 3. mars 2007; og Óli Gneisti Sóleyjarson: Egill Helgason eyðir
eigin kommenti (og svari mínu), Gneistinn, 3. mars 2007; og Egill Helgason hringdi í mig,
Gneistinn, 6. mars 2007.
47 Óli Gneisti Sóleyjarson: Hvað er málið?, Gneistinn, 2. mars 2007.
48 Hjalti Rúnar Ómarsson: Ofstækisfullur kverúlant?, Vantrú, 6. mars 2007.
49 Óli Gneisti Sóleyjarson: Egill Helgason hringdi í mig.
50 Egill Helgason: Ofstæki, Silfur Egils, 4. september 2007: http://eyjan.pressan.is/silfuregils/
2007/09/04/ofstæki/ [sótt 7. september 2012].
51 Vantrú: Egill Helgason og Vantrú, 4. september 2007.
52 Hér er líklega að finna skýringuna á því hvers vegna Bjarni Randver var kærður fyrir að birta
glæru með ýmsum áhrifavöldum trúleysingja. Vantrúarfélagar hafa líklega túlkað það sem
atlögu að sjálfstæðri hugsun þeirra.
53 Svanur Sigurbjörnsson: Egill fer röklausum hamförum, 4. september 2007: http://svanurmd.
blog.is/blog/svanurmd/entry/302823/ [sótt 7. september 2012].
54 Af umræðuþræði pistilsins Egill Helgason og Vantrú, 4. september 2007. Sjá Khomeni
05/09/07, kl. 09:47. Umræðurnar um Egil leysast fljótlega upp eftir að Guðjón setur fram þá
fullyrðingu að hann hafi aldrei hitt trúmann sem ekki líti á Dawkins sem ofstækismann (Guðjón
05/09/07, kl. 08:18) og að eitt helsta einkenni á rótæku [svo] trúleysi í anda Dawkins [sé]
þessi algjör [svo] fullvissa um réttlæti málstaðarins og jafnfram [svo] djúpstæð fyrirliting [svo]
á andstæðingum sínum. Hugmyndafræði Dawkins er að mati Guðjóns fasísk í eðlis [svo] sínu
og ef Dawkins nær að hafa áhrif í framtiðinni [svo] liggur beint við að einhvertíma [svo] kemst
til valda alræðisstjórn sem hallast að hugmyndafræði Dawkins myndi sú stjórn handa [svo] um
verkið sem verður aldrei unnið með orðum einu þ.e. að upprætta vírusin [svo] illskeitta [svo]
þá er ofbeldi og morð eina raunhæfa leiðin til þess að hrinda stefnu Dawkins í framkvæmd
(Guðjón 05/09/07, kl. 16:53 og 05/09/07, kl. 22:50). Deilurnar við Guðjón ná yfir rúma 5 daga
og eru 71 færsla (frá Guðjóni (05/09/07, kl. 08:18) til Sigurðar Karls Lúðvíkssonar (10/09/07,
kl. 14:02)). Þær fylgja gamalkunnu mynstri, enda segir vantrúarfélaginn Þórður Ingvarsson
snemma í ,rökræðunum: Grunar að það sé ekki langt í að gripið verði í rökræðutaktíkina
kommúnasism ann til að sýna fram á skaðsemi trúleysis og vísinda (06/09/07, kl. 00:31).
Bjarni var því kærður af vantrúarfélögum fyrir að birta glæru sem snýst um svo djúpstæð
ágreiningsatriði að flestir félagsmanna þekkja þau á svipstundu.
55 Sjá Matthías Ásgeirsson: Krulli kverúlant, 4. september 2007: http://www.orvitinn.com/
2007/09/04/09.01/ [sótt 7. september 2012].
56 Matthías Ásgeirsson: Er Krulli kverúlant nasisti? 26. október 2007: http://www.orvitinn.
com/2007/10/26/00.26/ [sótt 7. september 2012].
Guðni E l í s son
26 TMM 2012 · 4
57 Matthías Ásgeirsson: SBR, 14/9/2010, kl. 18:11; og Óli Gneisti Sóleyjarson: SBR, 14/9/2010,
kl. 18:38.
58 Sjá fésbókarfærslu Stefáns Einars Stefánssonar, 13/12/2011, kl. 09:58: www.facebook.com/
stefan.e.stefansson/posts/277765252271071 [sótt 7. september 2012]. Deilurnar standa yfir
næsta hálftímann.
59 Vantrúarfélagar hafa ítrekað sett fram þá kenningu að skoðanir Stefáns Einars megi rekja til
innrætingar Bjarna Randvers. Hvergi leggja þeir fram gögn sem benda til nokkurs slíks og rétt
er að taka fram að Stefán Einar sótti aldrei umrætt námskeið Bjarna.
60 Kjaftæðisvaktinni á vef Vantrúar er ætlað að hrekja ýmiss konar gervivísindi og nýaldarspeki
með vísindin að vopni. Sjá: http://www.vantru.is/kjaftaedisvaktin/ [sótt 10. október 2012].
Skrár tengdar þessari bloggfærslu: